24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég hef tekið þá afstöðu, eins og nál. ber með sér, að leiða hjá mér afgreiðslu á þessari þriðju ákvörðun um olíuverð á þessu ári. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, á að staðfesta fyrirheit ríkisstj. um hækkað olíugjald, sem var hluti af fiskverðsákvörðun sem gildir frá 1. okt. til áramóta. Tímabilið er því vel hálfnað.

Ekki verður deilt um að þær gífurlegu hækkanir sem orðið hafa á oliu síðustu ár, valda útgerðinni feikilegum vanda, og flest bendir til að ekki sé séð fyrir endann á þessum hækkunum. Hækkanir þessar eru ekki eingöngu á olíu, verðlag á veiðarfærum fylgir fast eftir.

Í áliti meiri hl. sjútvn. Nd. er talið að olíuvandann eigi að leysa á reikning alþjóðar. Undir það tók frsm. hér áðan og hæstv. sjútvrh. hefur látið svipað álit í ljósi.

Þótt ýmsir hafi haldið að útgerð hér sé meira eða minna rekin með ríkisstyrkjum vita hv. þm. að svo hefur ekki verið til þessa nema á vissum stöðum, viss fyrirtæki. Ljóst er þó að fyrr eða seinna kemur að því, að öll útgerðin lendir á ríkinu, haldi mál áfram að þróast eins og að undanförnu, og á ég þá ekki aðeins við olíuvandann.

Áður en til ríkisstyrkja kemur tel ég að athuga mætti hvort ekki væri nær að byrja á að létta af útgerð og fiskvinnslu einhverju af öllum þeim gjöldum og hvers konar pinklum sem á þessa atvinnugrein eru lögð í dag. Með því mætti hækka fiskverð nokkuð.

Oft heyrist talað um að vernda verði það sem kallað er samkeppnisiðnaður. Svo er nú komið, að slíkur iðnaður fær beint eða óbeint endurgreidd aðflutningsgjöld af öllum sínum þörfum.

Það er mál til komið að a.m.k. stjórnvöld geri sér grein fyrir því, að fiskveiðar okkar og vinnsla eru aldeilis ekki laus við samkeppni á mörkuðunum. Flestir keppinautar okkar eru farnir að reka sínar veiðar og vinnslu líkt og við rekum landbúnað og hafa sumir gert það lengi. Ég heyrði í fréttum nýlega að norskir útgerðarmenn krefjast þess að fá styrki á næsta ári sem svara til 170 milljarða ísl. kr. Þar fyrir utan mun vinnslan í Noregi gera sínar kröfur og þær ekki smáar. Fyrir þá, sem hugleiða nú að ríkið fari að styrkja útgerðina, vil ég, með leyfi forseta, rifja upp smávegis af því sem ég held að segja megi að ríkið hirði af veiðum og vinnslu. Ég gæti trúað að hv. þm. hafi það ekki alveg allt í höfðinu.

Stutt er síðan aðflutningsgjöld af vélum til fiskvinnslu voru að mestu felld niður, síðla árs 1978 að ég held. Nú mun þó yfirleitt greitt af þeim 6% í jöfnunargjald. Í jöfnun á hverju það er ætlað veit ég ekki. Þar til á þessu ári voru aðflutningsgjöld af lyftara, ef nota átti hann til þess að færa til fisk, yfir 100%, en ætti að nota hann í þágu samkeppnisiðnaðar, t.d. framleiðslu á kóka-kóla, voru aðflutningsgjöldin felld niður. Gjöld af varahlutum í þessi þarfatæki eru nú yfirleitt 18% vörugjald, 25–35% tollur og svo söluskattur 23.5–25.85 eftir því hvort greitt er í tolli eða verslun.

Um varahluti í fiskvinnsluvélar gildir að nokkru það sama. Mér er tjáð að séu varahlutir með skrúfugangi af einhverju tagi, sem þeir gjarnan eru, sé vörugjaldið 24%, tollur 35% og svo söluskattur ofan á allt saman.

