20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef áður svarað fsp. hv. þm. Þorvalds Garðars um gjaldmiðilsbreytinguna og hef engu við það að bæta. Það hefur spunnist inn í þessar umr. tilvitnanir í ýmislegt sem ég hef látið frá mér fara á undanförnum vikum. Það er aðallega þrennt — eða raunar fernt sem ég hef sagt.í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi hef ég fjallað um verðbólgustigið eins og það er nú, og það er enginn ágreiningur um að það er rúmlega 50% á ársgrundvelli. (Gripið fram í.) Það hefur verið rökstutt hér áður og skal ég ekki þræta um það frekar.

Í öðru lagi hef ég vakið athygli á því, hvert horfi ef ekkert yrði að gert í efnahagsmálum, engar ráðstafanir yrðu gerðar af hálfur hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, hvað mundi þá ske á næsta ári. Þetta er byggt á bráðabirgðaathugunum, sem fram hafa farið í Þjóðhagsstofnun, og er því ekki tekið úr lausu lofti. Álitið er að þá mundi verðbólgan verða um 70% þegar kemur fram á seinni hluta næsta árs.

Í þriðja lagi hef ég látið í ljós ótta um þessa þróun eins og fleiri hv. þm. og hef ekki farið í neinar grafgötur með það, eins og ég hef sagt áður, að þessi þróun sé stórhættuleg af mörgum ástæðum.

Í fjórða lagi hef ég gert grein fyrir skoðunum Framsfl. og gerði það við 1. umr. fjárl. sem fór fram hér á sínum tíma. Talaði ég af hálfu Framsfl. sérstaklega og gerði þá grein fyrir skoðunum flokksins í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálum og þær eru kunnar.

Varðandi ummæli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar vil ég segja:

Hér hefur nú stjórnarandstaðan gert hríð að ríkisstj., og það hefur náttúrlega vakið athygli þm. að þá kemur hv. þm., formaður þingflokks Alþb., og gerir sérstaka aukahrinu að mér í þessu sambandi. Hann minntist á þrjú atriði:

Í fyrsta lagi ræddi hann um verðlagsmál. Um verðlagsmálin er það að segja, að ríkisstj. hefur sett ákveðin mörk um verðlagsákvarðanir. Ef farið hefur verið fram yfir þau hefur það verið gert í ríkisstj. Ekki veit ég eitt einasta dæmi þess, að samþykktar hafi verið verðlagsráðstafanir sem eru umfram þau mörk sem samþ. hafa verið, án þess að það hafi verið gert af ríkisstj. allri.

Í öðru lagi heyra útlán banka undir bankastjóra. Þó að bankarnir falli undir viðskrn. eru bankarnir sjálfstæðar stofnanir. Útlán banka heyra undir viðskiptabankana og Seðlabankann, og það hafa á þessu ári farið fram margar umræðulotur á milli mín og bankanna í sambandi við útlánin — margar umræðulotur. Það er rétt, að útlán bankanna hafa verið meiri en æskilegt hefði verið. En það er þrátt fyrir það að um það hafi verið rætt rækilega af minni hálfu við bankana.

Í þriðja lagi hefur engin breyting orðið varðandi erlendar lántökur, bæði til skamms tíma og langs tíma, frá því sem áður hefur verið. Framkvæmdin hefur verið svipuð því sem áður hefur verið. Hún er í höndum langlánanefndar sem fjallar um lengri lán. Það hafa í einstökum tilfellum verið samþ. lengri lán í ríkisstj. eins og t.d. í sambandi við togarakaup eins og hér hefur verið rætt áður og var rætt hér í vor á hv. Alþ. Það hefur ekki orðið nein stefnubreyting í þessum efnum af mínum völdum, þannig að mér finnst ekki ástæða til þess, að hv. þm. eigi að vera að skemmta skrattanum með svona tali þegar gerð er sérstök hríð að ríkisstj. eðlilega af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það er ákaflega eðlilegt, að stjórnarandstaðan geri hríð að ríkisstj. Það er það sem gerist á þjóðþingum þar sem þingræði ríkir og stjórn og stjórnarandstaða takast á. Mér finnst að hv. þm. ætti nú að sitja kyrr í sæti sínu í staðinn fyrir að ganga í lið með stjórnarandstöðunni í þessum efnum.