25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á fáein atriði sem hv. þm. hafa nefnt í sinum ræðum.

Sjálfsagt er að dreifa svari póst- og símamálastjóra. Ég skal sjá til þess að það verði strax gert.

Um skerta þjónustu vil ég segja, að það er rétt að í sumum tilfellum getur verið um skerta þjónustu að ræða, t.d. í Hnífsdal. Ég kynnti mér það mál sérstaklega, ræddi m.a. við umdæmisstjóra þess umdæmis um málið. Mér er tjáð að þegar fyrir allmörgum árum — ég hygg að það hafi verið 1977 — voru gefin fyrirmæli um að símstöð og póstþjónusta skyldu lagðar niður í Hnífsdal. Það dróst hins vegar alllengi, til þess tíma að sagt var upp því húsnæði sem þessi þjónusta var í, og sömuleiðis óskaði sá starfskraftur, sem þar var, eftir því að verða fluttur á aðalstöðina á Ísafirði. Það var ekki fyrr en þetta lá fyrir að umdæmisstjórinn ákvað að leggja niður þessa þjónustu. Hins vegar til að mæta þjónustuþörf hefur útburður pósts verið aukinn og aðrar ráðstafanir gerðar til að bæta á annan máta það sem skert er. Hins vegar tek ég undir þetta, að þarna er um skerta þjónustu að ræða, þótt um það sé deilt í hve ríkum mæli hún er skert.

Ég nefndi einnig áðan í lok svars míns að Póstur og sími hefur víða lokað sjálfvirkum stöðvum eftir kl. 5 á virkum dögum og laugardaga og sunnudaga. Ég hef kannað það mál. Þessar stöðvar eru samtals 37. Ég hef óskað eftir því, að Póstur og sími athugi hvort ekki megi hafa þjónustu t.d. í tvo tíma á laugardögum. Ég hef ekki fengið endanlegt svar við þeirri athugun, en mér er þó tjáð að það muni kosta í heild líklega um 30–40 millj. kr. Það er e.t.v. ekki stór upphæð í mikilli veltu Pósts og síma, en margt smátt gerir eitt stórt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að t.d. einhver slík þjónusta á útgerðarstöðum þar sem sjómenn kunna að eiga erfitt með að komast í síma yfir helgar, sé eðlileg og sjálfsögð, og ég mun fylgja því máli eftir.

Hitt er svo annað mál, að þegar rætt er um skerta þjónustu gleymist oft hvaða framfarir hafa orðið og bætt þjónusta. Það er ekki ýkjalangt síðan sjálfvirkur sími hóf yfirreið sína, ef ég má kalla það svo, um landið og hefur nú dreifst sem betur fer til þéttbýlisstöðva allra og víða í sveitum. Ekki er heldur langt síðan örbylgjusamband var tekið upp. Á næsta ári verður lokið við að koma upp örbylgjusambandi um landið allt. Ég vek t.d. athygli á því, að í ár er verið að koma á slíku sambandi frá Stykkishólmi í Patreksfjörð, sem margfaldar línufjölda inn í Vestfjarðakjördæmi. Hún er ekki lítils virði, sú bætta þjónusta sem þessu fylgir, hygg ég að við getum borið sem þurfum oft að hringja þangað vestur og erum lengi að ná sambandi sem slitnar svo iðulega þegar sambandi er náð. Þannig er jafnt og þétt unnið að mörgum og mikilvægum framförum. Ég tek hins vegar undir það að meira þyrfti að gera, og sérstaklega tel ég ákaflega mikilvægt að koma sjálfvirkjum síma til allra sveita landsins og mun leggja fram frv. um það á þessu þingi.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Albert Guðmundssyni, að mörgu má breyta, eins og hann rakti, hjá Pósti og síma. Ég get m.a. upplýst að ég hef nýlega gert mínar aths. og breytingahugmyndir við reglugerð um þetta efni, þar sem ætlunin er að gefa innflutning tækja til að tengja við símakertið frjálsan, þannig að þeir, sem fá til þess leyfi að vísu og hafa viss réttindi, geti annast slíkan innflutning. Ég er þeirrar skoðunar, að mjög margt hafi breyst að þessu leyti á undanförnum árum. Hér hefur orðið til stétt manna sem er vel kunnug og lærð á þessu sviði og getur sinnt slíkum málum, bæði viðgerðarþjónustu, tengingu, innflutningi og öðru, stórum betur en áður var, á meðan símaþjónustan var í sínum barndómi.

Ég fullvissa hv. þm. Friðrik Sophusson um að skrefatalning verður alls staðar um landið. Hún er þegar utan Reykjavíkur og nágrennis, en ætlunin er að skrefatalning verði um land allt.

Ég hef rætt við Póst og síma um það, hvort unnt væri að framkvæma hugmyndina um sama kostnað til opinberra stofnana hvaðan sem hringt er af landinu. Þetta er hægt, en er kostnaðarsamt, en ég hef ekki aðstöðu til að skýra það hér. Það felst í því að fjölga þarf sérhæfðum númerum.

Það verður víst lengi deilt um það, hvort sparnaðar sé gætt hjá Pósti og síma. Ég get tekið undir það með þeim, sem hér hafa um það fjallað, að meira má spara. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða að tilraun sé gerð til þess. En stofnunin er stór og kannske sums staðar pottur brotinn. Ég get hins vegar ekki tekið undir það, að jafnvel sé æskilegt að draga mjög úr ýmiss konar sérfræðistarfsemi þessarar stofnunar. Menn verða að gæta þess, að á þessu sviði eru byltingar fram undan. Ekki hefur mikið verið rætt um það, en hér uppi í Mosfellssveit var nýlega tekin í notkun stöð sem notar gerbreytt kerfi sem á eftir að bylta líklega allri símaþjónustu, svokallað „digital kerfi,“ og felur í sér gífurlega mikla möguleika. Sem betur fer hefur Póstur og sími haft þá starfskrafta sem hafa getað fylgst með slíkri þróun. Því held ég að beri út af fyrir sig að fagna, þótt gæta verði sparnaðar í yfirbyggingu þessara stofnana eins og annarra.

Ég kynnti mér alveg sérstaklega hvort haft hefði verið samband við símnotendur, — ég geri ekki ráð fyrir við hvern einstakan, en a.m.k. stöðvarstjóra t.d. á sunnanverðu Snæfellsnesi. Ég var fullvissaður um að það hefði verið gert. Ég skal ekki segja hvenær, en ég var fullvissaður um að það hefði verið gert áður en ákvörðun var tekin. Ég veit sjálfur að það var gert t.d. í Strandasýslu, þar sem ég þekki betur til. Þar hefur það verið gert oftar en einu sinni, og umdæmisstjóri þess svæðis var þar sérstaklega á ferðinni til að fjalla um þær breytingar sem þar eru fyrirhugaðar. Þetta tel ég sjálfsagt, ekki bara kurteisi, heldur eðlilegt á allan máta gagnvart þeim sem annars kunna að óttast að mikilvæg þjónusta verði skert. Ég mun leggja á það áherslu, að svo verði gert í framtíðinni.