25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

53. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mér er skylt að þakka svör hæstv. ráðh. þó að þau hafi nánast verið út í bláinn.

Fyrsta spurningin var þessi: „Hverjar eru þær reglur sem settar hafa verið um greiðslu rekstrar- og afurðalána til bænda“ o.s.frv.

Samkv. fyrirmælum Alþingis á að setja slíkar reglur og átti að vera búið að því fyrir einu ári eða einu og hálfu. Hér kemur fram hjá hæstv. ráðh. beint og óbeint, að engar slíkar reglur hafi verið settar, það sé verið að ræða þetta í einni nefnd af annarri.

Ég vitnaði hér til bréfs þáv. sjútvrh. frá 1977, Matthíasar Bjarnasonar, þar sem bankarnir ætluðu líka að færast undan því að framfylgja— að vísu ekki vilja Alþingis beint, hann tá ekki fyrir — en því sem samið hafði verið um og ríkisstj. hafði gefið yfirlýsingu um. Þeir voru ekki látnir komast upp með það. Þeim var sagt að setja reglurnar og þeir gerðu það samdægurs. Að það sé ekki hægt að láta bankana setja þessar reglur er auðvitað slíkur fyrirsláttur að það tekur ekki tali. Þetta svar er allsendis ófullnægjandi. Og þegar núna er sagt að bankarnir ætli að ráðstafa lánunum á sama hátt og verið hefur, hver heimilar þeim það? Alþingi hefur fyrirskipað að þeir skuli ekki gera það, þeir eigi að koma peningunum til bændanna, til þeirra sem eiga að fá þá. Og þá kemur hæstv. viðskrh. hér og les það bara upp eins og sjálfsagt mál að þetta skuli gert á sama hátt og áður, þó eitt og hálft ár sé liðið frá því að þáv. viðskrh., sem auðvitað gerði ekkert í málinu, var falið að sjá um þetta. Síðan kom viðskrh. Alþfl. — það er kannske varla von að mikið væri gert á þeim stutta tíma sem hann sat og var í starfsstjórn — en ég hafði svo sannarlega treyst því, að núv. hæstv. viðskrh. mundi framfylgja vilja Alþingis. Og ef það er hans hugmynd að greiða í dag eða á morgun allt þetta fé til annarra en þeirra sem eiga að fá það, þá er rétt að fá það hér fram, hvað þetta eru miklar upphæðir og hverjir lántakendurnir séu. Ég held að Alþingi eigi heimtingu á því.

Í þessum bréfum bankanna segir þó að það megi að sjálfsögðu ráðstafa peningunum inn á reikning viðkomandi bænda í bönkunum. Auðvitað má það og hefur alltaf mátt. Það hefur verið gert. T.d. lætur Slátursamlag Skagfirðinga útibú Búnaðarbankans á Sauðárkróki færa peninga bændanna inn á þeirra eigin reikninga. Þetta er einfaldast í veröldinni, segir bankastjórinn mér, enda sá það hver maður í hendi sér. Í þessum bönkum eru vinnulaun manna færð inn á reikninga þeirra eftir launaskrá frá fyrirtækinu, alveg nákvæmlega á sama hátt og innleggsskrá frá Slátursamlaginu er afhent bankanum og hann færir það inn á viðskiptareikninga mannanna sem eiga peningana. En í öðrum fyrirtækjum fær bóndinn ekki einu sinni hugmynd um það, hvar þessir peningar eru niður komnir, og enginn veit nokkurn tíma hvenær hann fær þá eða hvort hann fær þá yfirleitt, þó að varan sé nú í umboðssölu, en að það megi ekki koma þessu fyrir, vegna þess að það sé svo mikill kostnaður fyrir bændurna og vinnuna, er bara allt saman fyrirsláttur og gersamlega út í bláinn. Þetta er búið að ræða hér, eins og ég sagði áðan, í 3–4 ár og Alþingi sannfærðist um að þetta var allt saman fyrirsláttur. Svo kemur það núna upp einu sinni enn þá, að það séu einhverjir annmarkar á þessu.

Það er spurt að því beinlínis í fsp. hvort komið hafi fram einhverjir erfiðleikar við þessa framkvæmd. Það er varla von að hæstv. viðskrh. geti svarað því, hvort þeir hafi komið fram, vegna þess að þetta hefur aldrei verið reynt, líklega engum í kerfinu dottið í hug að reyna það. Þeir þykjast vera vaxnir hátt yfir Alþingi, þeim komi bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut við hvað kjörnir fulltrúar þjóðarinnar segja. Þeir hafa þetta bara eins og þeim sýnist, eins og ákveðnum hring sýnist, þar sem valsað er með milljarðatugi af peningum bænda.

Ég fullyrði raunar að það sé langmesta vandamál landbúnaðarins, að bændur skuli ekki í 60–70% verðbólgu fá sína peninga, það skuli vera valsað með þá annars staðar. Ég held að það sé kominn tími til þess að Alþingi geri nýja ályktun, sem hlyti þá auðvitað að beinast að þeim sem eiga að framkvæma þessa hluti samkv. þeirra fyrirmælum, og svo sannarlega dettur mér það í hug, hvort viðskrh. treysti sér til að sitja í sínum stól ef hann ættar bókstaflega ekkert í málunum að gera. Það er skylda hans í þingræðisríki að framfylgja vilja Alþingis eða standa upp úr stólnum ella. Svona einfalt er málið.

Svo er það aftur önnur fsp. sem verður á dagskrá hér á eftir og varðar útflutningsbætur og niðurgreiðslur. Ég á von á því, að hæstv. landbrh. geti frætt okkur eitthvað meira um gang þeirra mála heldur en viðskrh. hefur gert, að því er þennan fyrri lið fsp. varðar. En ég held að málið liggi ofurljóst fyrir og ég þurfi þess vegna ekki að taka upp meiri tíma hér. Það liggur sem sagt fyrir, að hæstv. ríkisstj., hæstv. viðskrh., hefur ekkert gert til að framfylgja vilja Alþingis, og mér skildist á honum að hann ætlaði sér ekkert að gera, hann ætlaði að láta þessa peninga streyma út. Þeir eru oft greiddir út 25. nóv. — það mundi vera í dag. Hann lofaði mér því að vísu í síðustu viku, þar sem ekki var hægt að fá fsp. svarað, að hann mundi sjá til þess, að peningarnir yrðu ekki greiddir út fyrr en málið hefði komið hér til umræðu. Ég vona að það standi, það sé ekki búið að færa þessa fjármuni til manna, sem ekki eiga þá, og komið verði í veg fyrir að það verði gert nú næstu daga, meðan Alþingi fær svigrúm til að taka nýjar ákvarðanir og sjá til þess að lög landsins séu ekki brotin, því að í þessu tilliti er þáltill. auðvitað lög.