25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

351. mál, greiðsla útflutningsbóta og niðurgreiðslna til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér kom það ekki á óvart, þegar sú till., sem hér hefur verið til umr. í dag, var afgreidd á Alþ. vorið 1979, að nokkurn meðgöngutíma þyrfti til þess að koma henni í framkvæmd. Allar umsagnir, sem um till. höfðu borist, voru neikvæðar, hvergi höfðu bændur tekið undir þessa till. eða þær hugmyndir sem hún boðaði, en hins vegar var búið að benda á fjöldann allan af agnúum á þessu máli öllu saman. Það var fullmikið upp í sig tekið hjá hv. flm. þegar hann sagði hér í fyrstu lotu, að Alþ. hefði sannfærst um réttmæti hugmynda hans. Alþ. lét það eftir honum að samþykkja þessa till. vegna þess að menn treystu svo vel vitsmunum hans og góðsemi. Og þar að auki gekk foringi stjórnarandstöðunnar, ef ég man rétt, hv. 1. þm. Reykv., mjög hart fram með liðsforingja sína um það að fá þetta samþykkt.

Það verður náttúrlega að búa við það, að Alþ. er búið að gera þessa ályktun. Og þá þýðir ekkert annað en reyna að gera gott úr því og finna eitthvert vitrænt fyrirkomulag til þess að framkvæma hana. Því miður tekur það nokkurn tíma og ég verð að biðja hv. 5. landsk. að sýna nokkra biðlund. En það er nú of langt gengið að segja að lög landsins séu brotin þó að ekki sé búið að framkvæma þetta, því að eins og fram hefur komið var tillagan ótímasett og er heldur í lausara lagi.

Ég vil vekja athygli á því að lokum, að sú aðferð sem hér er til umr., þ.e. að greiða útflutningsbæturnar og niðurgreiðslurnar eftir hugmyndum Eyjólfs Konráðs, það er svakalegasta kommúnistatillaga sem nokkurn tíma hefur verið flutt um landbúnaðarmál á Íslandi.