21.10.1980
Sameinað þing: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

337. mál, málefni Flugleiða

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það verður ekki hjá því komist að ræða í nokkru samhengi annars vegar skýrslu þá, sem hæstv. samgrh. mælti fyrir í dag og borin er fram að beiðni okkar þm. Alþfl., og hins vegar það frv. til l. um málefni Flugleiða hf., sem fjmrh. lagði fyrir Ed. Alþingis í gær.

Það er auðvitað svo með þetta mál eins og flest önnur kannske, að það á sér mikla sögu. Einn þáttur þessarar sögu er, eins og hér var lýst áðan réttilega, ævintýri líkastur. Samt er það svo, að þar er nokkuð um bæði goðsagnir og ýkjur. Þau gömlu flugfélög, sem sameinuð voru, kannske illu heilli, snemma á þessum áratug voru auðvitað engar kennslubókarfyrirmyndir um frjálst framtak, ekki eins og um það má lesa í kennslubókum a.m.k. Þvert á móti voru þetta fyrirtæki sem í sögunni nutu margháttaðrar fyrirgreiðslu ríkisvalds bæði í fjármagnsformi og einkum og sér í lagi í formi pólitískrar fyrirgreiðslu í sambandi við einkaleyfi. Og ég hygg að inn í þessa sögu alla og inn í þá umræðu, sem hér á sér stað, spili sumpart fölsk ímynd um glæst einkaframtak, sem þó var a.m.k. að nokkru býsna blendið alla tíð.

En það breytir ekki hinu, að það er auðvitað alveg ljóst, og var ljóst fyrir allnokkrum árum, þegar einkum í Bandaríkjum Norður-Ameríku var tekin upp ný stefna í fargjaldsmálum, að vandamál þessa stóra og sameinaða félags jukust hröðum skrefum. Og það er líka ljóst — við getum séð það núna — að fyrirtækið brást ekki rétt við. Það brást of seint við. Stjórnin, sem sat fyrir félaginu, hikaði við að taka ákvarðanir. Þær ákvarðanir, sem kynntar voru fyrir tveimur mánuðum eða svo, voru auðvitað ákvarðanir sem a.m.k. átti að kynna, ef ekki taka fyrr. En það er svo með þetta mál eins og önnur, að það er auðvelt að vera vitur eftir á.

Þetta er auðvitað kjarni málsins. Og kjarni málsins er efalítið líka sá, að kenningar hagfræðingsins Galbraith eiga sennilega býsna vel við í þessum efnum. Hann segir að þegar fyrirtæki séu komin yfir ákveðna stærð og farin að teygja sig víða, þá gildi einu hvert rekstrarformið er, hvort um ríkisrekstur eða einkarekstur eða einhvern annan rekstur er að ræða, fyrirtækin hegði sér nokkuð svipað.

Ég get tekið undir margháttaða gagnrýni á ríkisfyrirtæki hér í landinu, sem eru þung í vöfum, taka seint ákvarðanir, bregðast seint við. En ég held að nákvæmlega sama gagnrýnin eigi við um ákvarðanir sem kynntar voru seint og ekki voru teknar í sögu þessa félags nú fyrir nokkrum árum. Við erum að hluta til að súpa seyðið af því nú, og nú er verið að biðja okkur, sem hér erum m.a. og kannske fyrst og fremst umboðsmenn skattgreiðenda, að taka þær til rækilegrar íhugunar.

Ég vil líka segja það um þetta mál, að flestar eða allar þær spurningar, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson bar fram hér á haustmánuðum 1978 og óskaði eftir að þm. tækju til ákvörðunar, áttu auðvitað fullan rétt á sér. Og auðvitað var engin ástæða til að bregðast illa við. Það var heldur engin ástæða til að væna þm. um illar hvatir, að ég tah ekki um að fara að blanda persónu hans inn í það, sem auðvitað kom þessu máli nákvæmlega ekkert við. Það voru bornar fram spurningar og þessum spurningum átti auðvitað að svara.

Í þessu sambandi vil ég ítreka og minna á hugmyndir sem hafa verið reifaðar hér í þingsölum á seinni árum um aukið hlutverk þingnefnda. Þetta hefði átt að vera verkefni þingnefndar. Og ég fullyrði að þá hefðu a.m.k. upplýsingar legið fyrr fyrir en raun hefur á orðið í þessu máli.

