24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það má segja að það séu dálítið merkilegar umr. sem hér fara fram. Tveir af hv. þm., sem hafa tekið til máls um þessi brbl. og lögin sem þau eiga að breyta, hafa komist þannig að orði, að kvótakerfið hafi verið gert of flókið í höndum landbn. 1979.

Þarna er um heimildir að ræða og heimildirnar að þessu leyti eru það rúmar að það er alveg í sjálfsvald sett bændasamtökunum og raunar landbrh. að setja reglugerð samkv. lögunum, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. þegar þetta mál var síðast til umr.

Það er alveg rétt, að frv. 1979 var breytt á margan hátt. En hvers vegna var því breytt? Því var breytt vegna þess að það var engin samstaða hér á Alþ. og það var ekki heldur samstaða meðal bændanna um að lögfesta það á þann veg sem það var lagt fram. Frv. frá 1979 var sent til allra búnaðarfélaga í landinu og annarra aðila sem höfðu hagsmuna að gæta af þeirri lagasetningu. Það komu umsagnir frá flestöllum búnaðarfélögunum og meiri hlutinn var einmitt á þá leið, að menn voru á móti fóðurbætisskatti og menn voru helst á því að reyna að taka upp einhvers konar kvótakerfi.

Það er alveg rétt, sem kom fram í ræðu hv. þm. Steinþórs Gestssonar, að þetta mál var lengi til umfjöllunar hér í þinginu. Það var verið að reyna að finna einhverjar leiðir til að koma því í gegnum þingið og það var ekki vandalaust. Það kann að vera að þau lög, sem var breytt á s.l. sumri með útgáfu brbl. sem er farið fram á að séu staðfest hér, hefðu átt að vera með einhverjum öðrum hætti. En það er algjör misskilningur að kvótakerfið eins og það er uppbyggt sé svo vegna laganna. Það verða menn að hafa í huga. Hér er í raun og veru engu verið að breyta nema í sambandi við þá sem bera mikinn fjármagnskostnað vegna nýlegra bygginga. Það er það eina.

Hins vegar var það aftur á móti með fóðurbætisskattinn. Menn voru yfirleitt í landbn. beggja deilda á því 1979, að það væri ákaflega óeðlilegt að leggja kjarnfóðurskatt á það magn sem menn töldu að væri hæfilegt miðað við það búmark sem var í raun og veru í allra huga, þó að það sé rétt hjá hæstv. landbrh., að það voru margar aðrar heimildir. Þetta var alls ekki einskorðað við kvótakerfið þegar það var lögfest, það er rétt, en hins vegar var umræðan, sem fór fram í n., fyrst og fremst miðuð við kvótakerfið.

Það getur ekki heldur verið í raun og veru eðlilegt og það getur ekki verið nein frambúðarstefna að leggja skatt á rekstrarvörur bænda. Það hefði verið að mínu mati og margra annarra eðlilegra í sambandi við þessi mál nú, að fyrst var talið nauðsynlegt að leggja kjarnfóðurskatt á allt kjarnfóður, þá hefði sá skattur farið til að borga niður aðrar rekstrarvörur, en ekki til annars. Ég hygg að það hljóti að koma að því, að slík stefna verði upp tekin hjá bændasamtökunum, enda eru margir bændur á þeirri skoðun, að önnur leið sé óeðlileg. Auðvitað er það rétt, að ef t.d. mjög lágt verð er á kjarnfóðri getur verið freistandi fyrir ýmsa að nota það meira en hóflegt er. En eins og lögin voru í raun og veru samþykkt og eins og Stéttarsambandsfundurinn ákvað 1979 að taka upp búmark átti sú leið í raun og veru að vera nægjanleg til að stjórna framleiðslunni, enda kemur það í ljós þegar farið er að skoða þessi mál, að það varð veruleg fækkun í bústofni sem var settur á á haustnóttum 1979. Það var af tvennum ástæðum: Það var vegna markaðsörðugleika, en það var líka vegna harðæris.

