20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Menn hafa rætt hér mikið um verðbólgu og myntbreytingu, og það bregður svo við að nú, þegar stjórnarandstaðan biður um svör, er engu svarað. Það er svarað út í hött. Menn verða engu nær af þessum umr. Við í stjórnarandstöðunni viljum gjarnan fá að vita hvað fram undan er. Það er greinilegt að innan ríkisstj. er mikill ágreiningur á milli flokkanna sem standa að ríkisstj. Það kom fram hér áðan. Mig langar til að spyrja hvort náðst hafi eitthvert samkomulag innan ríkisstj. um efnahagsaðgerðir, hvort deilurnar séu miklar, magnaðar, og væri gaman að fá svör við þessu annaðhvort frá forsrh. eða viðskrh., sem nú hefur verið snupraður hér á ómerkilegasta hátt.

Það vekur og athygli, að hv. þm. Albert Guðmundsson fær engin svör við sínum fsp., og hlýtur það að marka eitthvað.

Fram undan er Alþýðusambandsþing. Það er í næstu viku sem það hefst. Þar verður vissulega spurt að því, hvað eigi að gera, hvert eigi að beina verðbólgubyssunni og á hverja eigi að skjóta. Það fer ekki hjá því, að launamenn óttast að það verði einmitt þeir sem verði fyrir skothríðinni. Ég spyr því viðskrh., hvort það sé meiningin hjá honum og félögum hans í Alþb. að fara svo að, þegar Alþýðusambandsþingi er lokið, að taka þá upp byssuna og byrja að skjóta. (Forseti: Ég vil aðeins geta þess, að það verður á eftir tekin fyrir fsp. um efnahagsráðstafanir frá Pétri Sigurðssyni, þar sem fjallað verður um svipað mál. Ég vildi spyrja hv. 6. landsk. þm. hvort hann vilji ræða núna um þessa fsp.