En þrátt fyrir það sem ég nú hef sagt vil ég taka það skýrt fram, að það á ekki að stýra fyrirtækjum úr sölum Alþingis, það á ekki að vera verkefni alþm. Hitt er eðlilegt, að alþm. hafi á þessu skoðanir og reyni að kynna sér mál þegar þeir sem umbjóðendur skattgreiðenda eru beðnir um að ganga í leikinn. Og auðvitað er það saga málsins, a.m.k. varðandi stóru upphæðirnar sem hér er um að ræða, að þetta tiltekna fyrirtæki bað ekki um þær, heldur þvert á móti, það vildi skera niður starfsemi sína og framkvæma það sem ævinlega fylgir óhjákvæmilegur sársauki, að fækka starfsfólki. Og fyrirtækið lagði þessar hugmyndir fram, að vísu frá rekstrarfræðilegu sjónarmiði sennilega of seint, og það er þá sem farið er að frumkvæði ríkisvaldsins, hæstv. ríkisstj. eða a.m.k. samgrh., sem í henni situr, nánast að skakka leikinn, biðja um að snúa dæminu við, fara hægar, leggja ekki niður flugið og segja ekki upp fólkinu. Og það skiptir verulegu máli í þessu samhengi, að þetta frumkvæði er frá ríkisvaldinu komið. Þar með er náttúrlega þetta sama ríkisvald að taka á sig vissa ábyrgð, bæði gagnvart fyrirtækinu og gagnvart fólkinu sem þar vinnur. Út af fyrir sig eru það auðvitað góð og gegn sjónarmið sem mæla með þessari ákvörðun ríkisstj., en það verðum við þó líka að hafa hugfast, að með þessum afskiptum, — og ég vil nú koma að því seinna, að þau hafa verið af ýmsu tagi, — með þessum afskiptum axlar auðvitað ríkisstj. vissa ábyrgð. Í þeirri skýrslu, sem fram er lögð í dag og hér hefur raunar verið vísað til, eru talin upp í fskj. II á bls. 15 atriði sem Íslenska ríkisstj. hefur kynnt í Lúxemborg, — og undir skrifar hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson - og auðvitað er ekki nokkur leið að skilja öðruvísi en sem loforð ríkisstj. til stuðnings þessu fyrirtæki og þessum rekstri, um sinn a.m.k.

En síðan fer það að gerast, að þessi afskipti fara að verða með ólíkindum. Á bls. 15 í skýrslunni eru kynnt loforð hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar, en kjarni málsins er bara sá, að í því frv. til l., sem lagt er fyrir Alþ. í gær, er gengið miklu, miklu skemmra en ráðh. hafði lofað í Lúxemborg, sem þýðir auðvitað einfaldlega það, að orðum ráðh. í þessum efnum var ekki að treysta, sem efalítið stafar af pólitískum innri ástæðum í núv. hæstv. ríkisstj. En ráðh. er auðvitað búinn að hafa margháttuð afskipti af þessu. Eitt eru loforðin í Lúxemborg, en aðstoðin, sem nú er verið að tala um, gengur miklum mun skemmra en þar er gert ráð fyrir. Annað eru hin dæmalausu afskipti þegar ráðh. virðist hafa mælst til þess við Seðlabankann, þó um það sjáist hvergi enn pappírar, að hann hjálpaði tilteknu starfsfólki Flugleiða til þess að kaupa hlutabréf rétt fyrir aðalfund sem verið var að halda í félaginu. Og ég vil vekja athygli á því, að Starfsmannafélag Flugleiða hefur mótmælt þessu, það á enga aðild að þessu. Ég held að a.m.k. annað flugmannafélagið hafi líka gert það. Og hvað er þá um að ræða? Það er engu líkara en að ráðh. sé að spila með tilteknum hóp innan fyrirtækisins í þessum efnum, og þetta er náttúrlega framkoma sem er slíkt einsdæmi, hygg ég og vona, að engu tali tekur. Það má hugsa þessa hugsun áfram. Hvað með starfsfólk frystihúsa ef það óskar eftir að eignast hlut í sínu fyrirtæki — sem kannske gengur illa að reka? Á þá sjútvrh. að skipa Seðlabanka að koma því til hjálpar? Ég sé að útgerðarmaður situr hér fyrir framan mig — hann ætti að hugleiða þetta. Og hvað með önnur rekstrarform sem illa ganga? Þetta er auðvitað tómt frumhlaup og flumbruháttur af hæstv. ráðh., en því miður dæmigerður fyrir fleira af því sem gerst hefur í þessum efnum. Ég bið menn bara að velta fyrir sér fordæminu sem þarna er gefið. Ég bið menn að velta því fyrir sér, að starfsmannafélag viðkomandi fyrirtækis hefur mótmælt því, að við það er ekki talað. Það er talað við tiltekinn hóp tiltekinna starfsmanna innan þessa fyrirtækis. Og þá er von að menn spyrji: Eru það fleiri undirmál sem fylgja gjörðum hæstv. ráðh. í þessum efnum? Og af hverju er eðlilegt að spyrja slíkrar spurningar? Vegna þess að nú á allra síðustu dögum, á sama tíma og verið er að leggja fram frv, um opinbera aðstoð við þetta fyrirtæki — og alveg burt séð frá því, hvort það er gott eða vont frv. — er hæstv. ráðh. að veita fyrirtæki, sem Iscargo heitir, einkaleyfi til farþegaflugs í fyrsta skipti, þrátt fyrir það, og mér er kunnugt um það, að umsókn um sams konar flug hefur árum saman legið í samgrn. frá öðru félagi sem þó stundar farþegaflug og heitir Arnarflug. Og ég spyr enn: Þegar allt þetta er tíundað, er þá ekki ástæða til að spyrja hvort það séu fleiri undirmál sem fylgja hjá hæstv. ráðh.? Og er ráðh. yfirleitt trausts verður í þessu máli? Hvaða undirmál gætu það verið?

