20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla að gera aðeins meira en aths. Ég á eftir tveggja mínútna ræðutíma.

Mér þykir allhlálegt að hlusta á hæstv. félmrh. koma upp og tala eins og hann talaði. Jú, hann viðurkennir í sinnu stuttu ræðu að það sé við alvarlegan efnahagsvanda að glíma. Það er hárrétt. Það, sem við höfum spurt um, er: Hefur ríkisstj. fundið upp ráð við þessum efnahagsvanda eins og hún hefur boðað, eins og reyndar hæstv. núv. félmrh. boðaði í kosningabaráttunni 1978? Hvar eru þessi ráð? Við höfum verið að spyrja um þau. Og vegna þess að hann minntist á það jafnframt, að það ætti að hafa samráð við alþýðu þessa lands, þá báðum við um að fá upplýsingar um hvaða ráðstafanir þetta væru, þegar hinn eini og rétti og sanni grundvöllur verkalýðssamtakanna á Íslandi er staddur hér í Reykjavík á þingi sínu sem aðeins er haldið fjórða hvert ár. (Gripið fram í.) Nei, það verður ekki gert samkv. svari forsrh. Og er það ekki hlálegt þegar þessi verðandi guðfaðir Alþb. er að tala um að vernda lífskjör sem hafa unnist í nýgerðum samningum, — er þetta ekki hlálegt, — maðurinn sem lofaði að koma samningunum frá 1977 í gildi í kosningaspjalli sínu 1978? En hvað hefur skeð? Það hefur verið sýnt hér fram á að kaupmátturinn hefur rýrnað frá því að hann settist í ríkisstj. 1978. Kaupmátturinn hefur rýrnað um 11.5%. Og ef ekkert verður að gert mun hann rýrna um 6% á næstu mánuðum. Það má vera að þeim takist að halda núverandi samningum þannig að þeim verði ekki breytt í þeim efnahagsaðgerðum sem fram undan eru. En það mætti kannske bæta einni spurningu við: Verður ekki kaupmátturinn rýrður áfram hér eftir sem hingað til samkv. reynslu íslenskra launþega fram til þessa af hinni ágætu öreigastjórn — eða hitt þó heldur — með öðrum aðgerðum?