Ég hef hér smásýnishorn af reikningum sem staðfesta það sem hér hefur verið sagt. Með leyfi forseta, hér er eitt lítið dæmi um varahluti í flatningsvél. Cif-verð er 118 þús., niður koma 376 þús. Ríkið hefur tekið til sín 151 þús. af þessum 376. Af smáhlut í veltigræjur á lyftara, sem kostar 1 900 þús., tekur ríkið 730 þús.

Sú var tíðin, að söluskattur og fleiri gjöld voru endurgreidd af varahlutum til véla og tækja í fiskiskipum ef upphæðin fór yfir 100 þús. kr. Skyndilega var þessu breytt í að endurgreiðslan miðaðist við 100 þús. kr., og síðar var endurgreiðslan bundin við 250 þús. kr. eða meira.

Í seinni tíð hafa félagsmálapakkar orðið vinsælir og slíkar aðgerðir gjarnan notaðar til að leysa vinnudeilur. Uppfylling á einum slíkum pakka mun hafa verið breyting á sjómannalögum sem samþ. var hér á síðasta þingi, 94. mál. Breytingin, sem gerð var þá á 18. gr. laganna, kveður m.a. svo á, að fullur hlutur og aðrar greiðslur skuli greiddar í allt að tvo mánuði í slysa- og veikindatilfellum. Ég leyfi mér að efast um að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir hvað þeir voru að samþykkja með þessari breytingu. Aflahlutir eru frábrugðnir öðrum launum og geta stundum orðið býsna háir. Skipstjórahlutur á loðnuskipi er 6.5% með orlofi af skiptaverði. Meðalskipstjórahlutur á mánuði þann tíma sem verið er að veiðum mun nú vera nálægt 6.8 millj., hásetahlutur 2.4 millj. og annarra skipverja þar á milli.

Fyrir meðaltúr 12 daga á minni skuttogurum með núgildandi fiskverði hefur skipstjóri um 1 400 þús. kr. með orlofi, háseti um 700 þús. Á minni bátum getur einn maður átt allt að 20% af aflanum. Fyrir þessum launum þarf vissulega að vinna og sveiflukennd eru þau. En veikist þessir menn eru þeir ekkert öðruvísi veikir en annað fólk. Fyrir smákveisu geta menn orðið eftir af heilum túr og læknisvottorð eru ekki vandfengin. Vissulega ber að tryggja að sá, sem verður fyrir slysi eða veikindum, lendi ekki á vonarvöl og þá fyrst og fremst verði hann lengi frá vinnu. Bætur í sem lengstan tíma veita því mest öryggi. Hér hefur það meginsjónarmið ekki verið haft í huga. Greiðslur fyrstu tvo mánuðina, þ.e. meðan staðgengisregla gildir, geta verið svo háar, að hæpið er að halda áfram útgerð ef maður forfallast. Það er einfalt reikningsdæmi ef menn vilja leggja það niður fyrir sér.

Nú hugsa menn e.t.v. að útgerðarmenn verði bara að kaupa tryggingu fyrir svona áföllum. Við höfum tryggingafélög til þess að menn geti tryggt sig fyrir greiðslum sem hæpið er að þeir geti staðið undir. Á þann veg er hægt að dreifa áhættu. Því er nú ekki að heilsa í þessu tilfelli. Það er það sem sker úr um að þessi lagabreyting er algjör óhæfa. Þessa áhættu tryggir ekkert tryggingafélag.

Það er skylda löggjafans að sjá um að útgerðarmenn geti tryggt sig fyrir þeim skyldum sem á þá eru lagðar með þessari lagabreytingu, eigi hún að standa áfram. Öllum hlýtur að vera ljóst að hverri krónu verður ekki náð nema einu sinni af útgerðinni, en það getur verið val um í hvað hún er tekin. Útgerðarmenn eru t.d. reiðubúnir til að samþykkja greiðslu í miklu lengri tíma ef upphæð er ákveðin og þá tryggingarhæf.

