24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

83. mál, Jarðboranir ríkisins

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Varðandi þetta frv. um Jarðboranir ríkisins, sem hér var mælt fyrir, vil ég aðeins segja að það tengist því máli sem um var rætt hér áðan í deildinni, þ.e. skipulagi orkumála eða orkulögum öllu heldur, og ég vísa aðeins til þess, að ég tel ekki tímabært að taka afstöðu til þessa þáttar á meðan þessi mál eru til heildarathugunar og endurskoðunar á vegum stjórnvalda. Ég vil ekkert um það fullyrða, að það þurfi að vera óskynsamlegt að greina Jarðboranir ríkisins frá Orkustofnun skipulagslega og setja um það sérstök lög, eins og hér er gerð till. um, en ég tel að það þurfi mun betri athugun áður en slík ákvörðun væri tekin.

Alveg sérstaklega vil ég láta fram koma að það er nauðsyn á því að efla Jarðboranir ríkisins með ýmsum hætti, með tæknilegum búnaði og með eflingu á starfsliði sem að þessum málum vinnur. Það eru geysilega mikil verkefni sem bíða á sviði jarðborana og jarðhitavinnslu í landinu, þó að nú sjái fyrir endann á því máli sem eðlilega hefur notið forgangs, þ.e. að afla jarðhita til húshitunar. Á ég þá við það markmið, að takast megi að ljúka húshitun með jarðvarma, þar sem það er tæknilega unnt, að mestu leyti á næstu 3–5 árum. Eflaust verður að þeim tíma loknum hægt að bæta við með betri þekkingu og betri tækni og koma víðar upp hitaveitum, en það verður ekki jafnstórt verkefni og við höfum verið að glíma við og erum enn að glíma við í þessum efnum.

Það, sem við tekur, er m.a. að hagnýta jarðhitann í þágu atvinnurekstrar og iðnaðar í landinu af ýmsu tagi, og það mun ekki síst tengjast nýtingu á háhitasvæðum landsins. Ég tel því að Jarðboranir ríkisins eigi miklu hlutverki að gegna framvegis. En það er ekki réttmætt að fara að setja um þá starfsemi sérlög eða móta stefnu um það eins og stendur.

Ég gat um það fyrr hér í deild, að það er verið að fara yfir fjármál og rekstrarmálefni Jarðborana ríkisins sem hafa barist í bökkum, m.a. vegna þess að rekstur á þeirra tækjum hefur ekki verið eins hagkvæmur og skyldi og ekki fengist fjárveitingar til að nýta þessi tæki, enda er út af fyrir sig kannske ekki rétt að tækin ráði ferðinni, og sum af tækjum Jarðborana ríkisins eru ekki hin hagkvæmustu til þeirra verka sem við er að fást á þessu sviði hérlendis. Að þeim málum þarf einnig að hyggja.