26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

120. mál, kosningar til Alþingis

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil leggja örfá orð í belg um þetta frv.

Ég vil taka það fram, að ég er mjög hlynntur því, að á komandi tímum verði gerðar breytingar á kosningalöggjöfinni. Eins og við þekkjum öll eru þar fjölmargir hortittir, ef ég má svo að orði komast. Framkvæmd kosninga, t.d. margvísleg tæknileg atriði, er þannig að þar er raunverulega alls ekki hægt að fylgja lögum. Hins vegar vil ég vekja athygli hv. þm., kannske fyrst og fremst flm., já, og þeirrar n. sem þetta frv. fær til meðferðar, á því, hvort 1. gr. frv. samrýmist stjórnarskrá okkar. Ég vil vekja menn til umhugsunar um það. Ég veit að frv. verður athugað vel í nefnd. Eins og hv. flm. kom inn á erum við bundin ákveðnum samningum við frændur okkar á Norðurlöndum.

Ég tók fram í upphafi míns máls, að ég væri fylgjandi því að færa kosningalöggjöfina til nútímahorfs. Hins vegar er ég í grundvallaratriðum á móti því að krukka í fá atriði. Ég vil frekast taka þá löggjöf til heildarskoðunar, en síður taka til umfjöllunar og breytinga einn og einn þátt þessarar löggjafar.