Svo háttar til að því er fyrirtækið Arnarflug varðar, að eignaraðild Flugleiða að því nemur 57% af hlutabréfum. Fjmrh. fer fram á í þessu frv. til l., heimild til að veita tiltekna fjárhagsfyrirgreiðslu, sem skýrð er í fyrstu fjórum gr. frv., en í 5. gr, falast ríkisstj. eftir heimild til að setja þau skilyrði sem hún telur nauðsynleg. Hvernig list mönnum á það, að Alþ. framselji ríkisstj., — sem við vitum að logar í óeirðum, m.a. um þetta mál, og þar sem samgrh. hefur hagað sér, svo ekki sé meira sagt, skringilega í þessum efnum, — framselji henni skilyrði án þess að hafa hugmynd um hver þau eru? Á t.d. að selja hlut Flugleiða í Arnarflugi? Er það eitt af skilyrðunum? Og ég spyr: Ef það á að selja þennan hlut, hver á þá að kaupa hann? Iscargo kannske, sem augljóslega virðist njóta sérstakrar fyrirgreiðslu hjá hæstv. ráðh. nú? Spyr sá sem ekki veit. Það hlýtur að vera krafa þm., ef þeir eiga að samþykkja að ríkisstj. megi setja einstaklingum eða fyrirtækjum — eða hverju öðru því sem frjálst er í þessu landi — skilyrði, að þeir fái að vita fyrir fram hver skilyrðin eru, vegna þess líka að framganga hæstv. ráðh. í þessu máli nú síðustu daga hefur verið með slíkum endemum að honum er ekki treystandi til að fara með þessi skilyrði. Bæði er „prinsipið“ vont og sérstaklega hygg ég þó að það væri vont í þessu tilfelli, eins og þessi saga er orðin nú á síðustu dögum.

Ég er þeirrar skoðunar að því er 5. gr. þessa lagafrv. varðar, að það séu lögregluríkisaðgerðir sem hér er verið að leggja til, ef við skoðum þær í samhengi við aðra atburðarrás í þessu máli.

Það er fleira svo furðulegt í málflutningi um þetta efni, ekki síst hjá hæstv. ráðh., að ég gæti vel trúað að hann gæti hugsað sér að vera forstjóri fyrir flugfélagi. Hann er það bara ekki. Hann er samgrh. og alþm. En þegar hann talaði fyrir skýrslunni í dag flytur hann ræðu sem líkist helst yfirlitserindi á aðalfundi í hlutafélagi. Hver er munurinn? Hann tekur það t.d. sérstaklega fram, að löggjafinn eigi að skilyrða það með einum eða öðrum hætti, að samskipti starfsfólks og stjórnar fyrirtækisins eigi að vera góð. Ég hef aldrei vitað til þess, að það væri löggjafaratriði yfir höfuð að tala. Ég spyr náttúrlega fyrst: Fer ráðh. hér með undirmál eina ferðina enn? Er hann talsmaður einhvers tiltekins hóps innan þessa fyrirtækis, einhvers hálaunahóps til dæmis? Ef svo er, þá á ráðh. að segja það. En ég hef aldrei vitað til þess, að mannanna samskipti með þessum hætti séu löggjafaratriði. Við höfum ekki lög um það, að hjón eigi að koma sér vel saman, jafnvel þó það sé æskilegt. Við setjum ekki lög um það, að menn eigi að vera vinir, jafnvel þótt það sé æskilegt. Og við setjum ekki heldur lög um það, að samskipti innan tiltekins fyrirtækis eigi að vera góð. Ef ráðh. er að leggja til breytt eignarhlutfall innan þessa fyrirtækis, t.d. að starfsfólk eigi meiri hlut, þá er það allt annað mál. En þá á hann líka að segja það sem fyrir honum kann að vaka.

