24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

84. mál, orkulög

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur talað í máli þessu og flutt ítarlega ræðu. Ég sé ástæðu til þess að víkja nokkuð að henni.

Ég vil þó í upphafi taka fram að meginhluti ræðu hæstv. iðnrh. var um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar. Ég mun ekki ræða það mál, sé ekki ástæðu til að gera það. En ég vek athygli á því, sem kemur fram af frv. sjálfu og í grg. þess og í ræðu minni þegar ég mælti fyrir frv., að samkv. því skipulagi orkuvinnslunnar, sem frv. gerir ráð fyrir, getur orðið af sameiningu Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar. Skipulagið sem frv. gerir ráð fyrir, er þess eðlis, að þetta er algerlega opið. Og ég tel eðlilegt að hafa skipulagið opið í þessu efni þannig að það geti — að óbreyttu heildarskipulagi — hvort heldur orðið um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar að ræða eða ekki. Þetta leiðir af því, að eðlilegt er að það sé komið undir þessum aðilum sjálfum hvort af þessari sameiningu verður eða ekki, og að mínu viti á ekki að lögbjóða það eða banna.

Í þessu sambandi sagði hæstv. iðnrh. að frv., sem hér um ræðir, gengi á svig við þá þróun mála sem orðið hafi í þessum efnum á undanförnum árum. Ég sé ekki að þessi fullyrðing fái staðist. Frv. gengur á engan hátt á svig við þá þróun sem orðið hefur í þessum efnum. En það er rétt, að frv. gengur á svig við þá stefnu sem hæstv. iðnrh. hefur túlkað í skipulagsmálum orkuvinnslunnar á undanförnum árum. Frv. gengur á svig við það m.a., að lögbundin sé sameining Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar, eins og ég hef þegar gert grein fyrir.

Þá er það eitt atriði sem hæstv. iðnrh. leggur nokkra áherslu á. Hann telur sig geta rakið þá óvissu, sem er í þessum málum um framtíðarskipulag raforkuvinnslunnar, til ósamlyndis og misjafnra viðhorfa innan Sjálfstfl., eins og hann orðaði það. Hæstv. ráðh. gerði ekki grein fyrir hvað lægi á bak við þessa fullyrðingu. Hvernig á maður að geta sér til hvað hér er um að ræða? Ég veit ekki betur en það hafi verið mjög víðtæk samstaða í Sjálfstfl. einmitt um þessi mál, þannig að staðreyndin sé alveg þveröfug við það sem hæstv. iðnrh. er að ímynda sér.

Hæstv. iðnrh. lét þau orð falla í sinni ræðu, að þetta frv. væri ein af tilraunum, mörgum tilraunum hjá Sjálfstfl. til að leita að stefnu flokksins í orkumálunum. Þetta er eins og allsherjar leit að týndri rjúpnaskyttu eða eitthvað slíkt, bara allsherjar leit að stefnu flokksins. En hæstv. ráðh. gerði enga grein fyrir í hverju þetta væri fólgið. Og það er nokkurt undrunarefni.

Ég leyfi mér að fullyrða að á undanförnum árum hefur stefna Sjálfstfl. í þessum efnum verið mjög skýrt mörkuð. Það hefur komið þrásinnis fram á landsfundum flokksins. Og það kom einnig fram á síðasta landsfundi hans, sem haldinn var 3. 7. maí 1979. Þar segir í ályktun landsfundar Sjálfstfl., með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstfl. mun í framtíðinni beita sér fyrir skipulagningu orkumála á þann hátt, að frumkvæði sjálfstæðra fyrirtækja fái notið sín á þessu sviði með aukinni þátttöku sveitarfélaga, einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Landsfundurinn leggur áherslu á eftirfarandi:

1. Sjálfstæð fyrirtæki sveitarfélaga eða sameignarfélög ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga hafi á hendi orkubúskap þjóðarinnar. Lýsir fundurinn yfir stuðningi við tillögur milli hluta skipulagsnefndar orkumála sem lagðar voru fram á síðasta ári.“ — Ég skýt hér inn í að það eru einmitt tillögurnar sem þetta frv. byggir á. — Í landsfundarályktun segir enn fremur:

„2. Heildarstjórn raforkuvinnslunnar skal komið á fót í formi samstarfs sem fyrirtækjunum, sem annast orkuvinnslu, verði gert að taka þátt í. Samvinna þessi skal lúta að skipulegri yfirstjórn er varðar byggingu orkuvera og samrekstur þeirra.

