24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. frv. sem hér er til umr. á þskj. 71, og ég skal hafa ræðu mína stutta.

Ég tel að umræður um skattsvik og ástæður fyrir skattsvikum, en þær eru oft til umr. í sölum hv. Alþingis, séu fyrst og fremst komnar til vegna þess að tekjuskattur er of hár. Þar liggur meginástæðan. Það er þess vegna sem allar þessar umr. urðu, og það er þess vegna sem þessi mikla leit að tillögum um fyrirbyggjandi aðgerðir stendur yfir ætíð þegar skattalögum er breytt.

Það gerðist þegar lögin frá 1978 voru samþ. hér á Alþ. að sett var þessi regla, sem menn sjá nú flestir hverjir að getur ekki gengið, þ.e. reglan um að vissum stéttum í þjóðfélaginu sé hægt að áætla tekjur án tillits til staðreynda. Það skal tekið fram, að bændur eru aðeins hluti þeirra sem þannig fara út úr þessu nýja skattakerfi. Fjöldi annarra sjálfstæðra atvinnurekenda lendir í þessu kerfi.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hér hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Suðurl., að sé horfið til gamla kerfisins má búast við einhverjum skattsvikum. En ég tel að hér sé of dýru verði keypt að eltast við þá sem svíkja undan skatti. Ég minni á að skattsvikarar, sem ég hef enga samúð með, bjarga sér ætíð sama hvaða kerfi er notað til að ná þeim.

Það, sem hefur gerst í þessu máli, er að sönnunarbyrðinni hefur verið snúið við. Það er afar óalgengt í lögum vestrænna ríkja að það sé gert. Það er aðeins gert þegar brýnir hagsmunir eru í húfi. Það er gert í áfengislöggjöf, tollalöggjöf og í refsilöggjöf í undantekningartilvikum, því að auðvitað hvílir sönnunarbyrðin á opinberum aðilum í þessum efnum.

Mig langar til þess, herra forseti, í lok ræðu minnar að vitna til ummæla ágæts lögfræðings sem hefur dálítið kannað þetta mál, en grein eftir hann birtist í Frjálsri verslun. Það mun vera sama greinin og hv. 1. flm. málsins vitnaði til í sínu máli. Lögfræðingurinn, sem er Baldur Guðlaugsson, segir svo í grein sinni, með leyfi forseta:

„Markmið löggjafarinnar er að ná til þeirra sem áður sluppu vel. Það kann að takast í einhverjum tilfellum, en er jafnframt keypt því dýra verði að aðrir eru að ósekju beittir órétti. Vitaskuld eru það þýðingarmeiri hagsmunir að menn njóti þeirrar verndar gagnvart skattyfirvöldum að vera ekki látnir gjalda skatta af meiri tekjum en þeir hafa aflað. Með lögunum er því verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni hagsmuni. Þá má benda á, að lögin hafa endaskipti á áður gildandi reglum hvað það varðar, að áður þurftu skattyfirvöld að sanna eða gera sennilegt að menn hefðu í reynd haft hærri tekjur en þeir töldu fram, en nú þurfa sumir menn að greiða skatt af hærri launum en þeir hafa talið fram, nema þeir geti talað skattstjóra inn á að lækka reiknaðar tekjur niður fyrir það sem ríkisskattstjóri ákveður. Sönnunarbyrðinni hefur sem sé verið snúið við.

Að lokum má spyrja: Standast þessi ákvæði skattalaganna? Vitanlega hlýtur lögfræðingur að fara varlega í að fullyrða mikið um það því um slíkt á Hæstiréttur síðasta orðið. Og óneitanlega hefur Hæstiréttur talið að margs konar misjafnlega réttlát skattlagning væri gild hvað sem líður eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Mörkin á milli heimilla eignarskerðinga í formi skatta og bótaskylds eignarnáms geta verið vanddregin. En svo mikið er víst, að það er engan veginn sjálfgefið að það standist samkv. stjórnarskránni að ákvarða mönnum laun eftir einhverjum tilbúnum viðmiðunarreglum og leggja síðan á skatta samkv. því, burt séð frá því hvaða tekjur þeir í raun og veru höfðu. Slík skattlagning fer að jaðra við eignarnám, ef hún fer þá ekki alveg yfir mörkin.“ — Hér lýkur tilvitnun í þessa ágætu grein Baldurs Guðlaugssonar lögmanns.

Ég vil skora á hv. þdm.samþ. þessar breytingar, þegar þetta mál kemur aftur frá þeirri n. sem fær það til meðferðar og koma þannig í veg fyrir að menn, sem kjósa að vinna stuttan vinnutíma eða af einhverjum ástæðum hafa lægri tekjur en viðmiðunarreglurnar segja til um séu látnir greiða skatt af tekjum sem hvergi eru til.