20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er ljóst, að það er tilgangslaust að spyrja frekar í þessum umr. Við fáum aðeins að heyra glefsur úr gömlum ræðum. Þó er ljóst að svar við þeirri spurningu, sem lögð var fram undir þessum dagskrárlið, er neitandi. Það breytir ekki því, að umr. um þessi mál eiga fullan rétt á sér eins og fjölmargir hv. þm. hafa fjallað um. Hér er um að ræða efnahagsstefnu ríkisstj., hvort hún sé til, í hverju hún felist og til hvaða aðgerða eigi að grípa, einkum og sér í lagi vegna nýgerðra kjarasamninga.

Þá koma fram ásakanir af hálfu stjórnarsinna og talað er um ábyrgðarleysi af hálfu stjórnarandstöðunnar. En ég bendi á að hún er fyllilega ábyrg. Engin yfirboð hafa komið hér frá stjórnarandstöðunni, og ég segi fyrir mig, að ég styð heils hugar eðlilegar aðgerðir í efnahagsmálum til að koma í veg fyrir verðbólgu.

Óvinir þessarar ríkisstj. eru ekki í þessum efnum í hópi andstæðinga hennar á þingi. Óvinir þessarar ríkisstj. sit ja í ríkisstj. sjálfri. Við skulum skoða þetta mál aðeins nánar? Hver er það sem fær skellinn af því að niðurtalningin mistekst? Verður það Alþb.? Svarið er nei. Það verður Framsfl. sem tapar á því að niðurtalningin mistekst. Alþb.-ráðh. geta glott við tönn. Hver fær skellinn af því ef stjórnin springur vegna aðgerða í efnahagsmálum sem snerta kjaramálin? Verður það Alþb.? Svarið er nei, vegna þess að Alþb., flokkur öreiga og verkalýðs, er að vernda smælingjana og verkalýðinn. Það tapar ekki á því. Alþb.-menn geta setið hjá og glott við tönn.

Hér var talað um skemmdarverk af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ég held að það sé starfandi fimmta herdeild í stjórnarherbúðunum sjálfum. Það kom glöggt fram einmitt þegar síðustu fsp. var svarað, þegar hv. þm. og formaður þingflokks Alþb. kom hér upp og beindi spjótum sínum — ekki að stjórnarandstöðunni, heldur að hæstv. viðskrh. Þannig verður þessi leikur leikinn og þegar er ljóst hvert stefnir. Þetta vil ég segja vegna þess að það blasir við eftir þessar umr.

Ég lýsi því yfir, að hæstv. forsrh. á samúð mína í baráttu sinni í ríkisstj. gegn þeim skemmdarverkaöflum sem hann á við að glíma innan sjálfrar stjórnarinnar.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu hv. framsóknarmönnum sem tóku til máls í þessari umr.