20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er ekki að furða þótt hæstv. forsrh. kveinki sér við þeim fsp. sem hér hafa verið bornar fram. Honum og öðrum hæstv. ráðh. hefur verið svarafátt. Ég skal ekki ræða hvort það sé þinglegt að bera fram slíkar fsp. sem hér hefur verið gert. Ég held að það sé engum vafa bundið að svo sé. Þar að auki get ég huggað hæstv. forsrh. með því, að hefðu þessar fsp. ekki verið bornar fram eða ræddar með þeim hætti sem raun ber vitni, þá er enginn vafi á því, að ástæða var til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár og þá hefðu þessar umr. væntanlega verið langtum lengri, enda er fátt hægt að segja í tveggja mínútna ræðutíma.

Það er upplýst, að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að kynna efnahagsaðgerðir, hvorki hér á þingi né á þingi ASÍ. Ég vek enn á ný athygli á því, að bæði Framsfl. og Alþb. eru skuldbundin ekki eingöngu að kynna ASÍ og aðilum vinnumarkaðarins eða samtökum launþega efnahagsaðgerðir, heldur liggur fyrir loforð þessara tveggja flokka að ekkert verði gert nema með samþykki launþegasamtakanna. Það er ekki eingöngu talað um samráð við launþegasamtökin, heldur samþykki þeirra. Á þeim grundvelli skýtur það skökku við, að ríkisstj. ætlar ekki einu sinni að kynna fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir á þingi ASÍ. En við vitum hvaða markmiði þessar efnahagsaðgerðir eiga að ná. Þær ættu að sögn — eða þá ályktun mátti draga af orðum hæstv. forsrh. — að ná verðbólgunni niður úr nálægt 70% í 42%, og það eru auðvitað aðgerðir sem geta og hljóta að koma við einhvern. En í því sambandi, þegar hæstv. forsrh. mótmælir því, að rétt sé að ganga út frá verðbólguspánni um 70% verðbólgu á næsta ári vegna þess að þar sé ekki gert ráð fyrir neinum efnahagsaðgerðum, vil ég minna á umr. sem fram fóru hér fyrr á árinu milli hæstv. ráðh. og hv. þm. Lárusar Jónssonar, þegar ráðh. vildi meina að verðbólgan á þessu ári yrði ekki nema 40%, en hv. þm. Lárus Jónsson sagði að hún yrði yfir 50%. Nú er komið á daginn hvor hafði á réttu að standa.