25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

53. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef í rauninni ekki miklu við að bæta það sem ég sagði áður í mínu svari. Það kemur fram í svörum bankanna, að það séu viss vandkvæði á framkvæmd þessara mála. Nefnd, sem ýmsir fulltrúar frá bændasamtökunum og bankastofnunum eiga sæti í, er að fjalla um þetta mál og henni er ætlað að gera tillögur um tilhögun. Eins og fram kom hjá mér í mínu svari eru í þessari nefnd fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda, sláturleyfishöfum, Seðlabanka Íslands, Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Ég geri ráð fyrir að það sé ekki óeðlilegt að samtök bændanna komi þarna við sögu og fái tækifæri til þess að fjalla um það með hverjum hætti á að haga þessum málum til lengri framtíðar. Það eru ekki tímamörk í þál. Menn geta kvartað yfir því, að það taki sinn tíma að framkvæma hana, en það eru ekki tímamörk í henni þannig að það þýðir ekki það, að ekki verði farið að vilja Alþingis í þessum efnum. Ég mun bíða eftir tillögum þessarar nefndar. Ég skal að sjálfsögðu áfram ýta á að hún hraði störfum og geri tillögur um tilhögun þessara mála í samræmi við það sem til er ætlast. Ég hef engan áhuga á því, að vilji Alþingis verði ekki framkvæmdur, hvorki í þessum málum né öðrum, ef Alþingi hefur lagt fyrir ríkisstj. að framkvæma vissa hluti. En ég álít eðlilegt að bændurnir sjálfir og samtök þeirra fái tækifæri til að fjalla um þessi mál og hafa einhver áhrif á, hvernig þessari framkvæmd verður hagað, og þeir séu ekki sniðgengnir. Ég legg áherslu á það. Ég mun, eins og ég sagði áður, ýta á að nefndin skili sínum tillögum og síðan verði teknar ákvarðanir um framhaldið.