Ef menn athuga t.d. fækkun á mjólkurkúm og kvígum, þá fækkar mjólkurkúnum um rúmlega 7%, en kvígum um 19%, og slíkt hlaut að koma niður á framleiðslunni á þessu ári. Menn slátra ekki kvígum með fangi að jafnaði. Þar af leiðandi var augljóst að þessi minnkun hlyti að koma á síðari hluta ársins eða fyrst og fremst á síðasta sumri og þá sérstaklega á seinni hluta þess. Menn slátra ekki heldur kúm sem eiga að bera að vetrinum. Það leiðir til hins sama. Ef menn athuga því annars vegar minnkunina, sem hefur orðið, og hins vegar fækkunina er ótrúlegt að hún skyldi ekki hafa orðið meiri, ef menn taka bara þessar tölur. Hins vegar er verið að miða við ár, t.d. á Norðurlandi og Austurlandi, sem er það harðasta á öldinni. Þar af leiðandi var mjólkurmagnið minna á árinu 1979 fyrir norðan en í meðalári. Ætti það sé ekki líka skýringin á því, að samdrátturinn er ekki meiri miðað við síðasta ár en raun ber vitni. Ég held því að fóðurbætisskattinum sé í sjálfu sér kennt um samdráttinn meira en er raunhæft ef þessi mál eru skoðuð.

Eins og ég sagði áðan komst hv. þm. Steinþór Gestsson þannig að orði: „Þrátt fyrir þessa miklu umfjöllun,“ sagði þm. „á Alþingi eru lög um kvótann og fóðurbætisskattinn mjög umdeild meðal þeirra sem þau snerta helst.“- Enn fremur sagði hv. þm.: „Ég ætla að bændur hafi almennt séð það fyrir, að ekki tjóaði að halda við tölu búfjár við þær aðstæður að kvótinn skerti afurðaverðið í jafnríkum mæli og tilkynnt hafði verið.“

Er það kvótinn sem skerðir þetta? Eru það ekki markaðsaðstæðurnar sem skerða þetta? Var betra að framleiða vörur sem við fengum ekkert fyrir? Ég held að sú leið, sem bændurnir hafa farið, hafi verið að reyna að gera þennan vanda minni en hann annars yrði með kvótanum. En kvótinn skapar ekki þennan vanda. Það er algjör misskilningur.

Til hvers er að framleiða mjólk sem fæst ekkert fyrir eða sama og ekkert? Var ekki betra að gera einhverjar ráðstafanir til að þessi mjólk yrði ekki framleidd? Ég held að um það sé að ræða. Ég held að það sé nokkuð mikil fjarstæða að ætla að bændasamtökin hafi að ástæðulitlu eða ástæðulausu gripið til einhverra ráða sem mundu rýra kjör bændanna. Ég held að málum sé öðruvísi varið. Og menn þurfa ekki að halda í þessari stöðu að allir séu á einu máli um hvaða aðferð er höfð í þessu efni. En ef menn á annað borð meina eitthvað með því sem þeir segja um að það eigi að halda byggðinni verður það ekki gert með öðru en stjórnun. Og ég verð að segja að ég er hissa á því þegar bændur, eins og t.d. hv. þm. Páll Pétursson, eru að tala um að fóðurbætisskattur sé skynsamlegasta leiðin í þessari stöðu. Eins og háttað er í landbúnaði, bæði með fóðuröflun og með verkun á fóðri, fer eftir sól og vindum hvernig til tekst á hverjum stað. Þeir, sem eru betur settir, geta miklu frekar framleitt með fóðurbætisskatti. Og það er enginn vafi á að ef sú leið yrði farin einvörðungu mundu margir þeir, sem eru efnaminni og í erfiðari aðstöðu að öllu leyti, verða að hætta búskap. Er það það sem við viljum? Ég hef staðið í þeirri trú, að það væri annað sem við vildum, við vildum byggja landið og við yrðum að gera ráðstafanir til þess.

Það kom líka fram í máli hæstv. landbrh. að það yrði að gera ráðstafanir vegna samdráttarins til þess að þeir bændur, sem yrðu að fækka búfé, hefðu möguleika á einhverjum öðrum tekjum. En það þarf að gera þetta á skipulegan hátt. Á það skortir enn því miður.

