26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

109. mál, aflatryggingasjóður grásleppuveiðimanna

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður um þessi mál sem eru hér til 1. umr., en vil þó aðeins segja nokkur orð.

Það er lengi búið að vera baráttumál grásleppusjómanna að fá svipuð réttindi og aðrir sjómenn, og ég held að allir, sem nálægt þessu máli hafa komið, séu sammála um að það sé fullkomið og eðlilegt réttlætismál. Ég vil því taka undir þá meginhugsun sem kemur fram í þessum frv.

Ég held að það geti verið álitamál hvort fara eigi þá leið, sem hér er stungið upp á, og ég vil taka undir að það sé skoðað nánar. En þó vil ég segja frá því, að ég hef átt kost á að kynna mér þessi mál nokkuð. Við þm. Norðurl. e. vorum í sérstakri nefnd á sínum tíma sem fjallaði um mál grásleppusjómanna þegar þeir urðu fyrir tjóni vegna hafíss, og þá komu upp mörg vandamál í sambandi við það tryggingakerfi sem þeir hafa við að búa. Þá voru þessi mál rædd í okkar hópi frá mörgum hliðum, m.a. hvort aflatryggingakerfi grásleppusjómanna væri ekki betur komið undir hinu almenna aflatryggingakerfi. Á því sáust ýmsir annmarkar. Ég vil því hvetja sjútvn. þessarar hv. deildar til að fara rækilega ofan í þetta mál með jákvæðum huga, hvort hér sé um þá einu réttu leið að ræða. Ég skal ekki leggja á þetta mat. Ég held að það séu gallar á báðum hugmyndunum, bæði að fella aflatryggingakerfi grásleppusjómanna undir hið almenna kerfi og að halda því sér, eins og hér er stungið upp á.

Í framhaldi af þeim fáu orðum, sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason sagði um skipulag þessara mála, vil ég einnig hvetja til þess, að þær hugmyndir, sem hér koma fram um að grásleppusjómenn hafi möguleika á að hafa það kerfi, sem hér er stungið upp á, að safna sinni vöru saman á einn stað og hafa þannig yfirlit yfir sín sölumál. Þá leið á líka gaumgæfilega athuga með jákvæðum huga. Það kunna að finnast á því ýmsir annmarkar, en ég held að þarna sé á ferðinni merkileg hugmynd sem þurfi að skoða rækilega. — Ég vildi sem sagt hvetja til þess að sjútvn. kannaði þessi mál með opnum huga.