20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt strax á þessu stigi að leiðrétta misskilning og tilgátur hv. þm., sem hér talaði seinast, um það, hvers vegna þessi tvö mál, þessar tvær fsp. eru nú teknar á dagskrá. Allt var það út í loftið sem hann var að geta sér til. Svarið er ósköp einfalt. Þessar fsp. báðar áttu að vera á dagskrá n.k. þriðjudag. Þá stendur þannig á að ég verð ekki hér, verð á fundi forsætisráðherra Norðurlanda. Þess vegna óskaði ég eftir því, að þessar fsp. yrðu teknar fyrir nú svo að ég gæti svarað þeim þegar. Það er því ekki við hæstv. forseta sameinaðs þings að sakast né heldur er nein ástæða til að vera með ýmiss konar tilgátur eða hugaróra um það. Þetta er ákaflega einfalt mál. Þessi er ástæðan til þess, að fsp. eru teknar fyrir núna. Það er eftir minni ósk til þess að geta svarað þeim nú og það þyrfti ekki að dragast vegna fjarveru minnar.

Hins vegar er e.t.v. ástæða til þess að minnast almennt á fsp. Mér finnst það sé nokkurt umhugsunarefni bæði fyrir hæstv. forseta og fyrir þm. almennt. Sú breyting var gerð á þingsköpum fyrir nokkrum árum að ákveða fyrirspurnarform sem er að nokkru leyti tekið eftir breskri fyrirmynd þar sem það hafði reynst vel að þm. gætu gert stuttar fsp. sem yrði svarað af ráðh., oft mörgum á dag. Þetta fyrirkomulag var tekið upp hér og bundið í þingsköpum hversu lengi menn mættu tala. Fyrirspyrjandi má, ef ég man rétt, tala í fimm mínútur, ráðh. í tíu mínútur og síðan hafa þingmenn tveggja mínútna ræðutíma ef þeir óska þess. Tilgangurinn með þessu fyrirkomulagi er auðvitað sá, að menn geti gert skriflega eða formlega fsp. sem þeir fái svarað innan tiltekins frests, þá venjulega innan viku, og að því sé svarað með tiltölulega stuttu og greinargóðu svari ráðh. Þetta er tilgangurinn með þessum ákvæðum. Það hefur aldrei verið tilgangurinn og er þvert á móti tilganginum að gera fsp. eða umr. undir slíkum lið að almennum stjórnmálaumræðum sem taka meginhluta dags eða meginhluta þingfundar. Nú liggja fyrir þessum fundi, sem hófst klukkan 2, 16 fsp. Það hefur ekki komist að nema ein fsp. og nú er önnur til umr. þannig að megnið af fsp. kemst alls ekki að. Þessar löngu umr. um fsp. eru andstæðar anda og tilgangi ákvæða um þær í þingsköpum, þar sem gert er ráð fyrir að hver fsp. taki ekki nema tiltölulega stuttan tíma svo að unnt verði að koma að sem allra flestum fsp. sem fyrir liggja.

Ég segi þetta ekki sérstaklega út af umr. um þessa fsp. núna, það hefur ekki reynt á það, en segi það sem almenna aths. og vil biðja hv. þm. að hafa þetta í huga.