26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar skattalögin voru til umfjöllunar á síðasta ári kom í ljós við umr. þá að eiginlega gat enginn hv. þm. sagt fyrir um hvernig þessi lög mundu koma út í öllum einstökum tilvikum. Af þeirri ástæðu lagði ég til að lögin yrðu ekki látin taka gildi á þessu ári, en það yrði athugað nánar hvernig þau hefðu komið út ef þau hefðu verið í gildi og agnúar yrðu þá sniðnir af lögunum eftir þeirri reynslu sem fengist. Strax þegar álagningin var komin óskaði ég ásamt hv. þm. Helga Seljan að eiga viðræður við hæstv. fjmrh. út af framkvæmdinni, út frá því að við sáum að í mörgum tilvikum eða nokkuð mörgum tilvikum var ekki hægt að una því, hvernig álagning kom út. Fulltrúar bændasamtakanna mun einnig hafa gengið á fund hæstv. fjmrh.

Eins og kom fram í umr. hér í gær skipaði hæstv. ráðh. nefnd þar sem ríkisskattstjóri situr — hann er formaður — ásamt tveimur öðrum mönnum. Nú skilst mér, þegar nóvembermánuður er að tíða, að þessi nefnd hafi lítið unnið enn þá. Ég held að það sé eðlilegt að ráðh. upplýsi í umr. um þetta mál, hvernig hann hyggst taka á þessum málum. Ég held að ýmsir bændur telji að það séu óeðlileg rólegheit á ríkisskattstjóra, sem á að hafa frumkvæði í þessu máli, og vil ég því mælast til þess, að hæstv. ráðh. ýti við honum og efnd verði þau fyrirheit, að í þeim tilvikum, þar sem er sýnilegt að um mikið óréttlæti er að ræða, verði leiðréttingar gerðar.

Þar sem ég þekki best til, í Norðurlandskjördæmi eystra, mun hafa verið sú framkvæmd, að það var tekið tillit til þeirrar rýrnunar sem varð á afurðum bænda, en til hins aukna tilkostnaðar, sem var af völdum harðærisins, var ekkert tillit tekið. Nú tel ég að slík framkvæmd sé ekki i anda laganna, og ég tel að það þurfi engum lögum að breyta til að lagfæra þetta. Það er vitað mát, að það er hægt að sanna það í óteljandi tilvikum að kostnaðurinn var miklu meira en tvöfaldur við eðlilegar aðstæður og í sumum tilvikum urðu bændur alveg tekjulausir. Er þá hægt að þola að það sé farið eftir þessari grein, og er það í anda þessara laga?

Það var birt grein eftir Sigurð Þórisson á Grænavatni. Þar tekur hann eitt dæmi um hvernig þetta kemur út. Hann segir að í vissum tilvikum séu áætlaðar tekjur sem við vitum ekkert til, en svo segir hann: Ég fæ ekki heldur betur séð en að með sömu útfærslu á lögunum næsta ár verði þessum hjónum reiknaðar tekjur vegna þessarar skuldar og nemi sú tekjufærsla 2 millj. 290 þús. kr. — Þessar tekjur í ár voru rúmar 5 millj. miðað við það dæmi sem Sigurður á Grænavatni tekur í grein sinni.

Ég minntist á það í þeim fáu orðum sem ég fór hér um í gær, haft hefði verið blaðaviðtal við einn af þeim sem eru í nefndinni sem hæstv. fjmrh. skipaði. Þar kemur fram hvað þetta getur komið afkáralega út í mörgum tilvikum. Hann kemst líka að þeirri niðurstöðu eða slær því fram í viðtalinu að hann viti ekki hvernig margir þessir ungu bændur kæmust út úr þessu, og á náttúrlega alveg það sama við bændur á harðindasvæðinu, og segir síðan: Annaðhvort verður þeim með þessu vísað úr stéttinni með eignaupptöku eða þessir skattar verða aldrei greiddir.

Nú er ég alveg sannfærður um, þar sem ég þekki töluvert hæstv. fjmrh., að hann muni ekki vilja una því að menn verði að flýja af jörðum sínum eða jarðirnar verði boðnar upp vegna skatta sem eru lagðar á tekjur sem menn hafa ekki haft. Þess vegna verður að hefjast handa og ýta á að eitthvað sé gert. Ég vil nú mælast til þess, að við þessa umr. láti hæstv. ráðh. okkur verða einhvers vísari um hvernig hann muni taka á þessum málum miðað við þau dæmi sem mér er kunnugt um að hæstv. ráðh. þekkir og jafnvel miklu betur en ég. — Ég segi fyrir mig, að ég hefði aldrei staðið að því að þessi lög fengju lagagildi nú ef ég hefði ekki treyst þeim yfirlýsingum, að þessir annmarkar yrðu sniðnir af þegar þeir kæmu í ljós. Ég og ýmsir aðrir höfum haldið að okkur höndum í þessu efni vegna þess að við höfum viljað bíða og sjá hverju fram yndi í þessum málum.

Ég vil að tökum minna á að ákvæðið í t.d. 59. gr. hefur áður verið i lögum einnig má segja að allir stjórnmálaflokkarnir beri raunar ábyrgð á þessum skattalögum eins og þau eru. En það réttlætir okkur ekki á nokkurn hátt, og þegar við sjáum hvernig þetta kemur út í vissum tilvikum verðum við að gera kröfur til þess, að staðið verði við þau loforð sem gefin hafa verið.