Ég vil koma aftur að því, að ég er þeirrar skoðunar, að margt hafi misfarist í rekstri þessa fyrirtækis á undanförnum árum. Ég er þeirrar skoðunar, að t.a.m. spurningar, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lagði hér fyrir Alþ. haustið 1978, hafi verið þess eðlis, að þeim hafi átt að svara. Og það átti ekki að snúa út úr. Ég vil enn ítreka þá hugmynd, sem við höfum einnig verið að tala fyrir, að þetta hefði átt að vera og hefði verið æskilegt sem verkefni þingnefndar. En það varð ekki, illu heilli. Allt um það, nú eru þessi mál komin í óefni og ríkisvaldið verður að taka um þau ákvörðun. Kjósi það að gera ekki neitt — þá er þessi starfsemi úr sögunni. Það var raunar það, sem fyrirtækið sjálft lagði til fyrir tveimur mánuðum. En ríkisvaldið byrjaði með afskiptum sínum að leysa málið allt öðruvísi svo að sá möguleiki er ekki til umræðu núna, ekki í sama formi. En geri ríkisvaldið ekki neitt nú, þá er auðvitað augljóst að þessi rekstur er búinn í bili a.m.k.

Hér er hins vegar lögð til tiltekin aðstoð, og það, sem á þessu augnabliki skiptir mestu máli, er hvort sú aðstoð er t.d. að mati forráðamanna félagsins, nægjanleg. Þrátt fyrir þau rök, sem hér hafa verið flutt fyrir hönd skattgreiðenda, tel ég að úr því sem komið er sé ekki um annað að gera en að halda þessu áfram í eitt ár, vitandi um þá áhættu sem það kann að vera fyrir skattborgara í landinu. En verði það niðurstaðan eftir eitt ár, að ekki sé grundvöllur fyrir þessari starfsemi lengur, hana verði að draga saman eða henni verði að hætta, má ég þá biðja um að betur verði að þeirri ákvörðun staðið en staðið hefur verið að ákvörðunum undanfarna mánuði, þó ekki sé með hagsmuni annarra en starfsfólks fyrirtækisins í huga. Það, hvernig staðið hefur verið að þessu, augljós innri átök í ríkisstj. og stórkostlegur áherslumunur einstakra ráðherra í þessu máli, hefur auðvitað skaðað málið allt, það er ljóst.

En niðurstaða mín er sem sagt sú, að ekki sé um annað að ræða úr því sem komið er en að gera þessa tilraun í eitt ár áfram, sem og þetta frv. felur í sér. En á sama tíma tel ég fráleitt að setja fram þau skilyrði sem fjallað er um í 5. gr. með þeim hætti sem þar er. Séu sett fram skilyrði, þá á að vera vitað fyrir fram hver þau eru. Og Alþ., sem þessa ábyrgð ber, á auðvitað sjálft að setja þessi skilyrði eða vita um þau til hlítar, því með öðrum hætti er verið að bjóða upp á blóðugan leik, sem enginn á skilið, hvorki þessi stofnun né það fyrirtæki sem þarna á hlut að máli. Allt er þetta auðvitað vandræðamál, en úr því sem komið er, þá er ekki um aðra leið að ræða. Auðvitað vonum við að til þess komi ekki, að starfsemi þessara fyrirtækja eða atvinnuöryggi fólksins verði stefnt í voða. En þegar verið er að taka áhættu með fé skattborgara að veði, — stundum er slíkt réttlætanlegt, og það gerum við auðvitað í miklu fleiri tilfellum,— verður að athuga skilyrðin betur en þetta frv. gerir ráð fyrir.