20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er aðeins til að leiðrétta hæstv. félmrh. sem gegn betri vitund hélt því fram áðan að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hefði komið samningunum í gildi. Þetta segir hann vísvitandi rangt. Við skulum byrja strax fyrstu dagana, þegar fyrsta kaupránið fór fram, sem var þannig háttað að beinir skattar voru hækkaðir stórkostlega, af því að þeir voru ekki inni í vísitölunni, og niðurgreiðslur m.a. auknar á nautakjöti sem fyrir löngu var uppselt, en hins vegar látið koma til lækkunar á kaupgjaldsvísitölu. Þetta var gert viku af sept. eða 10 daga af sept. eða svo og látið gilda aftur fyrir sig til 1. ágúst. Þann tíma fengu launþegar að engu bættan, þar var um fyrsta kaupránið að ræða. Í öðru lagi var kauprán 1. des. í sambandi við lögin þá. Skattalækkunin, sem vó 2%, kom aldrei til framkvæmda. Og ég skora á hæstv. félmrh. að skýra nú þegar frá því, hversu mikil útgjöld ríkissjóðs voru í sambandi við þau 3% sem stolið var af launþegum og kallað var félagslegar umbætur. Hæstv. félmrh. viðurkenndi kaupskerðinguna og kjararánið í sambandi við Ólafslögin. Og í fjórða og síðasta lagi setti hann gerðardóm á sjómenn með brbl. sem aldrei voru tekin fyrir hér á Alþingi.