26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Mönnum hefur orðið tíðrætt um 59. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en ég vil biðja menn að gleyma því ekki, að það má segja að aðalákvæðin séu í 7. gr. laganna. Þar stendur:

„Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.“

Þetta ákvæði er komið inn í lögin, eins og hér hefur komið fram, vegna þess að menn hafa talið sig sjá mikinn mismun milli þess að menn væru annars vegar launþegar og hins vegar eigin atvinnurekendur. Það hefur verið allbreið samstaða um að hér þyrftu einhverjar breytingar að koma til, og það er forsenda þess, að þetta grundvallarsjónarmið kom inn í lög, þ.e. að maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur, skuli reikna sér laun með hliðstæðum hætti og launþegi sem vinnur hjá honum.

Síðan kemur í 59. gr.: „Ef maður, er starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða hjá aðila honum tengdum, telur sér til tekna af starfi þessu lægri fjárhæð en ætla má að launatekjur hans hefðu orðið ef hann hefði unnið starfið sem launþegi hjá óskyldum aðila, skal ákvarða honum tekjur af starfinu. Ríkisskattstjóri skal árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til slíkrar ákvörðunar.“

Ég tel nauðsynlegt að deila þessu máli í nokkra þætti. Í fyrsta lagi eru margir sammála grundvallaratriðinu, sem kemur fram í 7. gr., að það sé eðlilegt að hliðstæðar reglur gildi um launþega annars vegar og þá, sem stunda atvinnurekstur, hins vegar. Síðan kemur aftur atriði í 59. gr. sem veldur enn meiri deilum að því er ég tel. Þegar þessi grein var samþykkt hér á Alþingi voru margháttaðar skýringar í framsögu og margháttaðir fyrirvarar. Ég er þess fullviss, að það á eftir að reyna á þessi atriði bæði fyrir ríkisskattanefnd og fyrir dómstólum. Ég veit ekki til þess að eitt einasta mál hafi enn verið úrskurðað hjá ríkisskattanefnd, hvað þá fyrir dómstólum. Það, sem við hljótum fyrst og fremst að spyrja okkur um í þessu sambandi, er þetta: Hefur löggjöfin brugðist eða hefur framkvæmdin að einhverju leyti brugðist eða hvað hefur brugðist?

Ég er þeirrar skoðunar, að ýmislegt hafi brugðist í framkvæmd þessara mála. Sannleikurinn er sá, að það hefur verið tilhneiging um langa hríð til að leggja miklu meira upp úr löggjöf um skattamál heldur en framkvæmd skattamála. Og ég veit að skattyfirvöld hafa átt í miklum erfiðleikum með að framkvæma þessi atriði, að sumu leyti vegna skorts á mannafla og einnig af ýmsum öðrum ástæðum. Mér sýnist t.d. að skattstjórar hafi haft þann hátt á, ef þeim hafa fundist tekjur viðkomandi aðila vera of lágar, að senda honum bréf og tilkynna honum að hann skuli hafa tilteknar tekjur. Ég er ekki samþykkur þessari framkvæmd mála hjá skattyfirvöldum. Ég tel að þeim hefði borið skylda til að skrifa viðkomandi aðila bréf og biðja um rökstuðning fyrir því, að hann reiknar sér þær tekjur sem hann tilgreinir á sínu framtali. Ég dreg mjög í efa að skattstjórar hafi heimild til að skrifa mönnum bréf og segja með einföldum hætti: Tekjur yðar ákvarðast þessar í samræmi við 59. gr.

