25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Örfá orð. — Í fyrsta lagi vil ég taka það fram út af póst- og símstöð í Hnífsdal, að þar er um dálítið sérstakt mál að ræða vegna þess að fyrir lá, þegar Eyrarhreppur og Ísafjarðarkaupstaður sameinuðust, loforð frá opinberum yfirvöldum um að opinber þjónusta yrði ekki skert í Eyrarhreppi. Þess vegna hefur þetta mál kannske orðið stærra en það annars hefði orðið, og ég get ekki séð að það séu rök til að leggja niður póststöð þótt starfskraftur færist um set innan sama fyrirtækis. Auðvitað hefði verið hægt að ráða nýjan starfsmann. Þetta er einkum bagalegt í Hnífsdal vegna þess að þar er um verbúðarfólk að ræða sem þarf þá að gera sér ferð 4–5 km til þess að koma frá sér og sækja a.m.k. stærri póstsendingar.

Ég vil í öðru lagi þakka ráðh. það sem kom fram hjá honum varðandi það að nú væri kominn tími til þess að innflutningur á símtækjum yrði gefinn frjáls, og kannske er það merkilegasta yfirlýsing hans hér í dag í þessum tveimur ræðum. Hann sagði jafnframt að það kæmi til greina innan tíðar að viðgerðir.á símatækjum yrðu í höndum á öðrum en póst- og símamálaþjónustunni. Ég fagna þessum yfirlýsingum. Þetta eru merkilegar fréttir. Eftir þessu verður tekið.

Ég vil enn fremur fagna því, sem kom fram hjá ráðh., að skrefatalning verði tekin upp á sama tíma á öllum svæðum á landinu, og þá á ég við skrefatalningu innan hnútstöðva og innan sömu númerasvæðanna, en ekki eins og nú er gert.

Ég get líka tekið undir það sem hann sagði um nýju tæknina. að hún er auðvitað stórmerkileg. Það hefur verið fylgst með henni á vegum rannsóknaráðs og þar er starfandi nefnd sem fjallar um það mál sérstaklega. Þar er auðvitað um að ræða stórkostlegar framfarir sem Íslendingar geta fært sér í nyt bæði í fjarmiðlun á milli Íslands og annarra landa og eins innan landsins sjálfs.