20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær lærðu umr. sem hér hafa farið fram núna að undanförnu um þingsköp. Ég hef ekki þá þingreynslu að ég treysti mér til þess.

Ég vil aðeins segja almennt út af þeim málum sem hér eru rædd, að það er öllum augljóst, öllum þeim sem standa að ríkisstj. og væntanlega öllum öðrum hv. þm., að hér á landi er við að glíma alvarlegan efnahagsvanda sem verður að taka á, en samkv. stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. og yfirlýsingum stjórnarflokkanna hlýtur slíkt að gerast í samráði við samtök launafólks og hafa það markmið að vernda þau lífskjör sem um hefur verið samið. Þetta eru þau grundvallaratriði sem menn hljóta að ganga út frá.

Umr. hér í dag bera hins vegar ekki fyrst og fremst vitni um það, að menn séu að velta vöngum yfir því, með hvaða hætti eigi að taka á þessum vanda. Menn eru hér í rauninni, ákveðnir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að lýsa vonbrigðum sínum yfir því, að þeim tókst ekki þrátt fyrir tilraunir um 10 mánaða skeið að koma í veg fyrir gerð kjarasamninga. Það voru gerðir kjarasamningar, undirritaðir af báðum aðilum vinnumarkaðarins, frjálsir kjarasamningar, eins og það er kallað. Skemmdarverk dugðu ekki til að tefja þá nema talsverðan tíma, en ekki til þess að spilla fyrir hugsanlegri niðurstöðu. Og vegna þessara vonbrigða, þessara sáru vonbrigða stjórnarandstöðunnar, er nú reynt að magna hér upp á hv. Alþ. spennu vegna Alþýðusambandsþingsins. Hv. þm. Pétur Sigurðsson og hv. þm. Karvel Pálmason eru að hefja hér inni í þingsölum eins konar formræður fyrir Alþýðusambandsþingið. Þeir vilja freista þess að skapa fyrir þingið á hinum almenna vettvangi spennu og illindi þannig að þeir hafi þar sem mest fyrir sinn snúð. Þetta er hinn ljóti tilgangur með þessum umr. Hann er ekki sá, að menn vilji af alvöru leita lausnar á þeim efnahagsvanda sem allir vita að íslenska þjóðin á við að glíma.