25.11.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Með þeirri till. til þál., sem hér er lögð fram, mun reyna á hvort hv. Alþ. vill taka af skarið um það, hvort hægt er að fá aflétt hættu- og vandræðaástandi sem bæjarstjórnir í Keflavík og Njarðvík hafa reynt að.fá leyst úr árangurslaust í nær 20 ár.

11. nóv. s.l. voru þessi svokölluðu tankamál til umr. hér í Sþ. Þar kom fram í máli tveggja hæstv. ráðh., að mikið vantar á að niðurstaða sé fengin í hvernig með málið verður farið. Hvorugur ráðh. aftók að um málið yrði fjallað í ríkisstj. Af því, sem fram hefur komið, verður að ætla að þar eigi það ekki greiða leið.

Með því að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, mundi hæstv. Alþ. taka af öll tvímæli og fela hæstv. utanrrh. að flýta málinu eins og tök eru á. Flm. vilja tryggja, að um málið verði ekki þras í ríkisstj., og taka undir þá skoðun hæstv. utanrrh., að málið heyri undir hann einan.

Ákvörðun um að velja olíustöð- stað í Helguvík er tekin að vandlega athuguðu máli. Tekið hefur verið tillit til jarðfræðilegra atriða varðandi strauma vatns neðanjarðar, jarðskjálftavirkni, vindáttar og ölduhæðar, skipulags brunavarna, olíumengunarvarna og náttúruverndarsjónarmiða, svo nokkuð sé nefnt. Allt þetta er m.a. forsenda fyrir algjörum einhug sveitarstjórnarmanna um staðarvalið.

Í grg. með till. kemur fram í stuttu máli flest sem máli skiptir. Meðal fskj. er sýnishorn af samþykktum og bréfum sem bæjarráðin hafa látið frá sér fara á undanförnum árum. Allt of langt mál hefði verið að láta prenta allar þær skýrslur sem hafa verið fengnar um málið, m.a. frá Brunamálastofnun, Siglingamálastofnun, Hafnamálastofnun, Heilbrigðismálastofnun ríkisins, heilbrigðismálafulltrúa Suðurnesja og skipulagsstjóra ríkisins. Þá má geta þess, að talsvert mun liggja hjá varnarmálanefnd, þ. á m. skýrsla nefndar sem fyrrv. utanrrh. skipaði fljótt eftir að hann tók við embætti til að gera úttekt á olíutönkum varnarliðsins og leiðslum frá þeim að höfninni. Ekki hefur skýrsla nefndarinnar komið fyrir augu sveitarstjórnarmanna syðra.

Í framhaldi af þessari úttekt hefur verið unnið við að sandblása tankana að innan. Botnar í mörgum þeirra eru mjög illa farnir af tæringu. Komið hefur fyrir að sandblásturinn hafi farið í gegn. Í tæringarpollana er klístrað maki og síðan málað yfir. Að dómi fagmanna er þetta tjasl aðeins til bráðabirgða. Eftirlit af hálfu Íslendinga með þessari viðgerð er ekkert. Siglingamálastofnun eða deild þar hefur eftirlit með slíkum verkum hér á landi, en í þessu sem mörgu öðru virðast íslenskar reglur ekki gilda þegar kemur inn fyrir vallargirðinguna. Miðað við hvað næstu nágrannar eiga hér mikið í húfi leyfi ég mér að skora á hæstv. utanrrh. að sjá svo til að eftirlit verði eftirleiðis með viðhaldsvinnu olíutanka varnarliðsins. Mér er kunnugt um að Siglingamálastofnun er ekkert að vanbúnaði að taka þetta eftirlit að sér ef henni verður falið það.

Sveitarstjórnirnar í Keflavík og Njarðvík eru nú búnar að standa í nær þrjátíu ára stríði við varnarmáladeild um að létta þessari plágu af íbúunum, eins og fyrr er sagt. Oft hefur þetta verið til umræðu í blöðum og eitt sýnishorn af því hef ég hér úr Þjóðviljanum 19. 12. 1978, með leyfi forseta:

„Frá því 1974 hefur sem sagt ekkert verið gert í þessu alvarlega máli. Menn stinga einfaldlega höfðinu í sandinn og bíða þess rólegir að vatnsból Suðurnesja verði eyðileggingunni að bráð. Í þessari staðreynd speglast enn og aftur undirlægjuhátturinn gagnvart hernum í heiðinni. En það er ekki aðeins herinn sem ber ábyrgð, heldur ekki síður þeir embættismenn sem um málið hafa fjallað og stungið háskalegum niðurstöðum undir stól. Nýbökuðum ráðh. utanríkismála og heilbrigðismála og formanni varnamáladeildar og heilbrigðiseftirlits ber að hreinsa embætti sín af ábyrgðinni áður en það verður of seint. Fyrirrennarar þeirra í þessum embættum hafa í þessu máli sýnt slíkt fyrirhyggjuleysi að furðu gegnir, en slíkt hefur því miður verið einkenni fyrir samskipti Íslenskra ráðamanna við herinn.“ — Ég læt þetta duga af blaðamat.

