25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans og sérstaklega lýsa ánægju yfir því, sem kom fram í máli hans, að það er ákveðið að taka upp næturþjónustu við símstöðina í Búðardal, en nú um nokkurt skeið hafa örfáir fámennir hreppar í Dalasýslu orðið að greiða sjálfir algerlega þá næturvörslu, sem nauðsynlegust hefur verið talin á öllu Dalasvæðinu, í Búðardal. Þarna er því um mikilvægt mál að ræða, sem léttir verulega áhyggjum af íbúum Dalasýslu sem hafa nú undanfarið orðið fyrir því, að niður hafa verið lagðar a.m.k. ein, ef ekki tvær símstöðvar sem þar hafa lengi verið starfræktar, eins og á Neðri-Brunná og víðar.

Ég tel svar Pósts og síma að mörgu leyti athyglisvert og vil gjarnan taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að ágætt væri að fá þau svör skrifleg. Það hefur óneitanlega dregið úr þjónustunni. Eins og ég tók fram í mínu máli er visst framfaraspor að fá sveitasíma tengda beint við sjálfvirkan síma þar sem er næturvarsla, og ef það er liður í lagningu sjálfvirks síma, þá er það gott. Ég tel að aukin þjónusta á þessu sviði sé raunverulega grundvallaratriði í nútímaþjóðfélagi og þess vegna verðum við að stefna að því að fá þá þjónustu.

Ég ætla aðeins að nefna þingheimi dæmi um hinn mikla mun sem dreifbýli verður að greiða umfram Reykjavíkursvæðið í sambandi við símaþjónustuna. Það geri ég vegna þeirra umræðna sem fram hafa farið á opinberum vettvangi í sambandi við það, að ráðgert er að taka upp skrefatalningu á Reykjavíkursvæðinu. Ég hef hér upplýsingar um skrefafjölda á fyrsta ársfjórðungi 1980 og þar tek ég Reykjavík og dreifbýlið. Í Reykjavík er númerafjöldi heimilissíma 37 525, en seld skref eru 16 870 500. Í dreifbýlinu er númerafjöldinn 21 946, en þessi númer greiða 21 431 850 kr. Ef við tökum verslunarsíma, þá er númerafjöldinn á Reykjavíkursvæðinu 9071 og seld skref í Reykjavík á verslunarsíma eru 15 495 800, en í dreifbýlinu er númerafjöldi á verslunarsíma 3 636, en seld skerf 15 927 750. Heildarskerfasala Landssímans fyrsta ársfjórðung 1980 er 69 725 400. Ég nefni þetta til þess að sýna að þarna er gífurlegur mismunur á ferðinni sem fullkomin ástæða er til að skoða vandlega í sambandi við það þegar við erum í alvöru að tala um að nauðsynlegt sé að jafna lífskjörin í landinu. Þetta er ekki lítið atriði þegar að er gáð.

Ég vil að lokum endurtaka þakkir til hæstv. ráðh. fyrir þessi svör hans, og ég vonast til þess, að við verðum þeir menn, alþm. hér, að vinna að því ötullega að jafna þennan aðstöðumun og gera þær nauðsynlegu framfarir sem felast í því að koma sjálfvirku símakerfi á um allt land.