3. Hraðað verði samtengingu landsins í eitt raforkukerfi. Af hagkvæmnis- og öryggisástæðum verði orkuver landsins tengd saman í eitt aðalorkuflutningskerfi og þau rekin í fullkomnum samrekstri með fyllstu nýtingu orkugjafa, mesta rekstraröryggi og lægsta vinnslu- og flutningskostnað fyrir augum.“

Mér sýnist furðulegt að nokkrum manni, sem hefur fylgst með opinberum umræðum um skipulag orkumála á undanförnum árum, skuli koma til hugar að halda því fram í alvöru, að Sjálfstfl. hafi ekki haft skýrt afmarkaða stefnu í þessum málum. Og það er furðulegt, að hæstv. iðnrh. skuli láta slíkt fara frá sér. Mér hefur aðeins komið í hug hvort á bak við þessa fullyrðingu gæti kannske legið sú staðreynd, að hæstv. iðnrh. er í nánu sambandi við ákveðna þm. Sjálfstfl. og situr í ríkisstj. með þeim hvort hæstv. iðnrh. gangi út frá því, að þessir þm. Sjálfstfl. og hæstv. ráðherrar hafi kastað frá sér stefnu Sjálfstfl. í þessum málum. Ég sé ekki að neitt hafi komið fram í þessa átt.

Ég leyfi mér að fullyrða það, að hæstv. forsrh. sé samþykkur þeirri stefnu sem frv. þetta byggist á. Mér er ekki kunnugt um að nokkur breyting hafi orðið á afstöðu hæstv. forsrh. í þessum efnum. Það var hæstv. forsrh., þáv. iðnrh., sem skipaði skipulagsnefnd orkumála sem vann þetta mál í þeim búningi sem byggt er á í þessu frv.

Mér er ekki kunnugt um að samráðherra hæstv. iðnrh., hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson hafi breytt um stefnu í þessum málum. Hann hefur ef svo mætti segja, á undanförnum árum gengið fram fyrir skjöldu í röðum okkar sjálfstæðismanna ásamt fleiri góðum mönnum um að leggja áherslu á þá grundvallarstefnu sem frv. þetta byggist á, að landshlutafyrirtækjum sé heimilt að annast raforkuvinnslu ef viðkomandi landshlutar óska þess. Ég minni á í þessu sambandi að hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson var 1. flm. að frv. til l. um orkuiðnað á Vesturlandi sem flutt var á þinginu 1978–1979. Í frv. þessu er lagt til að á Vesturlandi verði stofnað nokkurs konar orkubú hliðstætt því sem gert hefur verið á Vestfjörðum.

Hvað er það sem getur fengið hæstv. iðnrh. til þess að vera með slíkar fullyrðingar, að það sé hver höndin upp á móti annarri í Sjálfstfl. út af þessu máli? Hann nefndi Pálma Jónsson, hæstv. landbrh., í þessu sambandi. En hann skýrði ekkert nánar frá því, hvernig það mætti vera. Ég vil fullyrða að hæstv. iðnrh. hefur ekki pálmann í höndunum í þessu efni. (Gripið fram í: Það hefur þú ekki heldur.)

En mér þykir tilefni til að víkja nokkuð að þeim ágreiningi sem ekki er í Sjálfstfl., heldur á milli Sjálfstfl. og þar með hæstv. forsrh. annars vegar og hins vegar hæstv. iðnrh. Þessi ágreiningur kristallaðist og kom glöggt fram í starfi skipulagsnefndar að orkumálum sem frv. þetta er byggt á. Til þess að skýra það mál í hnotskurn vil ég aðeins segja það, að samkv. stefnu Sjálfstfl. og þeirra, sem þá stefnu aðhyllast, er heimilt að mynda og reka landshlutafyrirtæki sem hafa orkuvinnslu með höndum auk orkudreifingar. Hin stefnan — eins og ágreiningurinn kom fram í skipulagsnefnd orkumála var sú, að það skyldu vera landshlutafyrirtæki sem önnuðust orkudreifingu og þau mættu ekki annast orkuvinnslu nema að því marki að orkuver færu ekki fram úr 5 mw. stærð. Þetta var það, sem ágreiningur var um og endanlega klauf þessa skipulagsnefnd orkumála. Þetta þýðir það, að samkv. stefnu Sjálfstfl. er t.d. Austfirðingum, fólkinu í kjördæmi hæstv. iðnrh., heimilt, ef það vill, að stofna landshlutafyrirtæki og hafa á hendi orkuvinnslu og þar á meðal Lagarfossvirkjun. En samkv. stefnu hæstv. iðnrh. hefur fólkið í þessu kjördæmi ekki leyfi til að stofna landshlutafyrirtaki til að annast raforkuvinnslu og ekki heimild til þess að fá eignarhald og hafa með höndum rekstur á virkjun í eigin kjördæmi, Lagarfossvirkjun. Ég skal ekki fjölyrða meira um þessi ágreiningsefni.

