20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Viðskrn. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Varðandi seinustu orð hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar vil ég enn þá einu sinni, líklega í fjórða sinnið, ítreka það, hvernig ég svaraði fsp. hans sem hann er raunar enn að ræða um.

Ég svaraði henni þannig, að það væri ekki að mínu mati hægt að fresta þeirri ákvörðun, að myntbreytingin færi fram um áramótin, þegar af þeirri ástæðu, — ég held ég hafi orðað það þannig, — að Seðlabankinn hefði sagt mér aðspurður að það mundi valda öngþveiti í efnahagsog atvinnumálum ef það yrði gert, af ástæðum sem ég hef tilgreint áður í hv. Alþingi.

Í öðru lagi svaraði ég því til, að ríkisstj. ætlaði sér að gera efnahagsráðstafanir í tengslum við gjaldmiðilsbreytinguna, og vitnaði til stefnuræðu hæstv. forsrh. og fjmrh. í því efni. Ég efast ekki um heiðarleika hv. þm. En hverju á viðskrh. að svara Alþ. þegar hann hefur rætt þetta mál við bankastjóra Seðlabankans og fengið þessi svör? Hverju á hann að svara Alþingi? Það er misskilningur að ráðh. hafi tilhneigingu til þess að hundsa Alþingi, síður en svo. Ég held að yfirleitt reynum við ráðh. að upplýsa það sem spurt er. Hitt er annað mál, að það er skoðanaágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu — það er annað mál — og deilur. Menn geta deilt og eiga að deila. Það er heilbrigt. En ég vildi aðeins segja þetta í tilefni af seinustu orðum hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, af því hann efaðist um að ég færi hér með rétt mál í þessu sambandi.