24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Það hefur nú þegar farið fram mikil umræða um þetta frv. og væri sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn' að bæta þar mikli við, og mun ég ekki gera það.

Við Egill Jónsson skilum séráliti og segjum hér: „Sú lagagerð, sem hér liggur fyrir, er enn ein sönnun þess ráð- og stjórnleysis sem nú ríkir í landinu. Í þriðja sinn á þessu ári er gripið til þess ráðs að breyta olíugjaldi til fiskiskipa, en með þeim hætti er falskur grundvöllur lagður að síðustu fiskverðsákvörðun. Augljóst er að hér er einvörðungu tjaldað til einnar nætur og því raunverulegri lausn vandans skotið á frest. Sérstaða þessarar breytingar á olíugjaldinu er fólgin í að sjómannasamtökin hafa lýst sig algerlega andvíg þessari ráðstöfun sem leiddi til þess, að sjómenn treystu sér ekki til að samþykkja síðustu fiskverðsákvörðun.

Við undirritaðir nm. teljum að hlut útgerðar vegna hækkunar á olíuverði eigi að bæta og erum reiðubúnir að eiga hlut að lausn þess vanda sem byggist á nýjum leiðum og samkomulag næst um milli hagsmunaaðila.“

Ég tel að sjómenn hljóti að gera kröfur um 30% hækkun á fiskverði um næstu áramót. Við vitum öll hver staða útgerðarinnar er. Eins og fram kom áðan eru vanskil hennar nú um 30 milljarðar kr. Við sjáum því

hvernig hún er í stakk búin að taka á sig hækkun. Mér sýnist að hlutur fiskvinnslunnar sé ekki sá að hún muni bera uppi fiskverðshækkanir nú um næstu áramót.