24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 3 1. febr. 1980, um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, sbr. lög nr. 11 11. apríl 1980, er svo hljóðar:

„1. gr. 1. gr. orðist svo:

Þegar fiskiskip selur afla í innlendri höfn, eða afhendir afla sinn til vinnslu án þess að sala fari fram, skal fiskkaupandi eða fiskmóttakandi greiða útgerðarmanni eða útgerðarfyrirtæki olíugjald, er nemi 7.5% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verlagsráði sjávarútvegsins. Hið sama gildir þegar fiskiskip selur afla sinn öðru skipi til löndunar í innlendri höfn. Olíugjald þetta kemur ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu ákvæði þeirra taka til fiskafla og hlutaskipta frá 1. okt. 1980 til loka árs 1980, nema aðilar að kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna komi sér saman um önnur hlutaskipti.“

Sjútvn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. Því miður varð ekki samkomulag í nefndinni um að mæla með samþykkt frv. óbreytts, og skila þeir því séráliti annars vegar Ólafur Björnsson og hins vegar Guðmundur Karlsson og Egill Jónsson. Meiri hluti sjútvn. Ed. leggur hins vegar til að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir. Undir það rita Stefán Guðmundsson, Guðmundur Bjarnason, Gunnar Thoroddsen og Geir Gunnarsson.

Olíugjald utan skipta var tekið upp með lögum 2. mars árið 1979. Lög þessi voru sett til að mæta að nokkru þeirri miklu holskeflu er olíuhækkanirnar urðu í íslenskum sjávarútvegi. Sjálfsagt hafa þeir, er um þessi mál fjölluðu þá, varla séð fyrir hvað þessar olíuverðshækkanir ættu eftir að leiða yfir sjávarútveg okkar, og því er nú verið að breyta þessu olíugjaldi að ég held í sjöunda sinn. Ýmist er það til lækkunar eða hækkunar. Þannig hefur jafnan verið reynt að nota þetta kerfi til að gera hinar miklu sveiflur á olíuverðinu sem bærilegastar þeim er þær hafa mátt þola.

Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að taka það fjármagn, sem hér um ræðir, úr sameiginlegum sjóði landsmanna og bæta útgerðinni þannig þann kostnaðarauka sem er í dag áætlaður rétt um 6.5 milljarðar á heilu ári. Á árinu 1975 var unnið að endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins sem flestum þótti vera orðið að hálfgerðu skrímsli. Og í febrúar árið 1976 var lögfestur mikill uppskurður á sjóðakerfinu sem örugglega varð til mikilla bóta. Ég óttast að með þeirri hugmynd að taka þetta úr sameiginlegum sjóði sé í raun verið að byrja að undirbyggja nýtt sjóðakerfi í sjávarútveginum og hví er ég andsnúinn. Um þá aðferð, sem nú er búið við, má sjálfsagt deila, eins og hæstv. sjútvrh. sagði er hann talaði fyrir þessu frv. Ég er því sammála, að hér má verða breyting á. En ég er andsnúinn því að breyta aðeins breytinganna vegna. Á vegum sjútvrn. er nú unnið að því að finna færari leið en áður hefur verið farin og er vonandi að niðurstaða fáist sem allra fyrst í því máli, í sem mestri sátt við þá hagsmunaaðila er hér eiga hlut að. Ég legg þunga áherslu á að þær reglur, sem settar verða verki sem hvati til olíusparnaðar.

Úr því að ég nefni þetta get ég ekki stillt mig um að nefna þann árangur sem náðst hefur með brennslu svartolíu í stað gasolíu nú á örfáum árum. Láta mun nærri að af 87 togurum brenni ríflega 50 þeirra svartolíu í dag. Sparnaður í krónutölu vegna brennslu svartolíu í stað gasolíu nemur því rúmlega 6 milljörðum kr. Ef allur togaraflotinn brenndi hins vegar gasolíu væri hlutdeild olíukostnaðar í heildartekjum útgerðarinnar 23% í stað 18–19% nú. Togarafloti landsmanna eyðir á núverandi verðlagi hvorki meira né minna en um 27 milljörðum í olíuna eina saman og ef við tækjum loðnuskipin með er trúlegt að eyðsla þeirra sé á bilinu 6–9 milljarðar kr. Af þessu sést hversu gífurlega stór þáttur þessi olíukostnaður er í rekstri skipa okkar og hversu mikið við eigum raunverulega þarna óunnið.