Hæstv. ráðh. komst svo að orði í ræðu sinni, að það væri ekki allt ótækt — eins og hann orðaði það — í þessu frv., — ekki allt ótækt. Það var ekki mikið sagt. En hvað er ótækt? Það kom ekki fram í ræðu hæstv. iðnrh., hvað væri ótækt í þessu frv. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er það ótækt, að gert skuli vera ráð fyrir því, að það verði gerð ítarleg orkumálaáætlun til 10 ára, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir? Er það ótækt, að sett sé stjórn yfir Orkustofnun, þingkjörin stjórn, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir? Og er það ótæk stefna að styrkja Orkustofnun, hnitmiða störf Orkustofnunar við rannsóknir og ráðgjöf í orkumálum og efla áhrifavald Orkustofnunar, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir? Er þetta ótæk stefna, hæstv. iðnrh.? Ég spyr áfram: Er það ótæk stefna, að gert er ráð fyrir að Orkusjóður verði stórefldur? Hvað er ótækt við það að raforkudreifingin verði í höndum sveitarfélaga eða samtaka þeirra, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir? Og þarf það að vera ótækt, þó að skipulag raforkuvinnslunnar, eins og frv. gerir ráð fyrir, sé á þann veg, að það geti farið eftir vilja viðkomandi aðila, hvort Laxárvirkjun á að starfa sem sjálfstætt fyrirtæki og svo þau fyrirtæki sem í framtíðinni kann að vera vilji fyrir að stofna í einstökum landshlutum?

Nú skal ég ekki spyrja hæstv. ráðh. fleiri spurninga í þessu sambandi. Ég er sannfærður um að ýmislegt af því, sem ég hef hér vikið að, kannske flest, telur hæstv. iðnrh. ekki ótækt. Ég held að í ýmsum efnum greini okkur ekki eins mikið á um skipulagsmálin og halda mætti við fyrstu sýn.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um það, að hin og þessi atriði, sem þetta frv. tekur til, væru í athugun: málefni Orkustofnunar væru í athugun, Jarðboranir ríkisins væru í athugun og það væri unnið að athugun á Orkusjóði. Já, það er margt verið að athuga. Og hæstv. ráðh. sagði í sinni ræðu í raun og veru að þessar athuganir hefðu hafist og staðið yfir í vinstri stjórninni frá árinu 1971 til 1974 og svo hafi verið haldið áfram að athuga í næstu vinstri stjórn á árunum 1978 og 1979. Það vantar þarna árinu 1974 til 1978. (Gripið fram í.) Já, það vantar árin 1974 til 1978. Það voru árin sem núverandi yfirmaður hæstv. iðnrh., hæstv. forsrh., fjallaði um þessi mál. (Gripið fram í.) Já, var sporgöngumaður um þá stefnu sem hér er um að ræða og þetta frv. túlkar. Ég efast ekki um að það sé gott samstarf mitti hæstv. forsrh. og hæstv. núv. iðnrh. En verð ég ekki að halda mér við það, að þrátt fyrir það sé hæstv. forsrh. yfirmaður hæstv. iðnrh. í núv. ríkisstj.? Ég held að það fari ekki á milli mála.

Það er ekki nema eðlilegt að menn leiði hugann að því, hvað verði um orkustefnu núv. ríkisstj., því að ágreiningurinn er ekki innan Sjálfstfl., eins og iðnrh. vildi vera láta, ágreiningurinn er innan ríkisstj. Þar hlýtur ágreiningurinn að vera. Spurningin er sú, hvort undir forsæti Gunnars Thoroddsens verði framkvæmd stefna hæstv. ráðh. Hjörleifs Guttormssonar eða hvort hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson muni framkvæma stefnu hæstv. forsrh. í þessu efni.

Ég viðurkenni það, að þetta er óþægilegt mál fyrir hæstv. ríkisstj. Og ég læt mér detta í hug að það sé einmitt það sem hæstv. iðnrh. hafði í huga þegar hann sagði í sinni ræðu að það væri ekki tímabært að koma með þetta frv. sem hér er til umr., — það væri ekki tímabært. Það er ekki tímabært ef á að bíða eftir því, að það verði samstaða og einhver heildarstefna ríkisstj. í þessu. En ég óttast að það verði seint tímabært að hreyfa þessum málum á hv. Alþ. ef á að bíða eftir því. Í raun og sannleika er þetta mál þess eðlis, að það er ekki hægt að bíða lengur í þessu efni. Það er ekki hægt að draga lengur að marka ákveðna stefnu í skipulagsmálum orkumálanna. Það verður að koma á betra skipulagi í þeim efnum en nú er. Og það er einmitt þetta frv. sem miðar að því.