20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni áðan lagði ég á það áherslu, að það yrði að grípa hér til ráðstafana vegna efnahagsvandans, þær ráðstafanir hlytu að hafa það markmið að vernda þau lífskjör sem um var samið, og við það verður staðið af hálfu Alþb. — (HBI: En af hálfu ríkisstj.?) — svo lengi sem Alþb. er í ríkisstj. En það er annars makalaust að heyra það hér aftur og aftur, að í hvert skipti sem rætt er um efnahagsmál á Alþ., af hvaða tagi sem þau eru, skuli hv. 1. þm. Reykv. koma hér upp og kenna stjórnarandstöðunni, verkalýðshreyfingunni og Þjóðviljanum um að hafa rifið þá ríkisstj. á hol og eyðilagt hana árið 1977, — þá stjórn sem hann var í forustu fyrir 1974 til 1978. Með þessu er hv. þm. að lýsa því yfir, að í rauninni hafi allar þær aðgerðir, sem hans stjórn efndi til, verið réttar, rökréttar, nauðsynlegar og óhjákvæmilegar. Hann er að lýsa því yfir, að það hefði bara verið misskilningur hjá þjóðinni að kjósa hann ekki aftur 1978 til þess að hafa forustu fyrir ríkisstj. og þá Framsfl. um leið.

Hvernig væri staðan gagnvart launafólki í þessu landi ef þau lög hefðu verið í gildi áfram sem þessi hv. þm. beitti sér fyrir að sett væru, kaupránslögin í febr. og maí 1978? Þessi lög höfðu það inni að halda, að álög hvers konar á laun voru skert um 50% á hverju vísitölutímabili. Hefðu þessi lög verið í gildi, hvað væri þá næturvinnuálag núna? Það væri milli 15 og 20% á dagvinnukaup og eftirvinnuálag væri neikvætt um ca. 20%. Það eru þessar „trakteringar“, sem þessi hv. þm. er áfram.að bjóða íslenskri alþýðu með því að lýsa yfir að það hafi í rauninni ekki verið hann, heldur Þjóðviljinn, sem kom í veg fyrir að þessar efnahagsaðgerðir næðu fram að ganga. Það var komið í veg fyrir það að síðustu með kosningaúrslitunum, lýðræðislegum kosningaúrslitum í landinu 1978. Auðvitað svíða þessum hv. þm. þau kosningaúrslit og þær afleiðingar sem þær kosningar höfðu fyrir stöðu hv. þm., bæði út á við og inn á við, án þess að ég fari lengra út í þá sálma.

Vinstri stjórnin, sem mynduð var 1. sept. 1978, setti samningana í gildi. Hún afnam kaupránslögin. 1. gr. fyrstu laga vinstri stjórnarinnar fjallaði um það, að kaupránslögin frá því í febr. og frá því í maí 1978 væru afnumin. Þetta meginatriði stendur þarna upp úr og liggur fyrir.

Það liggur auðvitað einnig fyrir, að á þeim tíma, sem liðinn er frá því að svokölluð Ólafslög tóku gildi, hefur átt sér stað skerðing á kaupmætti launa frá því sem ella hefði verið. Það er alveg ljóst. Það stafar af þrennu. Það stafar í fyrsta lagi af því, að miðað er við viðskiptakjör sem hafa farið stöðugt versnandi á þessum tíma hér í landinu, og sú viðmiðun hefur vafalaust komið illa við marga, þessi viðmiðun. Það stafar af því, að önnur viðmiðun er höfð við launalið bóndans og áfengi og tóbak í vísitölunni en áður var. En ég minni á það, við hvaða aðstæður þessi lög voru knúin fram. Og ég minni líka á það að síðustu, að núna í nýgerðum kjarasamningum í lok ársins 1980 tókst að rétta kaupmáttinn við með samningum sem launamenn og atvinnurekendur undirrituðu.

Hverjir frömdu skemmdarverkin? Svarið við þeirri spurningu held ég að væri eðlilegast að menn reyndu að bera upp í Valhöll, í aðalherbúðum Sjálfstfl. Þar eru þeir menn sem reyndu að beita sér fyrir því undir drep að stöðva það að gerðir væru kjarasamningar undir núv. ríkisstj.