Þetta eru atriði sem þurfa athugunar við. Spurningin er sú, á hvaða vettvangi það á að vera. Á Alþingi að bíða þess, að ríkisskattanefnd og dómstólar fjalli um þessi mál, eða telur Alþingi ástæðu til að verða fyrra til að breyta hér einhverju? Ég býst við að það sé mjög miklum erfiðleikum háð að lögfesta þær viðmiðunarreglur sem hér er talað um, en það kemur þó vissulega til greina. Það eru lögfest ýmis atriði sem á að taka tillit til, eins og aldur, heilsa, starfstími og umfang starfsins, og ég tel að lögin nái fyllilega yfir aðstæður sem hv. þm. Steinþór Gestsson rakti áðan varðandi tiltekinn mann. Mér þykir það nokkuð furðulegt, ef ekki er tekið tillit til slíkra aðstæðna, miðað við þau lög sem hafa verið sett um þessi mál. En þetta eru atriði sem þurfa vissulega athugunar við.

Vegna orða hv. þm. Halldórs Blöndals um að við mundum hraða afgreiðslu þessara mála í fjh.- og viðskn. vil ég taka það fram, að við höfum þegar tekið á dagskrá tvö frv. sem hann minntist hér á, annars vegar um svokallaða barnaskatta og hins vegar um vaxtafrádrátt, sem ég skal ekkert segja um hvenær við getum lokið við. En ég er reiðubúinn að beita mér fyrir því, að nefndin leggi nokkra vinnu í þetta atriði og kalli fyrir menn frá ríkisskattstjóraembættinu varðandi þessi atriði. Mér hefur fundist ganga hægt með störf þeirrar nefndar sem átti að vinna að þessum málum, og tel fyllilega eðlilegt að fjh.og viðskn. reyni að setja sig sem best inn í þessi atriði. Hvort nauðsynlegt verður að gera breytingar á skattalögunum skal ég ekki um segja. Ég vil fá skýringar á ýmsum atriðum sem mér hefur fundist fara nokkuð úrskeiðis. Þetta þurfum við að meta. Hins vegar vil ég taka fram að ég er þeirrar skoðunar, að framkvæmdin hafi ekki verið með þeim hætti sem við hefðum getað vænst. En þá vil ég einnig segja, að vel má vera að við ætlumst oft og tíðum til of mikils af skattyfirvöldum miðað við þann mannafla og tæki sem þau eiga við að búa.

En það, sem mér finnst að athugunin þurfi fyrst og fremst að beinast að, eru viðmiðunartekjurnar og með hvaða hætti skattyfirvöld meta aðstæður. Taka menn tillit til þeirra aðstæðna, sem teknar eru fram í lögunum? Taka menn tillit til þeirra aðstæðna, sem teknar voru fram í framsögu með málinu og hafa vissulega lagaskýringu? Þetta tel ég að þurfi allt saman að liggja fyrir áður en menn rjúka til og breyta lögum.

Ég veit vel að það eru til mörg dæmi þess, að menn hafi fengið óréttláta skattlagningu. Og vel má vera að þau dæmi séu þess eðlis, að það sé réttlætanlegt að breyta lögunum. En ég veit hins vegar um fjölmörg dæmi þess, að menn hafi ekki farið illa út úr þessari skattlagningu, og mér hefur skilist — enda þótt hreppar hafi kvartað hvað mest undan þessari skattlagningu — að einhverjir þeirra hafi beðið um að fá að hækka útsvarið vegna þess að útsvarsálagningin hafi verið svo lág í viðkomandi sveitarfélagi. Þetta þurfa menn líka að tíunda. Mér finnst að jafnvel þótt menn sjái óréttlæti á ýmsum stöðum, þá þurfi menn að athuga hvers eðlis það er og hvort nauðsynlegt sé að breyta löggjöf, því að það er nú svo í þessu þjóðfélagi, að menn gera alltaf mest úr þeim dæmum þar sem illa fer, en gera lítið úr þeim dæmum þar sem skattlagningin kemur út af fullu réttlæti. Mér hefur fundist menn gera mikinn mat úr þeim dæmum sem hafa komið fram um óréttláta skattlagningu sem ég hef séð og veit um, en ég veit að þau eru miklu fleiri þar sem skattlagningin hefur komið ágætlega út fyrir viðkomandi skattþegna og jafnvel mun betur en nokkru sinni áður.