26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

109. mál, aflatryggingasjóður grásleppuveiðimanna

Sjútvrn. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu ekkert undrandi á því, að menn velta vöngum yfir ýmsum ákvæðum þessa máls. Hér er um nýskipan að ræða sem þarf að skoða mjög vandlega. Tek ég undir það með hv. þm. sem á það hafa lagt áherslu. En ég vil láta koma hér fram, að ég tel að það hafi að vísu verið gert eins og kostur hefur verið á, en fylgt hefur verið því megingrundvallarsjónarmiði að skoða vandlega tillögur samtakanna sjálfra. Ég vek athygli á því, að þarna er um að ræða þeirra eigin ósk um að leggja á þá sjálfa gjald og því ekki ósanngjarnt að þeir hafi verulegt ákvörðunarvald um hvernig því gjaldi verður ráðstafað. Þetta hefur verið það grundvallarsjónarmið sem ég hef starfað eftir og rn. við að undirbúa þessi mál.

Ég vil t.d. upplýsa að ég var nokkuð efins um að rétt væri að stofna sérstakan sjóð, eins og menn hafa hér nefnt. En fram kom að þetta er eindreginn vilji samtakanna. Ég vil taka það fram að bæði framkvæmdastjóri þeirra og reyndar stjórn hafa gengið á minn fund og ég hef ekki orðið var við annað en að þar væri fullkomin samstaða um þá skipan sem hér er lögð til.

Ég held að birgðastöðin sé athyglisverð hugmynd, eins og kom fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni áðan, sem eins og annað ber að skoða með opnum hug.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vil taka undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég vænti þess, að n. skoði þetta með opnum hug. Hún kveður að sjálfsögðu á sinn fund fulltrúa þessara samtaka ræðir við þá um þessi m ál, en ég leyfi mér að vona að n. sjái sér fært að afgreiða málið þó fyrir þann tíma sem ég gat um í framsöguræðu minni.