26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

109. mál, aflatryggingasjóður grásleppuveiðimanna

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar að fara að fordæmi hæstv. sjútvrh. og fara örfáum orðum um bæði þau frv. sem hér liggja fyrir á dagskrá í hv. deild og fjalla um málefni grásleppuverkenda og grásleppuveiðimanna.

Það er eins og fram kom í máli hæstv. ráðh., að grásleppuveiðimenn hafa staðið nokkuð utan við það kerfi, sem gilt hefur um fiskveiðar almennt, og ekki átt sömu réttindi í sjóðum, hvorki Aflatryggingasjóði né Fiskveiðasjóði, og vafalaust rétt og þarft að taka á málefnum þeirra. Ég vil þó láta það koma hér fram, þar sem ég hef verið að glugga í þessu frv. og haft samband við þá menn sem að þessu vinna, að þrátt fyrir að fram komi í grg. að starfsmaður Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda hafi ferðast um landið og kynnt þessi mál fyrir hlutaðeigandi veit ég um ýmsa sem eru nokkuð stórir aðilar í þessari atvinnugrein og hafa lítið frétt af þessu máli og vita um hvað hér er á ferðinni. Þess vegna tek ég undir það með hv. þm. Guðmundi Karlssyni hv. 9. landsk. þm., að þetta verði allt saman að skoða mjög vel og ítarlega í sjútvn. þegar fjallað verður um þessi mál.

Það eru sérstaklega tvö atriði sem mér finnst að þurfi að skoða. Það er annars vegar, eins og hv. þm. nefndi hér í umr., hvort stofna beri sérstakan aflatryggingasjóð fyrir grásleppuveiðimenn sem kallar þá á sérstaka stjórn og sérstakt kerfi, hvort ekki muni vera mögulegt og hagkvæmara að hafa þetta sem deild í hinum almenna aflatryggingasjóði. Hins vegar er í frv. um útflutningsgjald af grásleppuafurðum fjallað um birgðaverkunar- og umpökkunarstöð í Reykjavík eða nágrenni. Hér held ég að sé verið að efna til byggingar og síðan rekstrar á stöð og starfsemi sem eigi eftir að verða nokkuð viðamikil og á ábyggilega eftir að kosta töluvert fjármagn.

Það er t.d. talað um að rök fyrir þessu séu að tryggja betur gæði vörunnar og ná samningum um hagkvæmari flutningskostnað. En það hlýtur að hafa í för með sér ákaflega mikinn aukaflutningskostnað að þurfa að flytja þessi hrogn, safna þeim um landið og flytja þau síðan til Reykjavíkur, skipa þeim hér upp og síðan skipa þeim aftur út.

Þar vil ég reyndar benda á fleiri atriði, sem þessi birgðastöð á að gegna, og sjálfsagt er eitthvað af því góðra gjalda vert. Ég vil geta þess að mér er kunnugt um að það hefur þótt hagkvæmara að sigla með þessi hrogn beint frá verkunarstöðum, safna þeim í eitt skip og sigla með þau beint til kaupenda erlendis. Ég held að það hafi tekist vel og gefið góða raun. Það hafa náðst mjög hagkvæm flutningsgjöld með þessu fyrirkomulagi þar sem stórir kaupendur eru við Limafjörð í Danmörku og þangað höfum við ekki beinar siglingar aðrar þannig að það hefur þótt hagkvæmara að fá til flutninga smærri skip og sigla með þetta beint frá framleiðslustað eða verkunarstöð til kaupendanna þar suður frá. Ég efast um að það form, sem hér er verið að tala um, geti gefið okkur ódýrari flutningsmöguleika eða geti leitt til ódýrari flutningskostnaðar.

Ég ætla ekki að fara um þetta fleiri orðum hér og nú. Ég vil aðeins leggja áherslu á að mér sýnist vera ýmislegt sem þurfi að skoða í þessu mjög gaumgæfilega og nákvæmar en ég held að hafi þegar komið fram í þeirri umræðu sem vafalaust hefur þó átt sér stað og farið fram á vegum samtaka grásleppuhrognaframleiðenda.