25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

53. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir áskorun síðasta ræðumanns. En ég gat þess hvaða óvirðing Alþingi væri gerð að fara ekki eftir samþykktum þess. Ég nefndi það almenningsálit, sem væri vaxandi, að virðing Alþingis væri ekki sem skyldi meðal þeirra sem kysu til Alþingis vegna þess að Alþingi ætlaði sér ekki þann sess, það verkefni og það vald sem því samkv. stjórnarskrá landsins er fengið í hendur. Það er einnig mjög áberandi gagnrýni á stjórnvöld af almennings hálfu, sem ég held að hafi við rök að styðjast, og það er hve afgreiðsla mála gengur seint, hvað kerfið er þungt í vöfum. Og þau svör, sem við höfum fengið frá hæstv. viðskrh., sýna það og sanna. Ég held að það sé búið að gera þetta mál flóknara en ástæða er til og þess vegna hafi bankar fengið nægilegan umþóttunartíma til þess að koma vilja Alþingis í framkvæmd. Það er þess vegna skylda hæstv. viðskrh. að svo verði gert nú í haust við útborgun lána.