24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera örfáar aths. við það sem kom fram í ræðum minni hl. sjútvn. áðan, fyrst hjá hv. þm. Ólafi Björnssyni. Það er misskilningur hjá honum, að ég hafi nokkurn tíma lagt til að olíukostnaður yrði greiddur af almannafé. Ég hef aldrei gert það. Hitt er annað mál, að þessi hugmynd kom fram í áliti meiri hl. sjútvn. Nd., sem lagðist gegn frv., og er þar svo skýrð í grg. með áliti þess hluta nefndarinnar. Ég varpaði þá fram þeirri spurningu í umræðum í Nd., hvort unnt væri að fá frekari upplýsingar um hvar þetta fé ætti að taka, en fékk þær ekki.

Ég vil hins vegar taka mjög heils hugar undir það sem kom fram ekki síst í ræðu hv. þm. Guðmundar Karlssonar, að þetta mál þarf að leysa með samkomulagi sjómanna og útgerðarmanna. Að því er ötullega unnið, en það er hins vegar ákaflega erfitt mál í meðförum. Ég átti nú fyrir helgina fund með tveim sérfræðingum sem að þessu máli vinna. Því miður gáfu þeir mér ekki miklar vonir um að það miðaði í rétta átt, m.a. vegna þess að kröfur eru allákveðnar hjá sjómönnum um að a.m.k. verulegur hluti af vaxandi olíukostnaði verði greiddur af almannafé. Slíkar kröfur eru því fyrst og fremst frá þessum aðilum komnar. Ég hef ekki sagt neitt í þá veru.

Hv. þm. ræddi nokkuð ítarlega um fiskvinnsluna og ætla ég ekki að fara út í það hér, en vil leiðrétta eitt atriði sem kom fram í hans ræðu. Tollar af fjórum mikilvægum flokkum fiskvinnslunnar voru felldir niður s.l. vor í tengslum við fiskverðsákvörðun, en ekki í fyrra, en ég er honum alveg sammála um að gera þarf miklu meira. Hef ég því lagt á það áherslu, að samkeppnisiðnaður verði allur skoðaður, og hefur sérstök nefnd verið skipuð í því skyni að samræma tollagreiðslur af samkeppnisiðnaði, hvort sem þar er um að ræða fiskvinnslu eða annan almennan iðnað. Ég veit að enn er tollur greiddur af sumum vélum fiskvinnslunnar, en hv. þm. nefndi að tollur hefði verið felldur niður á s.l. ári. Það var s.l. vor.

Ég vil einnig taka undir það með hv, þm., að skipastóllinn er of stór. Þar verður að setja hömlur á. Það verður gert. Nú munu vera um sex togarar í smíðum innanlands, sem allir hafa farið í gegnum sjálfvirkar reglur Fiskveiðasjóðs, menn hafa sýnt fram á 15% eigið fjármagn og þá fengið þau lán sem leyfð eru. Ég skal ekki segja á þessari stundu hvort af byggingu allra þessara togara verður, því að rekstrargrundvöllur togara, eins og þeir kosta nú nýir smíðaðir innanlands og eflaust erlendis líka, er það hár að ég fæ ekki séð að hann sé fyrir hendi. Þessum reglum verður breytt. Það er nú til athugunar.

Að fækka skipum veit ég ekki hvernig verður gert. Mig minnir að nýlega hafi verið um það spurt utan dagskrár í hv. Nd., hvort ríkisstj. ætlaði ekki að koma í veg fyrir að einn togari yrði seldur af Suðurnesjum. Þetta mál hefur ekki komið til mín og mér er ekki kunnugt um að það hafi komið til ríkisstj. En mér heyrðist á þeirri umræðu sem þar fór fram og hv. 1. þm. Reykn. leiddi, að veruleg andstaða væri a.m.k. á Suðurnesjum gegn því að fækka þar togurum. Og ég kannast ekki við neinn stað þar sem menn væru a.m.k. af frjálsum vilja tilbúnir að taka þátt í slíku. Þvert á móti eru kröfur um fleiri togara æðimargar, Hefur verið staðið gegn þeim nema gagnvart þeim togurum sem smíðaðir hafa verið innanlands og hafa komist undir þær reglur um endurnýjun togara sem gilda nú hjá Fiskveiðasjóði. Aðeins ein undantekning hefur verið gerð samkv. tillögur Framkvæmdastofnunar ríkisins. Af byggðaástæðum hefur ríkisstj. fyrir sitt leyti samþykkt að Framkvæmdasjóður annaðist fyrirgreiðslu vegna kaupa á togara fyrir Raufarhöfn og Þórshöfn.

Ég minni á að á s.l. ári gerðist svipaður atburður. Þá var togurum fjölgað á Suðurnesjum. Togarinn Júlíus Geirmundsson, sem átti að fara úr landi, var seldur þangað, þannig að segja má að ekkert skip hafi farið úr landi, ekki a.m.k. af svipaðri stærð, fyrir það nýja skip sem keypt var.

Þessi skipamál eru mjög erfið og ég tek undir það með hv. þm., að þau þarf að skoða með tilliti til afkomu sjávarútvegsins og afkastagetu fiskstofnanna, og það er verið að gera.