25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að ræða um þetta mál sérstaklega, en ræða hv. fyrirspyrjanda gaf mér tilefni til þess að segja nokkur orð.

Það var varðandi skrefafjölda þeirra, sem eru símnotendur úti á landi og hinna sem eru búsettir í Reykjavík. Um þessi atriði hafa farið fram umr. í hv. fjvn. og þaðan eru þessar upplýsingar komnar. Í n. kom einnig fram í umr., þar sem póst- og símamálastjóri var viðstaddur, að ætlunin er að taka upp svokallaða „Karlsonstalningu“ hér í Reykjavík, en jafnframt var því lýst yfir af póst- og símamálastjóra, að það mundi ekki gerast án þess að skerfatalning væri tekin upp innan númerasvæða sjálfvirku stöðvanna úti á landi. Þannig verður Reykjavík ekki tekin út úr í þessu tilliti.

Það er auðvitað alltaf álitamál hve langt á að ganga í átt til jöfnunar á slíkum tilkostnaði eins og þessum, burt séð frá hver er stofnkostnaður eða rekstrarkostnaður opinberrar þjónustu. Í þessu tilviki tel ég ástæðu til þess að jafna nokkuð þann mun sem er á Reykjavíkursvæðinu og öðrum stöðum á landinu, ef það gengur fram, sem lofað hefur verið, að skrefatalning verði tekin upp jafnóðum á númerasvæðum úti á landi og hér á Reykjavíkursvæðinu.

Þá vil ég enn fremur minnast á það, að ætlunin er að utan mesta álagstímans verði ódýrari talning þannig að það er hægt að beina álagsþunganum meira inn á þann tíma sólarhringsins sérstaklega fyrir það fólk sem þarf á síma að halda og á erfitt um ferðalög, t.d. vegna elli og af öðrum ástæðum, og póst- og símamálastjóri virðist vera sammála um það.

Ég vil, ef hæstv. ráðh. kemur hér í ræðustól aftur, spyrja hann jafnframt að því, hvort eitthvað hafi verið gert í því máli sem Alþ. fjallaði um á sínum tíma, þ.e. að allir landsmenn stæðu jafnir að því að hringja til opinberra stofnana í Reykjavík. Það eru til heimildir fyrir því, að það séu svokallaðir öfugir teljarar í símum opinberra stofnana í Reykjavík.