24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess fyrir mig að hafa mörg orð um brbl. að þessu sinni eða við þessa umr. fram yfir það sem ég hef haft hér áður. Þó eru það örfá atriði í ræðum manna sem ég vil aðeins koma hér að.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess, að ég sé ekki að það hafi haft neina þýðingu vegna þeirrar umr., sem fram fór frá minni hendi um þetta frv., að hæstv. landbrh. fór að rekja fyrir deildinni hversu margar heimildir væru um framleiðslustjórnun í lögunum sem sett voru hér á Alþ. 1979. Okkur var öllum ljóst að heimildir eru til ýmissa aðgerða af hendi stéttarsamtakanna og Framleiðsluráðs til þess að hafa vald á framleiðslustjórn, hafa vald á því, hversu mikið er framleitt af hinum einstöku landbúnaðarvörum.

Það þurfti ekki að benda mér á það heldur, að í lögunum var heimild til að setja á 100% kjarnfóðurgjald. Ég gat þess í ræðu minni að hún hefði verið til og því hefði verið óþarft að setja brbl. um 200% kjarnfóðurgjald. Ég er alveg sannfærður um að það er ekki stór munur á því hverjar afleiðingar þessi gjaldtaka hafði, hvort sem um var að ræða 100% eða 200% kjarnfóðurgjald, því það er svo fjarstæðukennt að ætla sér að nota kjarnfóður að nokkru marki með því verðlagi hvort sem var, að mínum dómi.

Hæstv. ráðh. nefndi að ástæðan fyrir því, að þau brbl. voru sett sem hann gaf út í sumar, hafi verið sú, hversu lítið hafi gengið að minnka mjólkurframleiðsluna í landinu og gat þess, að á fyrstu 10 mánuðum verðlagsársins hafi orðið aukning á mjólkurframleiðslunni. Ég get vel ímyndað mér að þetta sé rétt. Ég hef ekki tölur fyrir mér sem sýna þetta, en ég dreg þetta ekki í efa. En ég vil benda á að fyrri hlutann af því tímabili voru engar hömlur á mjólkurframleiðslu. Það var ekki gert ráð fyrir neinum hömlum á mjólkurframleiðslunni á árinu 1979. Þær tóku ekki gildi fyrr en 1980 og vitaskuld höguðu menn framleiðslu sinni eftir því, hvenær aðgerðirnar fóru að verka til skerðingar. Þetta eru því trúlega réttar upplýsingar, ég dreg það ekki í efa, en er ekki nægileg ástæða til að byggja á þá ráðstöfun sem gerð var, og ég sný ekki aftur með að hún var harkaleg í ofanálag við þær ráðstafanir sem menn höfðu ákveðið að beita í þessu efni.

Hæstv. ráðh. spurðist fyrir um hvaða markmið ég vildi hafa í mjólkurframleiðslumálum. Ég vona að það sé ekki mjög langt á milli þeirra skoðana sem ég og hæstv. ráðh. höfum í því efni. En það, sem þarna skilur á milli, er að ég er ófús að fallast á að það hafi verið réttlætanlegt, þegar það var gert í sumar, að demba á þessu háa kjarnfóðurgjaldi. Reynslan undangengna mánuði hefur ekki sýnt að það hafi verið nauðsynlegt, og ég held að það hafi ekki heldur verið eðlilegt að setja þennan skatt á, þegar miðað er við hefðbundnar búgreinar, mjólkurframleiðendur eina, á þeim tíma sem það snertir sauðfjárframleiðendur ekki nokkurn skapaðan hlut hvort skatturinn var í gildi eða ekki. Ég held að það hafi verið bæði ranglátt og óhyggilegt að gera það. Það er mín niðurstaða.

Þá hafði hæstv. landbrh. orð á því, að ef þessi skattur hefði ekki verið settur á svona fyrirvarálaust hefði þeim, sem betri höfðu efnin, gefist tóm til að birgja sig upp af fóðurbæti. Ekki skal ég segja um það. En þeir bændur, sem ég þekki best, hafa fram að þessu átt fullt í fangi með að greiða þær rekstrarvörur, sem þeim er nauðsynlegt að hafa á búunum, og höfðu ekki möguleika á því að safna birgðum hjá sér af jafndýrum rekstrarvörum og fóðurbætirinn er. Og ég held að það hefði verið rétt að muna eftir því, að bændur hér margir hverjir eiga í erfiðleikum með rekstrarvörurnar og það hefði ekkert síður þurft að gjalda varhug við því, að þeir yrðu fyrir allt of miklum óþægindum af einmitt fóðurbætisgjaldinu, og frekar ástæða til en þess sem ég þóttist verða var í ræðu hæstv. landbrh. þegar hann sagði að þeir, sem hefðu haft með höndum fóðursöluna í landinu, hefðu fengið greiðslufrest til þess að draga úr of miklum óþægindum. Það er vel þess vert að enginn maður, enginn þegn í landinu verði fyrir meiri óþægindum en nauðsynlegt er. En það hefði þá líka þurft að muna eftir því, að bændurnir verða fyrir miklu, miklu þyngri áföllum í þessu efni en þeir sem annast fóðursölu í landinu.

Eins og ég sagði hér í upphafi sé ég ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. við þessa umr. fram yfir það sem ég gerði fyrr. Þó vil ég aðeins koma að því, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði hér og hafði það eftir mér, að kvótakerfið hefði valdið skerðingu á verði. Hann vildi telja að ég hefði farið hér með rangt mál, það væri ekki skerðing af kvótakerfinu, heldur skerðing vegna markaðarins. Þetta má segja að sé eins konar hráskinnaleikur því að vitaskuld er kvótakerfið sett á vegna þess að markaðurinn var erfiður, það er mér ljóst, en kvótakerfið réð hvernig sú skerðing kom niður. Það er það sem ég átti við. Kvótakerfið er flókið. Ég hef haldið því fram, að þrátt fyrir að kvótakerfið væri flókið hefði verið nauðsyn að ganga úr skugga um hvernig það kæmi út í framkvæmd áður en farið var að setja aðrar ráðstafanir í gang sem, eins og gert var í sumar, hafa komið mjög hastarlega við ýmsa framleiðendur.

Að þessu leyti og ýmsu öðru var ræða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar dálítið vandræðaleg í þessu efni og hún sýndi mér í raun og veru ekki annað en það, sem ég vissi áður, að hann er áreiðanlega andvígur þeim brbl. sem hér eru til umr.