20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég var að bíða með að kveð ja mér hljóðs þar til ég gengi úr skugga um hvort hetjan mikla, hæstv. félmrh., ætlaði sér að svara eða ekki svara þeim fsp. sem til hans hefur verið beint. Það er ljóst af þögn hans, að hann er ekki mikill kjarkmaður. Hetjan frá baráttunni fyrir „samningarnir í gildi“ og „kosningar eru kjarabarátta“ er nú guggnuð, orðin liðleskja í flosmjúkum ráðherrastól.

Það er kunnugt, að Alþb. hefur farið í.ríkisstj. með því fyrirheiti annars vegar að hverfa af braut gengisfellingar. Gengisfelling hefur aldrei verið meiri en í tíð ríkisstj. Alþýðubandalagsins. Í tíð núv. ríkisstj. mun verð dollarans væntanlega hækka um meira en 50% á einu ári, og eftir slíkt gengisfall íslensku krónunnar blasir meira að segja við stórfellt gengissig í einu stökki, svo að orðalag hæstv. viðskrh. sé notað, um næstu áramót. Þetta eru efndir Alþb. varðandi þetta atriði.

Hinn þátturinn, sem Alþb. hefur lagt megináherslu á, er að forðast kaupmáttarrýrnun, kjaraskerðingu. Hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur fjallað um þá hlið málsins og efndir Alþb. að því leyti. Það skortir meira en 20% á að samningarnir frá júní, sólstöðusamningarnir, séu í gildi, og kjararýrnun eingöngu í tíð núv. ríkisstj. er sjálfsagt á þessu ári 5–6%. Þetta eru efndir Alþb.-manna á þessu sviði.

Ég vil aðeins, herra forseti, bæta því við, að hæstv. félmrh. kvartaði yfir því, að menn vildu ekki ræða hér með hvaða hætti eigi að taka á hinum alvarlega efnahagsvanda. Ég vek athygli á því, hverjum það er að kenna. Það er hæstv. ráðh. sem hér hafa setið fyrir svörum. Þeir hafa ekki viljað ræða hvaða úrræði væru til lausnar efnahagsvandanum. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna.

Ég vil vekja athygli á því, að nú þegar Alþýðusambandsþing kemur saman eru þó fyrir hendi upplýsingar um það, að gengisfall hefur verið geigvænlegt og verður enn geigvænlegra á næsta ári. Sömu helgina og Alþýðusambandsþingið lýkur störfum mun verð landbúnaðarvara væntanlega hækka um 15–20%, og fyrir liggur að vísitalan er fölsuð með niðurgreiðslum og smjörútsölu sem lokið er. Með þetta veganesti fara þeir Alþb.-menn og þeir stjórnarsinnar á Alþýðusambandsþing og ætla að sér sé trúað. En þeim verður ekki trúað þar frekar en landsmenn muni trúa þeim í framtíðinni.