20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni spyrja hæstv. félmrh. í hverju þau skemmdarverk eru fólgin sem hann var að tala um hér áðan. Það væri afskaplega fróðlegt að fá að vita hver þau eru.

Það er athyglisvert við þessar umr. hér, að það fæst ekki eitt einasta orð upp úr ríkisstjórnarmönnum um það, hvað gera eigi í efnahagsmálum. Leyndin er alveg yfirgengileg. Það hefur verið starfandi hér efnahagsnefnd og ýmsar umr. farið fram um þessi mál. Ráðh. hafa gefið yfirlýsingar um það hvernig þeir ætli að fara að þessu, en þegar spurt er um hvað ríkisstj. hyggist gera verður fátt um svör.

Fulltrúar á Alþýðusambandsþingi munu spyrja sömu spurninga og hér er spurt, og ég er viss um, að þeir gera sér í hugarlund að ríkisstj. ætli um áramótin að fella gengið hrikalega, hún ætli að skerða kjarasamninga, hún ætli að breyta vísitölunni. Það er vegna þessara fyrirætlana sem stuðningsmenn ríkisstj. þora ekki að svara hér. Þeir kjósa að þegja.

Ef einhver ríkisstjórnarmaður kemur hér upp og fullyrðir að þetta sé ekki ætlunin, þá höfum við fengið svar.