26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv, til l. um breyt. á lögum nr. 101 28. des. 1970, um Lífeyrissjóð bænda.

Mál þetta er flutt að beiðni stjórnar Lífeyrissjóðs bænda og á sér þá forstigu, að þegar lögin um Lífeyrissjóð bænda voru sett árið 1970 voru öldruðum bændum tryggð réttindi umfram það sem þeir ávinna sér með iðgjaldagreiðslum til sjóðsins. Um skilyrði fyrir bótarétti og um önnur ákvæði var höfð hliðsjón af ákvæðum laga um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, sem sett höfðu verið fyrr á sama ári. Sá veigamikli munur er þó á bótaákvæðum, að réttindi aldraðra félaga í stéttarfélögum vegna tíma til ársloka 1969 miðast við launatekjur og eftir þann tíma við iðgjaldagreiðslur til hlutaðeigandi lífeyrissjóða, en réttindatíminn einn ræður nær undantekningarlaust þegar ákvarða skal greiðslur samkv. II. kafla laganna um Lífeyrissjóð bænda. Þótti eðlilegt að réttindi aldraðra bænda yrðu með þessum hætti, m.a. vegna þess að margir þeirra höfðu aðeins að litlu leyti notið góðs af þróun undanfarandi áratuga í átt til stærri búa og aukinnar framleiðslu. Á hinn bóginn leggur stjórn Lífeyrissjóðs bænda nú til að regla þessi verði ekki látin gilda lengur en til ársloka 1980, þ.e. að réttindi, sem menn ávinna sér eftir þann tíma, miðist alfarið við iðgjaldagreiðslur til sjóðsins og nemi, eins og kemur fram í 1. gr. frv., 1.8% fyrir hvert réttindaár, en það er það viðmiðunarhlutfall sem gildir í lífeyrissjóðum félaga í ASÍ.

Með breytingunni er dregið úr því misræmi er orðið getur milli lífeyrisréttinda manna, sem fæddir eru árið 1914 eða fyrr og öðlast rétt samkv. II. kafla laganna, og réttinda manna, sem fæddir eru árið 1915 eða síðar og ávinna sér rétt einvörðungu í sambandi við iðgjaldagreiðslur samkv. I. kafla laganna.

Herra forseti. Ég held að ekki sé þörf á að fara frekari orðum um þetta frv., sem horfir fyrst og fremst til samræmis í gildandi löggjöf um lífeyrisréttindi. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.