20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Og þar höfðum við það. Hæstv. forsrh. hefur lýst yfir að fulltrúaþingi íslensku verkalýðshreyfingarinnar, Alþýðusambandsþingi, sem haldið verður nú á næstunni, verði ekki gerð grein fyrir þeim ráðstöfunum sem fyrirhugaðar eru í efnahagsmálum. Svarið var blákalt nei. Og þá hafa menn það. Nú geta menn flett upp í stjórnarsáttmála og aðgætt hverju var lofað um samvinnu og samráð, og menn geta rifjað upp fyrir sér kosningaloforð Framsfl., að ég tali nú ekki um Alþb., um samvinnu og samráð.

Hæstv. forsrh. sagði í fyrra svari sínu, að ekki væri hægt að svara til um nein úrræði sem þeir hefðu á prjónunum vegna þess að útreikningar og áætlanir væru óunnin. Nú bætti hann við til frekari fyllingar svari sínu: Það er eftir að kanna hugmyndir og tillögur og gera útreikninga og áætlanir. Og þá er víst svarið fullkomnað.

Ég skipti mér ekkert af þeim umgengnisvenjum sem þeir tíðka, hæstv. stjórnarsinnar, sín á milli. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kom hér og lýsti því yfir, að það væri ekkert að marka hæstv. viðskrh. Mér þykir miður að Tómas fóstri hefur horfið af vettvangi. Hann vitnaði þar til þess, að hv. 1. þm. Reykv. hafði lýst yfir í Morgunblaðinu að þegar hæstv. viðskrh. ryki upp til handa og fóta og hefði í frammi sverar yfirlýsingar, þá fylgdu því oft litlar aðgerðir, hann lyppaðist oft niður jafnóðum.

En hvað er það sem Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm., gerir Tómas Árnason, hæstv. viðskrh., ómerkan fyrir nú? Það er þegar hæstv. viðskrh. er að vara við því að byssan sé hlaðin, — hlaðin með öflugu púðri og drepandi höglum. Það er það sem hann er að vara við, 70% verðbólgu. Og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kemur hér upp og tilkynnir að það sé ekkert að marka þennan hæstv. ráðh. Þetta er í samræmi við það sem hann tilkynnti hér í sumar og lýsti yfir að blaðrið í hæstv. samgrh., formanni Framsfl., væri orðið að efnahagsvanda. Hvað var hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson þá að tala um? Hann var að lýsa vanda útflutningsatvinnuveganna. Hann var að lýsa því, hvernig væri að snarast um þar. Hann var að lýsa því að atvinnufyrirtækin væru að stöðvast. Og hvað fylgir því? Þetta var kallað blaður. Nú er því lýst yfir, þegar hæstv. viðskrh. varar við þeim háska sem fram undan er, að það sé ekki mark á honum takandi.