Áður hefur komið fram hér á Alþ. að öll vatnsból Suðurnesjamanna eru í stórhættu vegna olíumengunar. Ég læt nægja að vísa til þeirra umræðna hvað þann þátt varðar. Hér skal hins vegar bent á að tankarnir og leiðslurnar hafa lengi staðið í vegi fyrir skipulagi. Hluta af svæðinu, sem þessi mannvirki teppa er nú rætt um sem væntanlegan miðbæ fyrir Keflavík og Njarðvík sameinuð í eitt sveitarfélag. Út yfir allt tekur þó sú hætta sem næsta byggð er í. Læt ég hvern og einn um að hugleiða hvað þá gæti skeð ef tankur gæfi sig skyndilega og olían flæddi að byggðinni. Stöðugur straumur stórra bíla með eldsneyti fyrir flugvélar gegnum Keflavík og suður Reykjanesbraut á Keflavíkurflugvöll er síður en svo hættulaus og mál að því glæfraspili linni. Við höfum leigt varnarliðinu tanka frá endurkomu þess árið 1951. Þeim væri vorkunnarlaust að leigja okkur horn í birgðastöð sinni, ef þeir fá að byggja hana, og létta þar með af þessum flutningum á fjölförnustu leið landsmanna.

Það var fyrst í tíð núv. utanrrh. að hlustað var á kröfur sveitarstjórnarmanna í Keflavík og Njarðvík um að fjarlægja tanka varnarliðsins. Hann mun hafa haft samband við æðstu menn NATO og í framhaldi af því skipaði hann nefnd til að ræða við fulltrúa NATO um lausn á málinu. Ráðh. gerði sér grein fyrir að hér var um stórt og alvarlegt mál að ræða. Hann skammtaði nefndinni stuttan tíma til að ljúka samningum og mun hafa tryggt framgang málsins ef samningar næðust. Nefndinni tókst að ljúka verki sínu nokkurn veginn á tilsettum tíma og ná samkomulagi sem bæjarstjórnirnar í Keflavík og Njarðvík hafa samhljóða með öllum atkvæðum lýst sínum fyllsta stuðningi við. Í báðum bæjarstjórnum eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Sveitarstjórnir nágrannahreppanna hafa enga aths. gert við þetta samkomulag.

Síðan í maí hefur samkomulagið legið hjá varnarmáladeild án þess að frekar hafi verið aðhafst svo vitað sé. Ekkert hefur komið fram sem gefur tilefni til þess að efast um góðan hug núv. utanrrh. í málinu. Þó virðist það komið í strand. Samningar um meðferð á sorpi stóðu í 15 ár, þ.e. sorphreinsun á vellinum. Öllum hér er kunnugt hvernig gengið hefur með flugstöðvarbygginguna. Eins og ljóst ætti að vera af því, sem hér hefur verið rakið, þolir þetta svokallaða tankamál ekki sömu málsmeðferð. Framkvæmdir munu taka um 7 ár. Lengur en það verður ríkjandi ástand ekki þolað. Leiðsluna þarf að færa, eins og Njarðvíkingar hafa margbeðið um og loks voru vilyrði fyrir að gera í vor. Tankana, sem standa næst byggðinni, verður að taka úr notkun og helst eiga þeir að fara burt hið bráðasta.

Sá er munur á þessari framkvæmd og öðrum sem fjallað er um hér á hv. Alþ., að hún er okkur að kostnaðarlausu. Þeir menn munu til sem ekki mega heyra nefnt að NATO eða varnarliðið greiði kostnað við framkvæmdir hér á landi. Hugmyndinni um slíkt hefur verið valin nafngiftin „aronska“ og þar með lögð að líku við að tekin væri greiðsla fyrir þá aðstöðu sem varnarliðið hefur hér. Hér skal engin afstaða tekin til hugmynda um „aronsku“, hins vegar á það bent, að hér hefur verið í framkvæmd öfug ,aronska“ sem lengi bitnaði harkalega á sumum sveitarfélögunum fyrir sunnan. Þau höfðu árum saman bein útgjöld af varnarliðinu með því að sitja uppi með allt að 20% íbúanna gjaldfría varnarliðsmenn. Mörg fleiri dæmi mætti nefna um öfuga „aronsku“ í samskiptum okkar við varnarliðið. Slíkt kemur ekki þessu máli við, en mætti taka upp sérstaklega.

Hér er um að ræða framkvæmd sem NATO getur ekki komist undan ef hér á að vera varnarlið um óákveðinn tíma, svo sem allar líkur benda til. Yfirmenn NATO hafa nú viðurkennt að ekki sé seinna vænna að hefjast handa. Það stendur á okkur að svara. Vandamálið er tilkomið vegna ákvörðunar hv. Alþingis á sínum tíma um að hér skuli vera varnarlið staðsett í Miðnesheiði. Það er því rökrétt að ætlast til þess, að hér á hv. Alþ. fáist úrskurður í málinu. Alþ. hefur skapað vandann og því ber að leysa hann. Þeir, sem telja ástæðu til að hafa hér varnarlið, hljóta að gera sér grein fyrir að því fylgir ýmislegt, m.a. birgðir af olíu. Aðstöðu til þess að hafa slíkar birgðir í landinu hljótum við að leggja til, en að sjálfsögðu gerum við kröfu til þess, að frá tönkunum og öðru sé gengið samkvæmt ströngustu reglum. Samkomulag það, sem hér um ræðir um olíubirgðastöð í Njarðvík, gerir ráð fyrir að fyllstu kröfur séu uppfylltar.

Trúlega mun eitthvað af þm. vilja afgreiða þetta mal með gamalkunnum söng: Ísland úr NATO, herinn burt. — Þá þm. vil ég minna á að ef þeir styðja þá ríkisstj., sem er við völd og engin áform hefur um að reka herinn burt með allt sitt dót, þá bera þeir fulla ábyrgð á því ástandi sem íbúar Keflavíkur og Njarðvíkur búa við vegna þessara olíutanka og þess sem þeim fylgir. Okkar krafa er að úr þessu verði bætt eins fljótt og mögulegt er.

Herra forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til hv. utanrmn. og leyfi mér að vona að hún afgreiði það fljótt og vel.