24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

70. mál, tollskrá

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 76, hef ég flutt ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni, Alexander Stefánssyni og Árna Gunnarssyni.

Í lögum nr. 120 frá 1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum, er ákvæði í 27. tölul. 3. gr. um ívilnanir á tollum af bifreiðum fyrir öryrkja. Þar er um að ræða ívilnanir öryrkjum til handa til bifreiðakaupa til einkaafnota eða til þess að komast leiðar sinnar til vinnu og annað þess háttar. Í 41. tölul. 3. gr. eru einnig ákvæði um ívilnanir á tollum af bifreiðum sem nota skal í atvinnuskyni, og sú grein hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að lækka toll úr 90% í 40% af bifreiðum til bifreiðastjóra sem hafa akstur leigubifreiða til fólksflutninga, akstur sendiferðabifreiða eða kennslu í bifreiðaakstri að aðalstarfi. Enn fremur er heimilt að lækka toll úr 90% í 65% af bifreiðum til bifreiðastjóra sem hafa slíkan akstur að aukastarfi.“

Í 27. tölul., sem ég sé ekki ástæðu til að lesa allan hér, en það er sá tölul. sem fjallar um hin almennu bifreiðarkaup, stendur í 4. málsgr.:

„Aðilar, sem njóta tollaívilnunar samkv. 41. tölul., geta eigi jafnframt fengið tollívilnun samkvæmt þessum tölulið.“

Eins og mönnum mun kunnugt er töluvert um það að öryrkjar, sem hreyfihamlaðir eru eða á annan hátt ófærir um að stunda erfiðisvinnu, sækist eftir að stunda akstur leigubifreiða. Kaup á slíkum bifreiðum eru hinum föttuðu mjög erfið, enda oft um að ræða undanfarandi veikindi og tekjuleysi og slíkar bifreiðar mun dýrari en bifreiðar til einkanota. Ekkert tillit er hér tekið til öryrkja umfram aðra umsækjendur um atvinnubifreiðar vegna 4. málsgr. 27. tölul., sem fjallar um að aðilar, sem njóta tollívilnunar samkv. 41. tölul., geti eigi jafnframt fengið tollívilnun samkv. 27. tölul. Í raun er því aðstaða öryrkja til kaupa á bifreið í atvinnuskyni mjög svipuð og annarra sem á slík kaup hyggja. Nærri lætur að lækkun gjalda má nema allt að 750 þús. kr. og heildarlækkun að meðtöldu innflutningsgjaldi allt að 1 millj. og 500 þús. Lækkun tolla af bifreiðum til atvinnurekstrar er um 40%, eins og að ofan greinir. Segja má því að lækkun vegna örorku falli niður þegar um er að ræða kaup á bifreið í atvinnuskyni, þar sem sú ívilnun nýtist ekki vegna ákvæðis 4. mgr. 27. tölul. 3. gr. Varla fer þó á milli mála að sá, sem orðið hefur fyrir fötlun eða sjúkdómum, á allajafna við þrengri fjárhag að búa og akstur er e.t.v. eina starfið sem hann getur stundað. Sýnist því ekki ósanngjarnt að hann njóti frekari ívilnunar en hinn, sem heill er heilsu, enda allra hagur að starfsgeta hans nýtist eins og kostur er.

Með þessu frv. er lagt til að ívilnun hinum fötluðu til handa verði rýmkuð nokkuð eða um 20% þegar um kaup á bifreið til atvinnurekstrar er að ræða. Breytingin, sem hér er gerð till. um, er sú, að í 41. tölul. 3. gr. laganna bætist eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Sé um öryrkja að ræða, sem rétt ættu til ívilnunar samkv. 27. tölul. 3. gr., skal lækka toll um 20% til viðbótar.“

Ég held að hér sé um sanngirnismál að ræða sem þm. allra flokka hafa lýst stuðningi við. Um leið og ég fer fram á, að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn., skora ég á n. að afgreiða þetta frv. sem fyrst eða þannig að það geti komið til gagns við úthlutun bifreiða til öryrkja nú í febrúar.