20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er margt sérkennilegt við þennan fund, sem nú stendur yfir. Ég geri fastlega ráð fyrir að varðandi fsp. sé að verulegu leyti farið eftir óskum ráðh., a.m.k. þykja það góðir siðir hjá forsetum, og ég efast ekkert um að núv. forseti fylgi því.

Í fyrsta lagi er það föst venja hér á Alþingi að haldinn er einn fyrirspurnafundur á viku, á þriðjudögum. Þess eru sárafá dæmi, að fimmtudagurinn sé tekinn að mestu leyti undir fsp. líka. Hvað kemur til?

Svo skulum við athuga að hæstv. forseti hefur sett á dagskrá 16 fsp., en hann tekur tvær út úr. Þetta eru hvort tveggja fsp. um stefnuna í efnahagsmálum, í raun og veru sama málið sem tók allan fyrirspurnatímann s.l. þriðjudag og er búið að taka meiri hlutann af tveimur fyrirspurnatímanum þar á undan. Ef við gerum ráð fyrir að hæstv. forseti geri þetta samkvæmt óskum forsrh., þá hlýtur að vakna sú spurning: Hvað kemur til? Þeir vita að það muni verða hér „stríðsdans“, eins og einn stjórnarþingmaður kallaði það, það muni verða deilt hart á ríkisstj. og hún krafin svara um efnahagsmál. Af hverju kallar stjórnin málið yfir sig á þennan hátt? Hún getur hæglega látið þetta bíða fram undir jól þegar enginn tekur eftir umræðum í jólaönnum.

Við skulum einnig athuga að seinna í dag eða í kvöld hefst flokksþing Alþb. Og á mánudaginn kemur saman þing ASÍ sem er beint tilefni þeirrar fsp. sem nú hefur verið mælt fyrir. Það skyldi þó ekki vera að eitthvert samhengi sé á milli þessara tveggja þinga og þess, að ríkisstj. er kappsmál að bregða frá þingvenjum og hún óskar eftir að taka þessi tvö mál fyrir, sem sagt reyna að afgreiða þetta allt saman áður en þessi tvö þing hefjast.

Það er sýnilegt að ríkisstj. hefur áhuga á að þessi þing fari þannig fram að þau séu ekki bundin af því, að ríkisstj. hafi neina stefnu eða neina ákvörðun tekið um þessi mál. Það er sýnilegt. Ríkisstj. ætlar að láta þetta vera allt í lausu lofti, sem kann að vera pólitísk nauðsyn fyrir hana. Og síðan ætlar hún sér sjálfsagt að athuga einhvern tíma eftir á og þá með tilliti til þess, hvað þessi tvö þing úti í bæ hafa að segja, hvernig hægt er að halda stjórninni lifandi áfram, því það verður vandamálið um þessi áramót, jafnvel meira en sjálf krónan.

Það hefði verið miklu eðlilegra að hæstv. forsrh. hefði farið á fund Alþýðusambandsþings og gert hreint fyrir dyrum stjórnarinnar. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja, þó það sé freistandi, að það hefði verið eðlilegt að hann færi á hitt þingið líka.