24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

98. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Sigurgeir Sigurðsson):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. um breyt. á lögum nr. 51 frá 9. júní 1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Sú breyting, sem ég legg til með frv. þessu, er viðbót við 17. gr. nefndra laga og fjallar breyting mín um fjármögnun íbúðabygginga fyrir aldraða sem óska þess að eiga íbúðir sínar sjálfir á þessu æviskeiði sínu, svo sem flestir þeirra hafa átt fram til þessa. Ég held að það sé rétt á þessu stigi að ég lesi 17. gr. laganna eins og hún er í núgildandi lögum, herra forseti, en hún hljóðar svo:

„Lán samkv. 3. tölul. 11. gr. er heimilt að veita sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagssamtökum, sem byggja íbúðir, heimili eða dagvistarstofnanir fyrir aldraða eða dagvistarstofnanir fyrir börn.

Lánsfjárupphæð til íbúða fyrir aldraða má nema sama hlutfalli af byggingarkostnaði staðalíbúðar fyrir viðkomandi aðila og lánað er á því ári samkv. 1. tölul. 11. gr.

Lán til dvalarheimila aldraðra og dagvistarstofnana fyrir börn mega vera allt að helmingi byggingarkostnaðar.“

Viðbót mín er sú, að við 17. gr. bætist, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er að veita sveitarfélögum eða félagssamtökum einstaklinga framkvæmdalán til byggingar verndaðra sölu/leiguíbúða aldraðra er nemi 75% byggingarkostnaðar.

Framkvæmdalánið endurgreiðist við sölu íbúða til notenda. Gert er ráð fyrir að 25% íbúða í hverjum áfanga yrði í eigu sveitarfélags eða félagasamtaka og haldi þeir aðilar lánum samkv. 2. tölul.“ — sem sagt hinum venjulegu lánum til leigu- og söluíbúða.

„Í reglugerð verði sett ákvæði um endursölu og/eða erfðarétt slíkra söluíbúða svo og skilgreiningu á vernduðum íbúðum,“ sem að ég hygg að muni ekki vera til.

Málefni aldraðra hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarið og hafa þær umræður verið með þeim hætti, að aldraðir hafa verið settir á bekk með ýmsum minnihlutahópum og opinberir aðilar ráðskast með mál þeirra án þess að eftir áliti þeirra væri leitað. Við Íslendingar höfum sérstöðu að mörgu leyti. Sérstaða okkar Íslendinga hefur m.a. verið í því fólgin, að íbúðaeign landsmanna er mjög almenn og hinn almenni borgari hefur kosið að tryggja hag sinn og fjölskyldu sinnar með því að eignast eigið húsnæði þegar á fyrstu árum hjúskapar. Óhætt er að fullyrða að þetta muni vera meginreglan. Þessi lagabreyting, ef samþykkt verður, hefur í för með sér að landsmenn ættu að geta verið lengur sjálfs sín herrar og þannig teyst sjálfir eigin mál svo sem hugur þeirra flestra stendur til. Þessi breyting, ef að lögum verður, hefði enn fremur þau áhrif að meira yrði byggt af íbúðum fyrir aldraða, bæði til sölu og leigu, en verið hefur þar sem hér kæmi til fé væntanlegra kaupenda, en fjárskortur sveitarfélaga hefur hingað til mjög hamlað framkvæmdum.

Talið er að byggja þurfi hér á landi 1500–1700 íbúðir árlega til að fullnægja íbúðaþörf landsmanna. Þessi tala er að vísu nokkuð á reiki. Sumir telja að þessi tala ætti að vera liðlega 2000 íbúðir, en ég held að hin talan sé nær lagi. Ég tel æskilegt að u.þ.b. 10% af þessum íbúðum verði næstu ár byggð sem verndaðar íbúðir fyrir aldraða og þá í svipuðum eignarhlutföllum og núverandi íbúðareign landsmanna gefur tilefni til.

Ótækt er að neyða aldraða til að afsala sér þeim mannréttindum að eiga húsnæði sitt óski þeir þess. Nýleg könnun, sem að vísu er bundin við eitt sveitarfélag, sýnir að aldraðir vilja mjög gjarnan taka þátt í að leysa eigin mál. Af 25 umsóknum um elliíbúðir komu 21 um söluíbúðir, en aðeins 4 um leigu. Benda má á að Félag aldraðra í Reykjavík, sem starfað hefur um árabil, hefur ekki ráðið við byggingarverkefni enn sem komið er sökum þess að aðilar hafa ekki átt fé eða haft aðgang að tánum til að brúa það bil sem skapast meðan á byggingu stendur til þess tíma að viðkomandi geti selt fyrri íbúð eða eign til að greiða fyrir nýja íbúð í vernduðu húsnæði. Fyrir sveitarfélög er hér líka um stórmál að ræða sem mundi auka mjög möguleika á byggingu íbúða í samvinnu við aldraða, og um leið draga úr eftirspurn eftir lóðum á almennum markaði þar sem fleiri eldri íbúðir kæmu í endursölu fyrir þá sem á stóru húsnæði þyrftu að halda. Eðlileg staðsetning íbúða aldraðra er í eldri hverfum, helst í nágrenni fyrri heimila ef mögulegt væri, þar sem erfitt er að staðsetja aðra byggð. Við höfum allt í kringum okkur dæmi um að slík staðsetning sé möguleg ef eftir er leitað.

Herra forseti. Samþykkt þessa frv., ef af verður, hefði í för með sér margs konar hagnað fyrir þjóðfélagið. Við tökum fullt tillit til þeirra öldruðu sem bjuggu í haginn fyrir okkur, sem nú teljumst á besta aldri, og nýtum krafta þeirra þeim og okkur í hag. Við gefum öldruðum í þessu verðbólguhrjáða þjóðfélagi jafna möguleika á við aðra til að varðveita fé sitt í fasteign sem samfélagið hefur skuldbundið sig til að endurgreiða á kostnaðarverði auk verðbóta hvenær sem á þyrfti að halda. Og síðast en ekki síst: Við gerum haustið í lífi landsmanna að tíma eftirvæntingar og jafnvel tilhlökkunar hóps samborgara sem finna sig fullgilda og eftirsóknarverða samverkamenn í uppbyggingu samfélagsins.

Herra forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til hv. félmn.umr. lokinni til eins skjótrar afgreiðslu og mögulegt er, því að ég tek það fram, að hér er um stórmál að ræða sem gæti haft mjög góðar afleiðingar og gott í för með sér bæði fyrir notendur og hinn almenna byggingarmarkað. Og síðast en ekki síst: Við mundum varðveita reisn eldri borgara okkar lengur og betur en við gerum nú.