20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það situr síst á sumum hér í þingsölum að tala um belging, og ég held að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ætti að lesa betur efnahagsmálatillögur Alþfl. heldur en að tína út úr þeim eitt og eitt brot. Þetta er ómerkilegur málflutningur.

Sama verður að segja, því miður, um málflutning hæstv. forsrh. Ég vil minna á það, að þetta er í fjórða skipti hér á hinu háa Alþingi að ríkisstj. er krafin sagna um efnahagsstefnuna, og þetta er líka í fjórða skipti að stjórnarandstaðan verður fyrir því, að það er eins og að tala í tóma tunnu, það er ekkert í henni. Og hvað situr svo eftir af þeim umr. sem hér hafa farið fram í hér um bil tvær og hálfa klukkustund? Það situr eftir að það hafa engin svör fengist, enda er stefnan engin.

Í öðru lagi eru hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. ósammáta um það, hvernig ástandið sé í raun og veru.

Í þriðja lagi gagnrýnir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þann ráðh. í ríkisstj. sem ég tel að hafi af mestri ábyrgð og festu talað um efnahagsmálin.

Þetta skilur þessi umr. eftir. Ágreininginn innan ríkisstj. og það, að Framsfl. stendur í dag í nákvæmlega sömu sporum og Alþfl. stóð í þeirri ríkisstj. sem Ólafur Jóhannesson stofnaði til.

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi umr. skilji það eftir, að núv. hæstv. ríkisstj. sé ófær um að gegna skyldum sínum. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi umr. skilji það eftir, að núv. hæstv. ríkisstj. muni ekki starfa lengur en fram í febr.-mars á næsta ári. Ég er þeirrar skoðunar og legg þann skilningi í þá umr., sem hér hefur farið fram, að það beri að leggja fram tillögu um vantraust á núv. ríkisstj.