25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

44. mál, framkvæmd ákvæða 59. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp. okkar og þær upplýsingar og skýringar sem hann gaf. Ég geri mér grein fyrir því, að þetta er helst til viðamikið til þess að hægt sé að svara því ítarlega á stuttum ræðutíma eða aðeins 10 mínútum, svo að ég hefði mjög gjarnan þegið að fá að sjá hin skriflegu svör skattstjóra við þessum fsp.

Hæstv. ráðh. hefur nú gert okkur nokkra grein fyrir því, í stuttu máli samt, hver séu aðalatriði í svörum við þessum spurningum. Hann tekur hér til og greinir frá ákveðnum upphæðum sem settar hafa verið til viðmiðunar á einstaka starfshópa, og kemur þar í ljós að viðmiðunartekjur eru þar kannske frá 3 millj. eða rúmum 3 millj. og upp í 8.1 millj. á þá sem hæst hafa. Sýnist mér þá að tekjur bóndans liggi þarna um miðbik eða kannske jafnvel ofan við það, ef ég hef náð því rétt að tekjur grundvallarbús hafi verið áætlaðar hjá hjónum 6 786 500 kr. Að vísu kemur þá til frádráttar síðar það tillit sem taka skal til þess erfiða árferðis sem var á síðasta ári, og viðmiðunartekjur hafa almennt verið lækkaðar nokkuð og auk þess í einstökum tilfellum eftir því sem út hefur komið hjá hverju einstöku sláturhúsi eða afurðasölufyrirtækjum bænda.

Það er auðvitað margt fleira sem hefði mátt segja um framkvæmd þessa lagaákvæðis, eins og ég gat um í upphafi, og ég veit að lögin hafa komið sérstaklega hart niður á ýmsum bændum vegna árferðisins eins og það var og bændur náðu ekki þeim viðmiðunartekjum, sem lögin gerðu ráð fyrir, og hafa þess vegna þurft að greiða skatta í mörgum tilfellum af tekjum sem þeir sannanlega höfðu ekki. Ef við hugsum okkur að viðkomandi bóndi þurfi síðan að útvega sér lán fyrir þeim sköttum, sem hann þarf að greiða af tekjum sem ekki voru fyrir hendi, fær hann við skattlagningu þar næst á eftir tekjufærslu vegna skuldarinnar og síðan skatta af þeirri tekjufærslu, sem að vísu fellur undir aðra grein skattalaganna en þá sem hér er til umr., og þá eru þessar áætluðu tekjur farnar að hlaða utan á sig eins og snjóbolti.

Í þokkalega góðu árferði hefðu þessar áætluðu viðmiðunartekjur ekki komið svo mjög hart niður á bændum almennt, eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um, og er það kannske ljósasta dæmið um að ekki hafi verið tekið eðlilegt eða nægjanlegt tillit til þess slæma árferðis sem þó var í fyrra og lögin reyndar gera ráð fyrir að tekið sé tillit til. Þá má einnig nefna dæmi um bónda sem litlar eða engar tekjur hafði af sínum búrekstri og fór og leitaði sér tekna á vinnumarkaði annars staðar til þess að bæta afkomumöguleika sína. Hann fær eftir sem áður fullar viðmiðunartekjur, eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um, og lendir fyrir vikið með hluta eða allar þessar aukatekjur, sem aflað var utan búsins, í háum skattþrepum og greiðir af þeim mikil gjöld.

Þá finnst mér, eins og ég kom aðeins inn á í framsögu minni fyrir fsp., óeðlilegt og óraunsætt ef það er rétt að þessar áætluðu tekjur hafi áhrif á þá tekjutryggingu sem ellilífeyrisþegum ber og tekjutryggingin sé skert vegna þessara viðmiðunartekna. Slíkt hlýtur að verða að lagfæra og er trúlegt að það sé gert, en þetta skapar auðvitað aukafyrirhöfn. Mér sýnist því ýmislegt benda til þess, að þetta lagaákvæði og þó kannske ekki síður framkvæmd þess verði að endurskoða og lagfæra, og það er von mín að það fái rækilega umfjöllun í þeirri nefnd sem það endurskoðunarverk vinnur þegar að því kemur. Ég vona að hæstv. fjmrh. sjái um að þeirri endurskoðun verði hraðað sem mest.

Ég óska eftir því að fá að sjá hin skriflegu svör ríkisskattstjóra við fsp. og endurtek þakkir mínar til hæstv. fjmrh. fyrir svörin.