1. apríl 1978 samþykkti Alþingi breyt. á lögum um stimpilgjöld. Í athugasemd segir, með leyfi forseta: „Gert er ráð fyrir svipuðu heildargjaldi af skuldabréfum og tryggingabréfum með veði í framleiðsluvörum sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar og verið hefur.“ Hvað sjávarútveginn varðar er reyndin sú, að stimpilgjöldin margfölduðust við þessa breytingu. Hvað varðar aðrar greinar þekki ég ekki. Í fyrstu voru þetta talin mistök sem sjálfsagt væri að leiðrétta. Því hafa ráðherrar lofað hver eftir annan, en við sama situr. Þessi stimpilgjöld eru hér á landi 1.5%, en mér er tjáð að í Danmörku séu þau 0.3%. Ætla mætti að stimpilgjöld væru ekki teljandi útgjaldaliður. Þau eru það að vísu ekki nema einu sinni ef keyptur er bátur og tekin lán út á hann, en fyrir afurðalán eru þau endurtekin á hverju ári og munu í ár hafa numið á meðalfrystihús 6–8 millj. kr.

Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi um hvernig ríkið féflettir sjávarútveginn. Þessi mál og fleiri þeim lík tel ég að þurfi að athuga áður en farið er að tala um að ríkið þurfi að styrkja sjávarútveginn. Þá leið vil ég síðast fara og svo hygg ég að sé um fleiri útgerðarmenn og einnig sjómenn. Og best gæti ég trúað að það þvældist fyrir fulltrúum einkaframtaksins þegar á reyndi að leggja olíuskatt á alla landsmenn til að styrkja útgerðina. Betur sýndist mér við hæfi að þeir gengju fram í að koma í veg fyrir að þeir, sem af ábyrgð reka sína útgerð, verði keyrðir á hausinn með allt of stórum fiskiflota sem hefur stækkað fyrst og fremst fyrir pólitíska fyrirgreiðslu. Engum dettur í hug að þeir, sem eru að sækjast eftir togara í dag, láti sér til hugar koma að borga í þeim eina krónu. Þeim kræfustu dettur ekki einu sinni í hug að offra nokkrum krónum í hlutafé, þótt aðeins væri til málamynda. Nei, það skulu pólitískir vinir einnig útvega af almannafé. Ef stjórnir stofnana malda í móinn kemur bein fyrirskipun frá ríkisstj. Þegar togari er fenginn þarf hafnarbætur svo hann komist í heimahöfn. Næst þarf að stækka frystihúsið og að því loknu verður að byggja hótel fyrir farandverkafólkið, sem gjarnan er sótt alla leið til Ástralíu. Ekki er nóg með að stöðugt fjölgar togurunum. Nú stöndum við frammi fyrir því, að loðnuflotinn hlýtur að bætast í þorskveiðarnar. Þetta eru 52 stór og vel búin skip, mörg nánast jafngildi togara. Það er því ljóst að þorskurinn skiptist í fleiri staði á næstu vertíð. Það er fleira sem skerðir hlutinn en olíugjaldið.

Mesta kjaraskerðing, sem sjómenn hafa orðið fyrir undanfarin ár, er stöðug aukning flotans, og á þeirri kjaraskerðingu er ekkert lát. Hver togari, sem bætist við, fjölgar skrapdögum alls flotans um þrjá daga. Skrapdagar eru þegar á þessu ári 142 og þó fer þorskafli upp úr 400 þús. tonnum. Ekki er endalaust hægt að fjölga skrapdögum. Þeir stofnar eru einnig takmarkaðir og eru raunar fullnýttir flestir hverjir. Þar með liggur fyrir að ekki er annað að gera en binda þau skip, sem bætast við, eða önnur í þeirra stað. Besta lausnin til að draga úr þeim stórvanda, sem síhækkandi olíuverð hlýtur að valda, er að nota minna af henni til að ná þeim afla sem miðin geta gefið af sér með skynsamlegum hætti. Það gerum við aðeins með því að draga úr þeim flota sem við notum.

Hver togari notar í dag frá 600 þús. kr. til 1 millj. í olíu. Með því að draga úr honum um t.d. 25% er líklegt að við bætum afkomu sjómanna og útgerðar um nær sömu prósentutölu. Aukning flotans við þessar aðstæður hlýtur að koma allri útgerð alfarið á ríkisframfæri, burt séð frá olíugjaldi eða styrk í hvaða mynd sem væri.