25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

44. mál, framkvæmd ákvæða 59. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 46 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. um framkvæmd ákvæða í 59. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, við álagningu opinberra gjalda nú í ár. Fsp. er í þremur liðum og er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Í tilgreindri lagagrein er kveðið á um ákvörðun launa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Sérstök ákvæði eru um viðmiðunartekjur þeirra er landbúnað stunda. Gaf ríkisskattstjóri út viðmiðunarreglur fyrir aðrar atvinnugreinar en landbúnað? Ef svo var gert, hvaða atvinnugreinar var þá um að ræða og hverjar voru meginforsendur þeirrar viðmiðunar?

2. Beittu skattstjórar ákvæðum tilgreindrar lagagreinar við álagningu árið 1980 í öllum skattumdæmum og var samræmi í viðmiðunar- og starfsreglum milli hinna einstöku umdæma?

3. Hvernig var háttað mati á aðstæðum: a) þar sem gæta skal aðstöðu viðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu og starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta; b) þar sem taka þarf tillit til aðstæðna í landbúnaði hverju sinni, svo sem þess, ef bóndi nær ekki heildartekjum grundvallarbúsins vegna afurðaverðs, árferðis og annarra atriða er máli skipta?“

Tilgreind 59. gr. skattalaga felur í sér mikið vald og það vald er vandmeðfarið. Forsendur þess, að slík ákvæði eru sett í skattalög, þ.e. heimild til að ákvarða framteljendum laun eða viðmiðunartekjur, hafa trúlega eða sjálfsagt verið þær, að í gegnum árin hafa ýmsir aðilar, sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, komist hjá því að greiða eðlileg gjöld til samfélagsins og taka á þann hátt þátt í uppbyggingu þess og rekstri, svo sem eðlilegt og réttmætt væri miðað við þann lífsmáta eða lífsstíl sem ýmsir þessir aðilar þó tileinka sér. Mörgum þeim, sem greiða verulegan hluta af tekjum sínum til ríkis og sveitarfélaga, hefur þótt harla ólíklegt að þar væru á ferð tekjulausir aðilar eða svo til, sem ekki hefðu efni á að greiða til samfélagslegra þarfa, svo sem framtöl þeirra hafa þó oft borið með sér.

Sú er að sjálfsögðu forsenda fyrir tilurð þessara lagagreinar, en í framkvæmd hennar er vandasöm ef vel og réttlátlega á til að takast. Sýnist nú ýmsum sem þegar hafi misbrestur á orðið. Í lagagrein þessari eru sérstök ákvæði um viðmiðunartekjur einnar atvinnugreinar, þ.e. land

búnaðarins. Þar segir, með leyfi forseta: „Viðmiðunartekjur þeirra er landbúnað stunda skulu miðast við launaþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða.“

Því höfum við leyft okkur að spyrja í 1. lið fsp. hvernig hafi í raun verið farið með aðrar atvinnugreinar og hvernig þær viðmiðanir hafi verið fundnar. Gott væri og fróðlegt að heyra hverjar hafa verið áætlaðar tekjur ýmissa aðila í einkarekstri, svo sem bílstjóra, iðnaðarmanna, kaupmanna, lögfræðinga, tannlækna, svo að einhver dæmi séu tind til á móti tekjum bóndans sem áætlaðar voru á sjöttu millj. kr.

Í 2. lið er spurt hvort beitt hafi verið sams konar viðmiðunar- og starfsreglum um allt land og hvort samræmi hafi verið í vinnuaðferðum í öllum skattumdæmum. Ég hef heyrt fullyrðingar um að svo hafi ekki verið. Sumir skattstjórar eða umboðsmenn þeirra eiga að hafa sagt að þeir treysti sér ekki til þess að breyta tölum og upplýsingum í framtölum, sem menn hafa undirritað að viðlögðum drengskap og staðfest að framtalsskýrslan sé gefin eftir bestu vitund. Þetta eru kannske ekki óeðlileg viðbrögð embættismannsins, þegar hann les áletraða yfirlýsingu á framtalseyðublaðinu og undirritun viðkomandi framteljanda. En eigi að reyna að framfylgja þessu umrædda lagaákvæði, þá er alveg óviðunandi að ekki sé beitt samræmdum aðferðum í öllum skattumdæmum.

Rétt eftir að fsp. þessar komu fram hér á Alþ. hafði samband við mig maður sem hefur með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur. Gaf sá atvinnurekstur af sér mjög lágar nettótekjur á s.l. ári, og áleit maðurinn að samkv. viðmiðunarreglunum hefði átt að áætla tekjurnar verulega miklu hærri. En slíkt hafði ekki verið gert. Er hér um að ræða augljósa mismunun borið saman við önnur þekkt dæmi.

Í síðasta liðnum er spurt hvernig mat á mismunandi aðstæðum manna hafi verið framkvæmt. Geta skattyfirvöld fylgst með aðstæðum einstakra manna, svo sem þar sem aldur, veikindi eða aðrar persónulegar ástæður hafa áhrif á tekjuöflunarmöguleika, eða er ætlast til að hver og einn einstaklingur, sem fengið hefur á sig áætlun, en telur sig búa við einhverjar þær aðstæður sem leitt gætu til undantekninga, kæri álagninguna? Slíkt hlýtur að vera nánast óframkvæmanlegt í mörgum tilfellum, svo sem þegar heilar sveitir eða jafnvel landssvæði hafa orðið fyrir stórfelldum skakkaföllum vegna árferðis. Eða er ætlast til að viðkomandi stéttarfélög, hagsmunasamtök eða jafnvel sveitarstjórnir grípi inn í málið?

Hægt væri að spyrja margra fleiri spurninga varðandi mál þetta og setja fram ýmis dæmi um einkennilega framkvæmd skattayfirvalda á ákvæðum tilgreindrar lagagreinar svo sem um óeðlilegan mismun á tekjuviðmiðun einstaklinga annars vegar og hjóna hins vegar, áhrif áætlaðra tekna á tekjutryggingu ellilífeyrisþega og margt fleira. En ræðutími sá sem er ætlaður vegna fsp. leyfir ekki slíkt.

Að lokum væri fróðlegt að heyra frá hæstv. fjmrh., þó ekki sé um það spurt í fsp., hvað líði störfum þeirra nefnda sem settar hafa verið á laggirnar til að endurskoða skattalögin og fylgjast með framkvæmd þeirra.