25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

351. mál, greiðsla útflutningsbóta og niðurgreiðslna til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Að því er varðar þau ummæli hæstv. landbrh., að erfitt sé að skera úr um hverjir séu bændur o.s.frv., þá hefur því að nokkru verið svarað hér af síðasta ræðumanni. En í þessum útreikningum Stéttarsambandsins og bréfi því, sem ég vitnaði til áðan og Stéttarsambandið ritaði mér, er einmitt gert ráð fyrir að miða greiðslurnar við lögbýli, þannig að þeir, sem eru með sportbúskap, eins og það stundum er kallað, mundu eingöngu fá þessa lægri greiðslu. En þeir mættu framleiða fyrir þessi 75%, 80, 60 eða hvað sem hlutfallið yrði. Og varðandi það, að þetta sé kommúnismi, þá er það nú góður brandari hjá vini mínum Páli Péturssyni. Uppbótakerfið og kerfið í heild, eins og það er rekið, er náttúrlega miklu meiri kommúnismi.

Ég vil aðeins, með leyfi herra forseta, lesa hér upp tvær eða þrjár setningar eftir þessum hv. þm., sem er nú talinn bóndi. Í umræðum á Alþingi 9. nóv. 1978 segir hv. þm. Páll Pétursson:

„Ég hef verið andstæðingur þessarar hugmyndar, en ég nenni ekki að standa í deilum um hana lengur og ég get verið stuttorður. Ég sé nefnilega fram á það, að vinur minn, hv. 5. þm. Norðurl. v., Eyjólfur K. Jónsson, er að vinna sigur í málinu, og þess vegna er ég ekkert að berja höfðinu við steininn með það og verð að óska honum til lukku með þann árangur sem hann hefur náð.“

Og við skulum óska okkur öllum til lukku með að það er að nást árangur, hægt og bítandi, og hann verður vonandi mikill áður en langt um líður.