Eins og hæstv. sjútvrh. sagði í þessari deild er hann talaði fyrir þessu frv. var útgerðin að mati Þjóðhagsstofnunar rekin með um 10% halla fyrir fiskverðsákvörðun. Til að mæta þessum halla með fiskverðshækkun einni hefði orðið að hækka fiskverð um um það bil 18–20%. Það var talið ógerlegt og því var farin sú leið að hækka fiskverðið um 8%, en olíugjaldið um 5%.

Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. hefur verð á gasolíu hækkað frá því í júní í sumar um 35.3%, en svartolíuverð um 22.9%. Á árinu 1978 var hlutfall olíu af heildartekjum útgerðarinnar 12–13%. Nú er þetta orðið 18–19%. Frá ársmeðaltali 1978 hefur fiskverð hækkað um 150%, en olíuverð um hvorki meira né minna en 396.8%. Ég vil með þessu reyna að sýna fram á þann mikla vanda sem hér er við að fást.

Þegar þetta olíugjald var fyrst tekið upp í mars 1979 sagði einn af talsmönnum Sjálfstfl. í umræðum hér á Alþ., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég og minn flokkur fögnum því að það skuli vera tekin ákvörðun um að mæta hækkunum á olíuverði með þeim hætti að útgerðin fái þessa hækkun að nokkru leyti uppi borna. Ég tel sömuleiðis að eðlilegt sé að þetta gjald komi ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna.“

Þetta sögðu fulltrúar Sjálfstfl. þá. Núverandi formaður Alþfl. og þáverandi sjútvrh., Kjartan Jóhannsson, lagði frv. fram í mars 1979, og ekki þarf hér og nú að rifja upp ummæli hans og rökstuðning þá fyrir þessu máli. Á tímabilinu des. 1978 — febr. 1979 kostaði hver lítri af gasolíu til fiskiskipa 57.50 kr. En í mars 1979 hækkaði gasolían í 68.90 kr., hver lítri hækkaði um 11.40 kr. Undir þessum kringumstæðum var olíugjaldið upphaflega lagt á. Kjartan Jóhannsson sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hækki olíuverðið enn, t.d. í 100 kr. hver lítri, verður tekjuskiptingarvandinn í sjávarútvegi mun erfiðari viðfangs. Þrengist þá hagur sjávarútvegs í heild að óbreyttu markaðsverði afurða afar mikið og reyndar þjóðarbúsins alls, og þyrfti þá stórkostlegri aðgerðir en nú eru ráðgerðar.“

Þetta var álit fyrrv. sjútvrh. Hann nefndi olíuhækkun í 100 kr. Gasolíuverðið er nú hvorki meira né minna en rúmlega 210 kr. hver lítri.

Ég er undrandi á því, að þeir þm., sem á Alþ. sitja og gerþekkja hag útgerðarinnar, skuli bregðast svo við í þessu máli sem raun ber vitni, — menn sem margoft hafa staðið að breytingum á þessu olíugjaldi og raunar innleitt þessa aðferð. Erfiðleikar íslensks sjávarútvegs eru margvíslegir. Þar kemur margt til er þrengir kosti þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, svo sem gífurlegir styrkir samkeppnisþjóða okkar til sjávarútvegs viðkomandi landa, stóraukinn vaxtakostnaður atvinnuveganna, miklar veiðitakmarkanir sem beitt hefur verið og ekkert lát virðist vera á, síhækkandi olíuverð og þar af leiðandi m.a. gífurlega miklar hækkanir á veiðarfærum, enda mun nú varlega áætlað að vanskilaskuldir útgerðarinnar einnar séu rétt um 30 milljarðar kr. Hér þarf því frekast af öllu góðan skilning og hlutlægt mat á því ástandi sem sjávarútvegurinn á við að búa. Það er alþingismanna að sjá til þess, að áfram verði hægt að ýta skipi úr vör til sóknar á gjöful mið við Íslandsstrendur.