20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Nú þegar forleiknum er lokið langar mig að sjálfsögðu til þess að koma minni fsp. að. Hæstv. forsrh. hefur verið svo vinsamlegur að bjóðast til þess að svara henni, þótt ekki sé hann skyldugur til þess enn þingsköpum samkvæmt. Hann er á förum til útlanda og ætlar líklega að hitta vin sinn þar, hæstv. dómsrh., og þeir í sameiningu að taka á móti Gervasoni í Kaupmannahöfn.

Fsp. mín á þskj. 118 er borin fram, eins og sú fyrri sem hér var rædd, í kjölfar ýmissa yfirlýsinga úr röðum einstakra ráðh. síðustu mánuðina, einnig umræðna sem orðið hafa hér á Alþingi að undanförnu vegna fsp. um myntbreytinguna.

Á Alþýðusambandsþingi 1976 voru fulltrúar 40 þús. félagsmanna, en á þing Alþýðusambandsins, sem hefst n.k. mánudag, koma saman fulltrúar um 53 þús. félagsbundinna launþega. Á þessu þingi er að finna fulltrúa fólksins sjálfs úr félögunum sem valdið hafa samkvæmt skipulagi ASÍ og íslenskri löggjöf, samningsvaldið og verkfallsvaldið. Hvergi verður að finna næstu fjögur árin jafnfjölmennan hóp sem nær stendur því að teljast fulltrúar vinnandi fólks á Íslandi. Þar á móti getur engin valdalaus 43 eða 50 manna nefnd vegið, því síður 15 manna nefnd Alþb.-manna sem virðist hafa það helst fyrir stafni að flytja pakka frá pólitískum ráðh. til sinna félagsmanna, svo þeir festist enn frekar í sessi í sínum verkalýðsfélögum. Þakkirnar koma svo til baka í lotningarfullum stuðningi við þá ráðherra sem svo alþýðlega dreifa skattpeningi almennings.

Formannaráðstefnur eru á engan hátt sambærilegar við Alþýðusambandsþing, og það er sambandsstjórn Alþýðusambandsins, sem er kjörin á landsvísu, ekki heldur ef hún er kosin á sama hátt og á þingi ASÍ 1976. En þá gerðust þau undur í lýðræðislandi okkar að tveir stjórnmálaflokkar, Alþb. og Alþfl., beittu sér fyrir því, að fulltrúar á þinginu og aðrir verkalýðsforingjar, sem studdu Sjálfstfl. og Framsfl. í landsmálapólitík, yrðu útilokaðir frá öllum áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar. Það tókst að ná þessari sovétstefnu fram og hún varð að veruleika innan Alþýðusambandsins og Verkamannasambands Íslands.

Þegar núv. ríkisstj. tók við var ákveðin svokölluð niðurtalningarleið, leiftursókn aftur á bak, og með henni gefin loforð sem engin hafa staðist. Allar aðgerðir núv. ríkisstj. hafa mistekist. Þeir hafa stóraukið skattaálögur, svo að meira er en sögur fara af áður. Vísitalan hefur verið fölsuð á ósvífnari hátt en nokkurn tíma áður, henni breytt skömmu fyrir gildistöku með niðurgreiðslum, bæði raunverulegum og óraunverulegum. Og með óraunverulegum á ég að sjálfsögðu við niðurgreiðslur á kjöti sem ekki er til.

Af sjómönnum hafa verið hafðir milljarðar króna með stjórnvaldsákvörðunum um fiskverð. Framámaður í höfuðvígi Alþb. í Verkamannafélaginu Dagsbrún, sem er væntanlegur fulltrúi á Alþýðusambandsþingi, segir að frá því í sept. 1978, þegar núv. stjórnarsamsteypa tók við í raun, — því það er aðeins hægt að tala um andlitslyftingu sem hafi orðið á þeirri samsteypu á síðasta vetri og þar til nú, — sé kaupmáttarrýrnunin orðin 11.5%. Og hann kennir m.a. Ólafslögum um, sem allir vinstri flokkarnir fögnuðu sem hinu rétta skrefi. Í morgunútvarpi er sagt að hæstv. viðskrh. hafi boðað 6% kaupmáttarrýrnun til viðbótar ef engar ráðstafanir verði gerðar fram á næsta ár. Á þessu vinstristjórnartímabili má því horfa fram á 17.5 stigs kaupmáttarrýrnun.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er lofað að við verðbólguna verði ráðið. Niðurtalningin hefur brugðist. Í stefnuræðunni, sem við fengum í hendur um miðjan okt., eru boðaðar efnahagsaðgerðir í kjölfar myntbreytingar. Og hún tekur gildi um áramót eins og hér hefur margoft komið fram. Vísitala framfærslukostnaðar mun hækka um nálægt 12% nú í nóvember. Samkvæmt þessu ættu laun að hækka um 10–11% 1. des. n.k. Að meðtalinni 9–10% grunnkaupshækkun frá 1, nóv. hefðu laun þá hækkað um eða yfir 20% á u.þ.b. einum mánuði. Verði víxlgangur verðlags og launa óheftur og gengið lækkað til þess að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi er hætt við að framfærsluvísitalan hækki vart minna en 14% frá nóv. til febr. n.k. og frá febr. til maí yrði hækkunin líklega meiri. Með þessu yrði verðbólgan komin yfir 60% fyrir mitt næsta ár og stefndi hærra á síðari hluta ársins, ef aðeins yrði um sýndarplástra að ræða eins og hingað til, og þá mundi markið verða komið að því sem Verslunarráð og Vinnuveitendasamband hafa spáð.

Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Það er alveg ljóst að út úr þessu verður ekki komist nema með margþættum og yfirgripsmiklum aðgerðum sem þurfa að mati sérfræðinga að ganga lengra og verða sársaukafyllri en þær þurftu nokkurn tíma að vera 1978 ef tækifærið hefði verið notað þá. Ríkisstj. stendur nú frammi fyrir daglegri gengisfellingu. Það er hætt við, og hefur verið talað um það innan ríkisstj., að gengið þurfi að falla um næstu áramót og það stórkostlega, það verði jafnvel að taka verðbótavísitöluna úr sambandi að miklu eða öllu leyti. Þetta vita ráðh. En um þetta vita ekki væntanlegir fulltrúar á Alþýðusambandsþingi. Málgagn ríkisstj., Tíminn, tekur undir það í gær, að þessir fulltrúar, sem koma til þings, eigi að fá að vita hvaða aðgerðir séu í vændum hjá ríkisstj. Og það hefur verið bent á það réttilega hér, að það liggur fyrir loforð bæði frá Framsfl. og Alþb. um að það verði engar efnahagsráðstafanir gerðar án samþykkis verkalýðshreyfingarinnar. Það er hún sem er að koma saman á mánudaginn kemur, og það verður ekki hægt að ná aftur til hinnar raunverulegu íslensku verkalýðshreyfingar fyrr en eftir fjögur ár.