25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

351. mál, greiðsla útflutningsbóta og niðurgreiðslna til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svör hans. Það er ljóst, að hann lætur nú skoða þessi mál öll, og er það vel. Það er rétt, sem ráðh. sagði, að nú eru þegar í lögum frá því vorið 1979 heimildir til að fara þær leiðir sem þessi margumtalaða þál. einmitt fjallar um. Þessar athuganir hafa farið fram. Ég varð að vísu fyrir vonbrigðum með að ekki skyldi vera haldið áfram í striklotu, ef svo má segja, frá vorinu 1979 að athuga hvernig þessu máli yrði best fyrir komið. En þar er sú skýring á, að það var tekin ákvörðun um kvótakerfið, eins og hæstv. ráðh. minntist á, og vinnuafl hjá Stéttarsambandinu auðvitað mjög lítið.

En til viðbótar því, sem ég las áðan um ályktun Búnaðarþings vorið 1979, langar mig að lesa grg. sem fylgdi með þessari samhljóða ályktun um beinu greiðslurnar. Hún er örstutt og er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Ýmsir hafa leitt hugann að því, hvort það fjármagn sem hið opinbera ver til niðurgreiðslna og útflutningsbóta búvara, kynni að nýtast betur í öðru formi en því sem beitt hefur verið. Hér er um háar fjárhæðir að ræða og full ástæða til þess að gaumgæfa vel alla möguleika um hagkvæmari notkun þess fyrir landbúnaðinn og þjóðarheildina.

Ljóst er að hugmyndin um að greiða hluta framleiðsluverðs beint til bænda með þessu móti krefst ítarlegrar skoðunar á mörgum þáttum framleiðslu- og sölukerfisins.

M.a. munu hugmyndir Eyjólfs K. Jónssonar vera í frumathugun hjá Stéttarsambandi bænda og því ekki tímabært fyrir Búnaðarþing að taka endanlega afstöðu til málsins.“ En eins og í ályktuninni segir er óskað eftir að þessi athugun haldi áfram.

Ég held að það sé misskilningur, að þetta þurfi að vera nokkurn skapaðan hlut flókið í framkvæmd, a.m.k. ekki neitt í líkingu við kvótakerfið, sem er náttúrlega hrein ófreskja og hlýtur að verða það. Ég hef ekki nokkra trú á því, — einhvern veginn rennir mig nú grun í að hæstv. landbrh, hafi það ekki heldur, — að kvótakerfið geti orðið varanlegt í íslenskum landbúnaði. Ég held að það yrði - vonandi ekki banabiti, en það mundi alveg áreiðanlega mjög setja landbúnað á Íslandi til baka og yrði síst til þess að hvetja ungt fólk til að snúa sér að landbúnaðarstörfum. Ég held að bændur séu meira og minna sammála um þetta, og þetta kvótakerfi verður vonandi ekki framkvæmt árum saman, því að þá er ekki vafi á því að illa mundi fara fyrir íslenskum landbúnaði.

En þegar rætt er um þessar útflutningsbætur og niðurgreiðslur, þá er kannske rétt að vekja á því athygli, að þegar hæstv. fjmrh. svarar hér skriflega fsp. frá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni nú í haust, þá talar hann um að útflutningsfyrirtæki og söluaðilar séu endanlegir viðtakendur þessara fjármuna. Þeir eru það kannske í raun og þess vegna hægt að snúa sér út úr því með þeim hætti að svara á þennan veg. Auðvitað eru það hvorki söluaðilarnir né útflutningsfyrirtækin sem eiga þetta fé. Það eru engir aðrir en eigendur vörunnar, það eru bændur landsins, sem eiga þessa peninga. Stundum er því haldið fram, að það sé verið að viðurkenna að niðurgreiðslur séu eitthvað sérstaklega fyrir bændur, ef þær eru greiddar beint til þeirra, en það er auðvitað engin viðurkenning fólgin í því. Ef ríkisvaldið ákveður að greiða niður einhverja vöru, hvort það er landbúnaðarvara, innflutt vara eða hvað það nú er, þá eiga auðvitað peningarnir, sem notaðir eru til niðurgreiðslna, að fara til eiganda vörunnar. Það er hann sem á þessa peninga, ekki allt annað fólk. Þetta er svo einfalt mál að það ætti ekki að vefjast fyrir nokkrum einasta manni. Þess vegna eru auðvitað ekki útflutningsfyrirtæki og söluaðilar sem eiga að vera hinir endanlegu móttakendur. Það eru bændur landsins sem þessa fjármuni eiga.

Nú er hægt að sýna fram á það — ég vil segja í glöggu máli og mjög einföldu, en ekki að um sé að ræða flókið kerfi — að hægt væri að komast algerlega fram hjá öllu kvótakerfi og leysa offramleiðsluvandamál landbúnaðarins með því að haga niðurgreiðslunum og útflutningsbótunum þannig, að þetta gangi beint til bændanna að ákveðnum hluta, en þó aldrei nema upp í ákveðna bústærð, t.d. 500 ærgilda bú eins og var í dæminu sem ég nefndi áðan, það væri hámarksupphæðin, en þeir, sem vildu framleiða meira, mættu gera það fyrir 75% grundvallarverðsins. Þetta er svo einfalt og ljóst sem nokkuð getur verið. Ef þetta væri ekki nægilega stórvirkt mætti breyta þessum prósentum eða bústærðinni að einhverju leyti til eða frá um nokkur prósent fram og til baka, frá ári til árs jafnvel, og hafa þannig þessi stjórnunaráhrif. Það er ekkert flókið við þetta.

Ég endurtek svo þakkir mínar til hæstv. landbrh. og er honum auðvitað þakklátur fyrir að hann er að athuga þessi mál og nýtur auðvitað til þess aðstoðar ráðgjafa sinna.