Ég ætla ekki að ræða þetta í löngu máli vegna þess að þetta mál fer í n. sem ég á sæti í. En þegar hæstv. landbrh. flutti framsöguræðu sína um þetta mál komst hann m.a. þannig að orði, með leyfi forseta:

„Enn fremur var á aðalfundi Stéttarsambands bænda dagana 30. ágúst til 2. sept. gerð samþykkt um að leggja til við Framleiðsluráð, að kjarnfóðurgjaldið yrði lækkað í 33.3%, og gerðar tillögur um eins konar kjarnfóðurskömmtun. Hefur kjarnfóðurgjaldið í samræmi við þetta verið 33.3% frá 1. sept. og hefur ákvörðun um þá hlutfallstölu verið staðfest til bráðabirgða“.

Nú vil ég spyrja hæstv. landbrh. hvernig eigi að skilja þessi orð „til bráðabirgða“. Er þess að vænta að breyting verði gerð á þessari gjaldtöku — eða hvað felst í þessum orðum?

Hæstv. landbrh. flutti ræðu á aðalfundi Stéttarsambands bænda þegar þetta mál var þar til umræðu. Þá skildu ýmsir fundarmenn mál ráðh. þannig, að ef fundurinn gerði tillögu um að kjarnfóðurskatturinn yrði lækkaður úr 40%, eins og hann var þá, niður í 33.3% gæti komið til álita að hann í embætti landbrh. færi ekki eftir slíkri samþykkt. Nú vil ég spyrja hæstv. landbrh. að því, hvort aðalfundarfulltrúar hafi misskilið mál hans eða hvort beint samband sé á milli þess, sem talið er að hafi legið í orðum hæstv. ráðh. á aðalfundi Stéttarsambands bænda, og orðanna sem ég vitnaði til — orðanna „til bráðabirgða“ í sambandi við þennan skatt.

Eins og ég hef áður komið að hér í máli mínu er mikil deila meðal bændanna um hvernig eigi að sigla út úr þeim vanda sem við blasir. Þegar við vorum að fjalla um þetta á Alþ. fyrir tveimur árum var það skoðun okkar margra að best færi á því, að bændasamtökin og Framleiðsluráð hefðu sem rúmastar heimildir að grípa til til að stjórna þessum málum, enda bæru þeir þá ábyrgð á framkvæmdinni. Það var aðeins í einu tilviki sem þetta var ekki gert. Það var í sambandi við kjarnfóðurskattinn. En þó var sett ákvæði til bráðabirgða sem var á þessa leið, með leyfi forseta:

„Fram til þess tíma, er tekist hefur að afla nauðsynlegra gagna, er heimilt að gjald samkvæmt b-lið“ — þ.e. kjarnfóðurgjald - „verði lagt á allt kjarnfóður, en endurgreiðist síðan eftir ákvæðum b-liðar.“

Þessarar heimildar hefur verið og var hægt að grípa til hvenær sem var og setja á 100% skatt. Það stendur að vísu í lögunum að það þurfi staðfestingu ráðh. á hverju og einu sem Framleiðsluráð að tillögu Stéttarsambandsfundar gerir samþykktir um. Hins vegar held ég að það hafi verið skoðun og sé ríkjandi skoðun meðal bænda að það sé aðeins á einn veg, þ.e. að ef Framleiðsluráð að tillögu Stéttarsambandsfundar vildi grípa til einhverra þeirra aðgerða sem ráðh. og ríkisstj. vildu ekki að gripið sé til, að þá gætu ráðh. og ríkisstj. komið í veg fyrir slíkar aðgerðir og ríkisstj. þurfi þá að gera aðrar ráðstafanir sem komi á móti þeim vanda sem er verið að glíma við hverju sinni.

Ég held að það hafi verið skilið svo, að ráðh. og ríkisstj. gætu aldrei gert þessar aðgerðir harðari en Stéttarsambandsfundur og Framleiðsluráð legðu til, vegna þess líka að það eru þeir sem bera ábyrgðina á þessari framkvæmd. Það er af þeim ástæðum sem ég sé mig knúinn til að leggja fram þessar fsp. til hæstv. ráðh., því að það getur riðið á töluvert miklu hvort þarna er eingöngu um misskilning að ræða eða hvernig hann og ríkisstj. muni líta á hvernig framkvæmdin verður í framtíðinni á þessum málum. Þá verður að setja um það, að mínu mati, ótvíræðari fyrirmæli en kannske eru núna í lögunum.