25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa lagt þessar fsp. fram, og sömuleiðis vil ég óska eftir því við samgrh., að þm. fái skriflegt þetta svar póst- og símamálastjóra. Ég tel að á margan hátt hafi verið dregið úr þjónustu hjá Pósti og síma, ekki eingöngu í strjálbýli, heldur einnig á þéttbýlisstöðum. Ég minni t.d. á eitt atriði. Það var lögð niður símstöð í Hnífsdal á s.l. hausti og póstþjónusta sömuleiðis. Ég tel að það hafi getað gengið að leggja niður símaþjónustuna af því að það er sjálfvirk stöð, en að leggja niður póstþjónustuna var gerræði frá hendi Pósts og síma, því að mér er einnig kunnugt um að Póstur og sími hefur brotið eigin reglugerð með því að rífa niður sveitalínur án þess að hafa nokkurt samráð við oddvita eða sveitarstjóra í viðkomandi hreppum. Þetta vil ég biðja hæstv. samgrh. að athuga nánar. Það er ekki ætlun manna að draga úr þjónustu Pósts og síma þegar í öðru orðinu er verið að tala um að bæta hana. Það er á margan hátt verið að stíga skref aftur á bak í starfsemi þessarar virðulegu stofnunar. Ég hef hins vegar ekki heyrt mikið um það að minnka yfirstjórnina og sérfræðingana sem þar eru.