25.11.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim tveim ræðumönnum, sem hér hafa fjallað um þessa þáltill. um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum, að það er gott að ræða þessi mál hér. En við þurfum að gera meira en að ræða þau. Það þarf að verða eitthvað meira en umræðan. Við þurfum að ná einhverju takmarki í því máli sem till. fjallar um.

Ég hygg að allir séu sammála um að ástandið í áfengismálunum hjá íslensku þjóðinni hefur verið að versna síðustu ár og áratugi. Frsm. færði ýmis rök fram máli sínu til stuðnings. Hins vegar tel ég rétt að viðhorf séu nokkuð að breytast þannig að það er að verða meiri viðurkenning á því, hversu alvarlegar afleiðingar hin vaxandi áfengisneysla hefur.

Eitt er það sem frsm. minntist á, að nú þyrfti að fara að snúa sér að áfenginu sjálfu í staðinn fyrir að á síðustu árum hefur allt of mikið beinst að afleiðingunum. Við höfum kannske ekki gert of mikið að því að reyna að lækna afleiðingarnar, því það verður vitanlega að gera, en of lítið verið gert að því að reyna að koma í veg fyrir orsakirnar.

Frsm. ræddi hér um ofstæki bindindismanna og kenningu siðapostula. Þetta eru setningar sem oft hafa heyrst. En ég held að það, sem frsm. var að færa rök að í máli sínu, hafi verið einmitt þær staðreyndir sem af ýmsum hafa verið kallaðar ofstæki bindindismanna og kenningar siðapostula. Við vitum að það er viðleitni hjá þeim sem neyta áfengis, a.m.k. ákaflega mörgum, að fá sem flesta til að neyta þess með sér. Og eins og síðasti ræðumaður sagði, hv. 2. þm. Austurl., hefur gjarnan verið reynt að gera grín að bindindismönnum af þeim sem áfengis neyta. En það sem ég hef fyrst og fremst orðið var við sem kenningar bindindismanna er einmitt að benda á þær staðreyndir sem hv. frsm. benti rækilega á hér. Ég vil taka mjög stíft undir með honum að þetta er eitt af höfuðvandamálum þjóðarinnar. En bindindismennirnir hafa einmitt haldið því fram, að það væri hægt að draga úr neyslu áfengis með því að draga úr sölu þess og það væri hægt að halda heildarneyslu í skefjum, eins og kemur fram í ályktun sem kom frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Ég vil því taka heils hugar undir að Alþingi eigi að láta þetta mál til sín taka, og till. um það á mikinn rétt á sér hér á þingi.

Ég hafði rætt það aðeins við nokkra aðila eftir að þing kom saman, að við reyndum að ná víðtækri samstöðu um að flytja till. um þessi mál hér á þingi, en var ekki kominn lengra með það þegar þessi till. birtist. En ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það, að mér finnst að þessi till. marki ekki stefnu, a.m.k. ekki nægilega skýra. Í henni er skorað á ríkisstj. að undirbúa till. að stefnu hins opinbera í áfengismálum, og síðar er sagt að settar verði m.a. fram hugmyndir. Ég hefði talið æskilegt og vildi leggja áherslu á að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, reyndi að kveða nokkru fastar að orði. Mér finnst að ef þessi till. væri samþykkt óbreytt væri Alþ. að einhverju leyti að friða samviskuna með því að samþykkja till., en vísa málinu frá sér til ríkisstj. í stað þess að reyna að marka stefnuna sjálft í þessu mikilvæga máli með því að koma fram með einhver ákveðnari atriði.

Ég hef talið að eitt hið mikilvægasta í þessum málum væri að reyna að breyta viðhorfinu. Við vitum að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar telur sjálfsagt að neyta áfengis, sjálfsagt að hafa það um hönd með máltíðum þegar vel á að vanda til. Ég held að það þurfi að hamra sem mest á því, hversu hættulegt þetta er, hversu afleiðingarnar eru slæmar og að það sé ekki sjálfsagt að hafa áfengi alls staðar á boðstólum.

Þetta hefur mér komið í hug þegar ég hef verið einhvers staðar á opinberum stöðum þar sem áfengi er veitt og standa þarf í stríði við það að fá eitthvað annað að drekka. Áfenginu er otað að hverjum einasta manni, en það þarf að standa í stríði við að fá eitthvað annað en það. Ég held að það ætti að banna það algjörlega með lögum að áfengi sé boðið á opinberum stöðum án þess að jafnframt séu á boðstólum óáfengir drykkir. Það er ekki lítill þrýstingur á að allir neyti áfengisins af þeirri venju sem nú tíðkast. Það eru ekki allir sem nenna að standa í því að biðja um eitthvað annað, og það þykir ekki fínt að standa með tómar hendur. Þetta er kannske ekki stórt atriði, en ég held þó að það gæti haft töluverð áhrif.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta, til þess er ekki ástæða þar sem okkur er öllum ljós þessi vandi. Ég held að okkur sé einnig ljós sú ábyrgð sem á okkur hvílir í þessum málum. Þegar við lítum yfir hóp barna og unglinga verðum við, eins og ástandið er í dag, að spyrja okkur: Hve margra í þessum hópi bíður sú ógæfa að falla fyrir ofneyslu áfengis og verða þar misjafnlega mikið því áhangandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og hörmungum? Ef við höfum þá mynd fyrir okkur held ég að við hljótum að vera sammála um að á þessum málum þarf að taka.